Þuríður í Delhí dagur 58
Þessir síðustu dagar eru sko leeeeeengi að líða. Ég ákvað að vera ekkert að flýta mér á fætur og reyna bara að sofa af mér sunnudagsmorguninn. Eftir að hafa ítrekað vaknað við að bankað var á hurðina og svo að endingu var hringt upp á herbergi til að athuga hvort ég ætlaði að fá kvöldmat, gafst ég upp á að sofa, það var nú ekki seinna vænna en að hafa það á hreinu kl. hálftólf hvort ég ætlaði að fá kvöldmat. Ég urraði geðvonskulega nó í símann, nó dinner and nó luns tomorrow, svo slamm þegar ég skellti á. Mamma skildi ekkert í þessum pirringi, ég tautaði eitthvað um að ég væri sko alveg búin að fá nóg hérna, mikið yrði gott að komast bara heim.
Seinni partinn ætlaði ég að fara út en komst þá ekki lengra en að lyftunni, hún var náttúrlega biluð og engin leið að vita hvenær viðgerð yrði yfirstaðin.
Í dag birtist á baksíðu moggans frétt um mig og meðferðina sem ég er að undirgangast, mér skildist á systur minni að hægt væri að misskilja fréttina þannig að ég hefði alfarið fjármagnað ferðina sjálf, ég ætla hér með að leiðrétta það. Ég og fjölskylda mín höfum notið ótrúlegs velvilja fólks, bæði ættingja, vina, og ókunnugra, það er mjög einfalt að ef fólk hefði ekki brugðist við eins og það hefur gert og styrkt mig til fararinnar þá hefði ég ekki getað farið. Öllu þessu fólki þakka ég hjartanlega fyrir hjálpina og vona að ég verði svo gæfusöm að njóta velvilja fólks áfram því ég er rétt að byrja í meðferðinni og aðeins er að verða búin ein ferð af kannski níu og þarf nú að fara að huga að að geta farið í næstu ferð.
Líklega hefur blaðamaðurinn hjá Mbl. meint að við fengjum enga aðstoð frá opinbera kerfinu eða Tryggingastofnun alla vega kýs ég að leggja þann skilning í fréttina, enda er það rétt.
Í fyrramálið fer ég í síðustu stóru sprautuna, hún verður reyndar framkvæmd hér þannig að ég þarf ekki að fara á hinn spítalann og slepp því alveg við að ferðast í svörtu rúgbrauði. Eftir að hafa belgt mig út af pizzu og kóki var ekkert annað að gera en að glápa á sjónvarpið þar til svefninn tæki yfir. Mamma pakkað nánast öllu sem ég er með í töskuna í dag – útilegunni er að ljúka og ekki á morgun heldur hinn höldum við af stað heim aldeilis reynslunni ríkari, og ég með aðeins virkari líkama en áður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.