Þuríður í Delhí dagur 18 - 19

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Áfram höldum við að fylgjast með ferðalagi Þuríðar Hörpu til Delhí þar sem hún gengst undir stofnfrumumeðferð. Eins minnum við á óskasteinasöluna og fjársöfnun Þuríðar til handa en nú þurfum við að fara að safna fyrir næstu ferð hennar sem vonandi verður farin í janúar. Meðferðin er þegar farin að skila árangri og verður spennandi að fylgjast með hvað næstu mánuðir bera í skauti sér. Hægt er að styrkja Þuríði inn á www.oskasteinn.com

Dagur 18

Það er bankað laust á dyrnar kl. er 8 ég á að mæta í endurhæfingu kl. 9, hvaða vesen er þetta, ætli það sé búið að breyta tímanum á mér og ég verði hér eftir kl. 9 hugsa ég. Alls ekki ásættanlegt, ég bara nenni ekki á fætur svona snemma, auk þess sem dagarnir eru alveg nógu lengi að líða hér þó þeir verði ekki lengdir enn frekar með að fara snemma á fætur. Ég ákvað að tala um þetta við sjúkraþjálfarann og fá að mæta alltaf kl. 10, það munar um klukkutímann.

Morgunmaturinn samanstendur af kaffi og ristaðri brauðsneið, sem ég hafði allsekki lyst á, ég renni augunum á sultukrukkuna sem inniheldur hvorki meira né minna en 1 kg. af sultu. Við höfðum ekki þorað að testa hana enn, ég spáði í hvort brauðið yrði kannski skárra ef ég setti sultu á það og ákvað að tékka á því í hádeginu. Endurhæfingin gengur vel, skv. mínu mati allavega, ég er komin með töluvert betra setjafvægi og einhver óútskýranleg tilfinning er að gera vart við sig í kálfunum á mér, þ.e. ef fæturnir eru hreyfðir þá finnst mér ég finna fyrir einhverri vöðvahreyfingu allveg niður í kálfa. Mig vantar hinsvegar að fá meiri tilfinningu í hæla og iljar, já og bara meiri tilfinningu yfirhöfuð, en ég veit að það getur tekið talsverðan tíma og í raun hef ég fengið meiri breytingu en ég átti von á að fá á svo skömmum tíma, þó breytingin sé ekki sýnileg með augum. Sjúkraþjálfarin er farin að færa sig upp á skaftið, nú vill hún að ég standi á fjórum fótum og færi mig skref fyrir skref áfram og aftur á bak. Hún vill líka að ég setji upp kryppu á bakið og sveigi það svo niður. Ég á í algjöru basli með þetta á mjúkri dýnunni, hendurnar á mér sökkva í dýnuna og ég á erfitt með að finna jafnvægi, þannig að ég geti verið á fjórum fótum án þess að fá stuðning, en það tekst að lokum, síðan færi ég aðra hendina fram og reyni að lyfta fætinum á móti sem sjúkraþálfinn færir þá fram. Svona gengur þetta skref fyrir skref, þar til ég finn alltíeinu óþyrmilega til í úlnliðunum það er svo mikil sveigja á þeim þar sem ég sekk í dýnuna. Síðan á ég að setjast upp og sparka í stóran bolta með lömuðum löppunum, mér tekst að ýta í boltann, en hef þó grun um að hluti af hreyfingunni komi frá efri partinum, sjúkraþjálfinn staðhæfir að einhver hreyfing sé til staðar og hún styrkist dag frá degi. Svo skrýtið er að mér gengur betur að sparka í boltann með vinstri fæti, en innanlæris æfingar koma miklu betur út á hægri fæti hjá mér og það er á hægri fæti sem greinileg vöðvavirkni finnst þegar ég reyni að spenna vöðvana. Ég er algjörlega búin eftir æfinguna og fer bara beint í rúmið. Gönguæfingin er eftir hádegið og eftir hana ætlum við aðeins út að gá hvort við finnum ekki ritfangaverslun hér nálægt. Gönguæfingin gekk stirðbusalega nú var ég látin ganga út á hlið, ég hreinlega skildi ekki hvernig í ósköpunum mér ætti að takast að færa fæturna, til hliðar þar sem mátturinn til þess er enginn, en sjúkraþjálfinn var ósveigjanlegur og hún sagði að þetta kæmi, um leið og ég fattaði hvernig ég gæti beitt líkamanum til að framkvæma þessar fótafærslur. Eftir endurhæfingu fórum við út, hitinn ekki minni en áður eða 38 stig og sól, sem er gott því þá er einhver von til að við fáum þvottinn okkar til baka. Ég hef komist að því að líklega er þvotturinn okkar og þvotturinn af sjúkrahúsinu þvegin að stórum hluta í höndunum og ef það rignir er ekki hægt að þurrka hann, þannig að maður biður bara um sól svo maður fái spjarirnar aftur. Við fundum ritfangaverslun, pínulitla sem seldi ritföng, teikniblokkir, liti, tyggjó, súkkulaði, skart og töskur. Ég keypti tvo góða tússpenna, fimm  teikniblýanta, strokleður, yddara, a4 teikniblokk, tvö súkkulaðistykki og borgaði um 400 íslenskar krónur fyrir þetta, ótrúlega ódýrt. Síðan héldum við heim á leið aftur, skil ekki hvað ég er eitthvað þreytt þessa dagana, allavega finnst mér ekkert slæmt að liggja bara útaf og dotta þegar æfingarnar eru yfirstaðnar, glápa á sjónvarpið og svo er ég að lesa bókina eftir Stieg Larson, algjör snilld.



Dagur 19

Ég rifa augun, það er örugglega eitthvað bogið við þessa loftkælingu, hrikalega getur verið heitt hér inni, samt finnst mér alltaf rosalega kalt þegar ég kem inn í herbergið af því að engin loftkæling er frammi. Verð að biðja alltmúligt kallana að kíkja á þetta svo ég lendi ekki í andnauð í nótt, ein nótt án loftkælingar nægir til þess að ég vil ekki upplifa svoleiðis aftur hér. Nú á ég að mæta kl. tíu, sjúkraþjálfinn minn var svo almennileg að breyta tímanum á mér og hér eftir mæti ég kl. 10 og svo eftir hádegi kl. hálftvö. Dagurinn í dag er líkur öðrum dögum, ég er enn í einhverju þreytu ástandi, held bara að þessar stofnfrumur séu að draga úr mér allann mátt. Við ákváðum að sleppa hádegismatnum í dag. Þess í stað býður vert herbergisins upp á pakkasúpu a la Knorr glóðaða brauðsneið með indversku smjöri og ávaxtasultu og te. Ég er komin með ógeð á kaffi, getiði ýmindað ykkur! Það hefur bara skeð einu sinni áður og það var eftir slysið. Ég velti fyrir mér hvað þessar stofnfrumur séu eiginlega að gera mér, að vísu halda læknarnir því fram að við verðum að haga lifnaðarháttum okkar eins og við myndum gera ef við ættum von á barni, sama gildir um karlmennina, ekkert áfengi, engin eiturlyf, engar reykingar, gott fæði, og nægur svefn og svo að sjálfögðu vítamín og járn. Svo að reyna að vera í góðu andlegu jafnvægi, ekki flókið þetta og ósjálfrátt, er maður komin inn í ólétturútínuna með ógeð á kaffi en æði fyrir indverskri sultu. Við ákváðum að kíkja út og fara á Dilli Hat markaðinn aftur svona til að sjá hvort búið væri að skipta út liðinu sem var þarna síðast, en þá sögðu kaupmennirnir að þeirra síðasti dagur væri nú og þessvegna lækkuðu þeir verðin. Bílstjóri hjúkrunarheimilisins keyrir með okkur á markaðinn á læknisbílnum en það er Suzuki bíll með nógu stóru skotti fyrir stólinn og klæddur ljósu leðri að innan. Þegar við komum inn á svæðið er fyrsti maðurinn sem við sjáum strákur sem seldi mér útsaumað sjal úr kasmír og ullarblöndu síðast þegar ég var hér. Ég varð svoldið undrandi því hann hafði sagt mér að hann væri að fara af svæðinu og síðasti séns fyrir hann að selja, þegar ég álpaðist til að kaupa af honum. Hann kom skælbrosandi og bauð okkur velkomin, spurði hvort við myndum ekki eftir sér o.s.frv. Ég bar það upp á hann að hann hefði sagst vera að fara síðast þegar við hittumst, hann átti náttúrlega svar við þessu, hafði fengið inni aftur og var nú komin með sitt eigið sölutjald, hann hefði átt eftir að selja svo mikið. Við kvöddum hann og héldum áfram, eftir nokkra stund var ég búin að kveikja á því að flestir ef ekki allir sölumennirnir sem ég hafði talað við síðast voru þarna enn, bara á öðrum stöðum. Sumir komu hlaupandi á eftir mér og sögðust enn geyma silkiklútinn sem ég hafði skoðað um daginn, hvort ég vildi ekki kaupa hann núna og að sjálfsögðu var special price for you my friend. Við þvældumst þarna um og eftir tvo klukkutíma vorum við búin að fá nóg. Þegar við komum út af svæðinu var litli betlarinn mættur, sirka níu ára drengur sem suðaði stanslaust í okkur að gefa sér eitthvað að borða. Við reyndum að banda honum frá okkur en ekkert gekk. Þetta litla grey hélt svo hurðinni opinni fyrir mig á meðan Árni kom mér inn í bílinn svo bað hann okkur að gefa sér ís. Mér fannst við vera verulega köld og harðbrjósta að gefa þessum aumingja ekkert og er ákveðin í að áður en ég fer heim aftur þá gef ég honum örugglega ís eða eitthvað matarkyns, svona aðallega til að friða mína samvisku. Afganginum af deginum eyddum við svo í að þvo sannkallaðan stórþvott og hengja upp inn í sturtunni, við vorum verulega farin að hafa áhyggjur af að fá ekki þvottinn okkar aftur, en svo dúkkaði hann upp um kvöldið, jibbí og ekkert vantaði og allt var straujað, ég held ég hafi ekki áður farið í straujaðar naríur og straujaða sokka. Það var sett hreint utan um sængurfötin okkar í dag og svei mér þá, sængurverið mitt var með blóðblettum í og koddaverin með svörtum klessum sem ég er viss um að eru maskaraklessur. Velti því fyrir mér hvort sængurfötin sé kannski bara straujuð og svo send aftur til baka.  Árni er algjörlega búin að gefast upp á indverska matnum um níuleytið staulaðist hann af stað út á Pizza Hut að ná sér í einhverja næringu, mig var verulega farið að lengja eftir honum þegar hann skilaði sér til baka alsæll með stærstu pizzuna sem hægt var að fá, hún er svona eins og 12 tomman heima.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir