Þuríður í Delhí dagur 33

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

 Það var sannarlega ástæða til að fagna í dag, mér gekk nefnilega bara vel að labba áfram núna, undarlegt hvernig dagamunur getur verið á manni, ég held samt að ég sé að ná betri tökum á þessu. Það að standa á fjórum fótum og gera kryppu og svo sveigju á bakið gengur líka betur.

kerrustrakar-300x225Shivanni er samt alltaf til staðar til að styðja við ef ég fer að halla til hliðanna, þetta er samt rosalega erfitt fyrir hendur og úlnliði ennþá. Eitthvað af nýjum andlitum er að bætast við hér í stað þeirra sem voru að fara. Loksins þegar maður er farin að kynnast fólkinu aðeins þá fer það, við vonum bæði að við eigum eftir að hitta þetta fólk aftur hér seinna. Ég er alveg búin að sjá að svona meðferð tekur maður ekki með snöggu áhlaupi, heldur gerist þetta á löngum tíma, ég velti því fyrir mér hvort breytingar hjá mér gerist svo hægt að ég fatti ekki að eitthvað hafi breyst, þá er ég helst að hugsa um hvort ég hafi fengið meiri styrk í maga og bakvöðva. Ég er mjög ánægð með sjúkraþjálfana hér, þó það sé erfitt þegar manni er sagt að hugsa alltaf hreyfinguna um leið og þjálfinn framkvæmir hana þá er ég viss um að það er að virka. Fyrst þegar ég kom átti í rosalegu basli þegar ég lá á hliðinni og átti að kreppa hnéð og svo að spyrna fætinum út, ég var búin að gleyma tilfinningunni, búin að gleyma hvernig vöðvarnir virkuðu þannig að ég var alveg týnd í þessari æfingu. Í dag finnst mér ég hafa fengið tilfinningu fyrir hreyfingu niður í kálfana, þó ég hreyfi þá ekki sjálf. Td. ef Shivanni hreyfir á mér fæturna þá finn ég aðeins fyrir vöðvahreyfingu niður í kálfa, þessi tilfinning er þó öðruvísi heldur en þegar ég var heilbrigð. Alla vega finnst mér ég vera betur tengd í neðri partinum. Annars var þessi dagur tíðindalaus, við skruppum í Costa kaffi, kaffiþjónarnir komu út um leið og við stoppuðum fyrir utan, þeir hjálpuðu Árna að bera mig upp stigana, enda farnir að þekkja okkur, liggur við að þeir viti hvað við ætlum að panta í það og það skiptið enda erum við vanaföst. Við áttum fund með dr. Geetu á þriðjudaginn, hún fór yfir hvort ég finndi einhverja breytingu og þess háttar, síðan talar hún við Shivanni og svo ákveður hún áframhaldið, hvaða sprautur ég á að fá og þjálfun í framhaldinu og svoleiðis. Hún vildi endilega að ég byrjaði að æfa mig að pissa, svo ég sit tímunum saman á settinu og rembist við að pissa, það hefur reyndar verið tímasóun enn sem  komið er en kannski gerist eitthvað allt í einu, þannig að það er betra að hlýða henni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir