Þuríður í Delhí - Dagur 28

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Áfram fylgjumst við með Þuríði Hörpu en að þessu sinni er hún komin aftur á sjúkrahús þar sem hún fær stofnfrumusprautu í mænuna.

Í dag á ég að mæta í mænusprautuna, kl. hálfátta komu hjúkkurnar að sækja blóðprufu og þvagprufu. Við sváfum áfram til níu. Ég fór í endurhæfinguna og þvældist í gegnum gönguæfinguna, nú tóku þau efsta partinn af spelkunum sem þýðir að ég hef ekki lengur mjaðmastuðning, ég varð óþyrmilega vör við það þegar rassinn allt í einu hentist aftur á bak út í loftið sem betur fer  hélt ég í stuðningsbrúna  og náði að vega mig upp aftur, eftir þetta tók ég agnarsmá spor, til að vera örugg um að mjaðmirnar á mér tækju ekki af mér völdin aftur.

Mér gengur smá saman betur að ná jafnvægi á fjórum fótum og að ná að skjóta upp kryppu og fetta svo bakið, eitthvað sem ég hélt að væri algjörlega ómögulegt, því miður gengur mér ekkert að skríða hjálparlaust á fjórum fótum, en ég vona að það komi smá saman þarf þó líklega að bíða í einhverja mánuði eða ár eftir því. Eftir æfinguna tókum við saman það sem við þurftum og um hálftólf lögðum við af stað á hinn spítalann. Tilfinningin fyrir þessari byggingu hefur ekkert lagast, mér finnst þetta enn vera hálfgert greni. Okkur var vísað upp og nú í betra herbergi, ég gat nú ekki séð neitt betra við þetta nema jú, það var þarna mjór bekkur sem Árni gat lagt sig á.

David, framkvæmdastjóri kíkti á okkur og bauð okkur velkomin. Hann hélt að það byggju 4 millj. manns á Íslandi, sagðist rugla þessu saman við Skotland. Hann spurði hvort íslendingar færu í sólarfrí til Spánar og hvort við brynnum ekki rosalega þar, svo gerði hann grín að því hvað við vorum hvít. Ég reyndi að yfirheyra hann um afhverju þau byðu ekki upp á betra húsnæði og afhverju hjúkrunarheimilið væri ekki betur útbúið fyrir fólk í hjólastól. Honum virtist gremjast þessar spurningar og sagði okkur að spítalinn sem við vorum á hefði verið byggður fyrir 15 árum, (ég hefði veðjað á 50-60) og þá sem fæðingarheimili þannig að allsekki hefði verið gert ráð fyrir að fólk í hjólastólum notaði það, þeim hafði greinilega ekki hugkvæmst að breyta þessu neitt. Hann sagði að hjúkrunarheimilið væri talsvert yngra og hefði verið byggt sem hótel.

Honum fannst þessar aðfinnslur okkar út í hróa hött og spurði hvort okkur þætti það raunhæft að hjúkrunarheimilinu yrði lokað í 6 mánuði á meðan væri verið að gera úrbætur plús það að stuðningshöldur á veggjum væri eitthvað sem ekki væri hægt að setja upp nema fyrir hvern og einn sjúkling því þeir þyrftu svo mismunandi hæðir. Við gáfumst upp á þessu samtali, enda greinilegt að maðurinn hugsaði ekki alveg á réttu nótunum. Hjúkkurnar komu til að undirbúa mig fyrir sprautun, þær settu æðalegg þar sem ég fékk glúkósa í æð, og nokkrar hrossasprautur af sýklalyfjum. Fyrst tékkuðu þær á hvort ég sýndi einhver ofnæmisviðbrögð með því að sprauta smáskammti innan á handlegginn fyrir neðan olnbogann, ég hefði getað lamið hjúkkuna, hún rak nálina á kaf og hrærði henni svo eitthvað til og sprautaði ég argaði af sársauka, sveimérþá mér fannst hún beinlínis hafa ráðist á mig, líklega var hún ný í djobbinu.

Mænusprautan sjálf gekk vel, ég beið þó á bekknum í sirka klukkutíma eftir lækninum sem að lokum kom, ég fékk aðeins einu sinni spasma í magann og varð ekkert þungt um andardrátt. Þessar sprautur gera mann þó alltaf rosalega þreyttann. Mér var rúllað inn í herbergi um hálfþrjú, síðan var bara að glápa á sjónvarpið og sofa. David kom aftur til að taka niður pöntun hjá okkur á morgunmat, hann bauð upp á eggjahræru og ommilettu, spurði hvað við vildum mikið af eggjum og hvað mikið af ristuðu brauði. Svo vildi hann endilega að við fengjum okkur indverskt te, sagði teið sem ég hafði verið að drekka á hjúkrunarheimilinu bara rusl. Við féllumst á að prófa. Árni spurði hvort hann gæti ekki fengið að sjóða vatn í bollasúpu, hann fékk leyfi til að fara í eldhúsið. Hann kom þaðan frekar fölari enn venjulega, sagðist aldrei hafa séð annað eins eldhús sirka 5-6 fermetrar. Enginn pottur var til að sjóða vatnið í heldur bara skítug vogpanna. Indverjarnir sem höfðu verið til aðstoðar í skurðstofunni sátu og mokuðu upp í sig með höndunum. Þeir voru mjög vinalegir við Árna það vantaði ekki, en áhöldin og aðstaðan fannst Árna svo bágborin að  hann ákvað að héðan í frá borðaði hann ekki einu sinni hrísgrjónin sem fylgir matnum. Það er víst allur maturinn fyrir bæði sjúkrahúsið og hjúkrunarheimilið eldaður í þessari kytru. Maður spyr sig enn og aftur, hvernig getur maður sem alinn er upp í Bretlandi og virðist vera nokk góðu vanur, rekið sjúkrahús án þess að hafa snefil af áhuga á að reyna að endurbæta nokkurn hlut þar.
Mér finnst allavega að meðferðin hér sé það dýr að einhver afgangur ætti að vera fyrir úrbótum, við erum nú nokkur sem komum hér frá öðrum löndum og ekki er launakostnaður að sliga þetta hér, nema framkvæmdastjórar og forstjórara borgi sjálfum sér svona vel. Nóttin leið og ég lá á bakinu frá kl. hálfþrjú og til níu daginn eftir. Eins og áður var múrsteinum hlaðið undir rúmfæturna til fóta þannig að höfuðið vísaði niður, allt gert til að stofnfrumurnar næðu á skaddaða svæðið. Ég fékk eiginlega engann höfuðverk og varð ekkert óglatt en ég var lystarlaus þannig að ommolettan sem við fengum í morgunmat var kærkomin. Mr. David kom svo til að athuga hvort við hefðum ekki verið ánægð með morgunmatinn, og þegar við sögðum með íslenskri hógværð að hann hefði bara verið góður, var hann alveg rasandi bit, hvort okkur hefði ekki þótt algjörlega frábært að fá svona morgunmat og orðum sínum til áherslu veifaði hann höndunum eins og hann ætlaði að taka til flugs, ég veit ekki alveg hvaða standart maðurinn hefur enn þetta var fín tilbreyting og ekkert annað og svo var engin rauða í þessari eggjaköku bara hvíta.
Ég verð reglulega að taka sjálfan mig niður á jörðina og minna mig á að ég er hér í aðeins einum tilgangi og hann er sá að fá þessar stofnfrumur og fara í æfingarnar, allt annað þarf ég bara að hugsa um sem aðstæður sem ég þarf tímabundið að búa við og að ég get litlu sem engu breytt um þær. Ég skil þennan menningarheim svo lítið ennþá. Hér hefur hver sitt verk og enginn gerir neitt nema hafa fengið skýr fyrirmæli frá þeim sem ræður. Vinnulýðurinn hér virðist allsekki hafa sjálfstæði eða leyfi til að hugsa sjálfstætt. Ég reyndar á mjög erfitt með að skilja þankaganginn hér og skilja hvernig þessi menning er byggð upp. Fyrir mér er Delhí eitt allsherjar kaós þar sem fólk sem á ekkert nema götubarinn sem það er með á hausnum mælir hér göturnar  alveg eins og fólkið sem á og rekur hátæknifyrirtækin, inná milli er allskonar fólk og svo heilögu kýrnar, þetta þvælist hér hvert um annað í allsherjar glundroða sem íslendingurinn ég skilur bara ekkert í. Hér er bilið milli ríkra og fátækra ótrúlega breitt og ótrúlega sýnilegt okkur sem förum hér um.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir