Það er bankað laust á dyrnar kl. er 8 ég á að mæta í endurhæfingu kl. 9, hvaða vesen er þetta, ætli það sé búið að breyta tímanum á mér og ég verði hér eftir kl. 9 hugsa ég. Alls ekki ásættanlegt, ég bara nenni ekki á fætur svona snemma, auk þess sem dagarnir eru alveg nógu lengi að líða hér þó þeir verði ekki lengdir enn frekar með að fara snemma á fætur. Ég ákvað að tala um þetta við sjúkraþjálfarann og fá að mæta alltaf kl. 10, það munar um klukkutímann.
Morgunmaturinn samanstendur af kaffi og ristaðri brauðsneið, sem ég hafði allsekki lyst á, ég renni augunum á sultukrukkuna sem inniheldur hvorki meira né minna en 1 kg. af sultu. Við höfðum ekki þorað að testa hana enn, ég spáði í hvort brauðið yrði kannski skárra ef ég setti sultu á það og ákvað að tékka á því í hádeginu. Endurhæfingin gengur vel, skv. mínu mati allavega, ég er komin með töluvert betra setjafvægi og einhver óútskýranleg tilfinning er að gera vart við sig í kálfunum á mér, þ.e. ef fæturnir eru hreyfðir þá finnst mér ég finna fyrir einhverri vöðvahreyfingu allveg niður í kálfa. Mig vantar hinsvegar að fá meiri tilfinningu í hæla og iljar, já og bara meiri tilfinningu yfirhöfuð, en ég veit að það getur tekið talsverðan tíma og í raun hef ég fengið meiri breytingu en ég átti von á að fá á svo skömmum tíma, þó breytingin sé ekki sýnileg með augum. Sjúkraþjálfarin er farin að færa sig upp á skaftið, nú vill hún að ég standi á fjórum fótum og færi mig skref fyrir skref áfram og aftur á bak. Hún vill líka að ég setji upp kryppu á bakið og sveigi það svo niður. Ég á í algjöru basli með þetta á mjúkri dýnunni, hendurnar á mér sökkva í dýnuna og ég á erfitt með að finna jafnvægi, þannig að ég geti verið á fjórum fótum án þess að fá stuðning, en það tekst að lokum, síðan færi ég aðra hendina fram og reyni að lyfta fætinum á móti sem sjúkraþálfinn færir þá fram. Svona gengur þetta skref fyrir skref, þar til ég finn alltíeinu óþyrmilega til í úlnliðunum það er svo mikil sveigja á þeim þar sem ég sekk í dýnuna. Síðan á ég að setjast upp og sparka í stóran bolta með lömuðum löppunum, mér tekst að ýta í boltann, en hef þó grun um að hluti af hreyfingunni komi frá efri partinum, sjúkraþjálfinn staðhæfir að einhver hreyfing sé til staðar og hún styrkist dag frá degi. Svo skrýtið er að mér gengur betur að sparka í boltann með vinstri fæti, en innanlæris æfingar koma miklu betur út á hægri fæti hjá mér og það er á hægri fæti sem greinileg vöðvavirkni finnst þegar ég reyni að spenna vöðvana. Ég er algjörlega búin eftir æfinguna og fer bara beint í rúmið. Gönguæfingin er eftir hádegið og eftir hana ætlum við aðeins út að gá hvort við finnum ekki ritfangaverslun hér nálægt. Gönguæfingin gekk stirðbusalega nú var ég látin ganga út á hlið, ég hreinlega skildi ekki hvernig í ósköpunum mér ætti að takast að færa fæturna, til hliðar þar sem mátturinn til þess er enginn, en sjúkraþjálfinn var ósveigjanlegur og hún sagði að þetta kæmi, um leið og ég fattaði hvernig ég gæti beitt líkamanum til að framkvæma þessar fótafærslur. Eftir endurhæfingu fórum við út, hitinn ekki minni en áður eða 38 stig og sól, sem er gott því þá er einhver von til að við fáum þvottinn okkar til baka. Ég hef komist að því að líklega er þvotturinn okkar og þvotturinn af sjúkrahúsinu þvegin að stórum hluta í höndunum og ef það rignir er ekki hægt að þurrka hann, þannig að maður biður bara um sól svo maður fái spjarirnar aftur. Við fundum ritfangaverslun, pínulitla sem seldi ritföng, teikniblokkir, liti, tyggjó, súkkulaði, skart og töskur. Ég keypti tvo góða tússpenna, fimm teikniblýanta, strokleður, yddara, a4 teikniblokk, tvö súkkulaðistykki og borgaði um 400 íslenskar krónur fyrir þetta, ótrúlega ódýrt. Síðan héldum við heim á leið aftur, skil ekki hvað ég er eitthvað þreytt þessa dagana, allavega finnst mér ekkert slæmt að liggja bara útaf og dotta þegar æfingarnar eru yfirstaðnar, glápa á sjónvarpið og svo er ég að lesa bókina eftir Stieg Larson, algjör snilld.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.