Þuríður í Delhí - Dagur 15
Tókum því ofurrólega í morgun alveg þangað til hjúkkurnar fóru að ólmast á hurðinni þær þurftu að gefa mér sprautuna, svo lobbýkallinn sem þurfti að fá að vita hvað ég ætlaði að borða í hádeginu og í kvöld. Ég klæddi mig þegar Sigurbjörn var búin að koma líka að gá að okkur enda klukkan orðin 11. Hann sagði okkur að gatan væri algjörlega steindauð, ekki einu sinni umferð og við sem vorum búnar að búa okkur undir að vakna við trumbuslag og læti. Þegar við komum niður voru aðrir vistmenn hér að tínast út. Úti var borð með 4 diskum á fullum af litadufti sem var ætlað okkur ef við vildum klína þessu framan í hvort annað eða vegfarendur. Jeff og Daniel komu vopnaðir niður, þeir voru búinir að fylla 100 vatnsblöðrur sem þeir ætluðu að dúndra á þá sem færu hjá. Eftir smá stund stoppuðu tveir litskrúðugir piltar á hjóli, komu til okkar og klíndu á liðið lit og óskuðu um leið Happy Holy, þetta sem sagt byrjaði allt frekar sakleysislega en þegar Jeff, Daniel og fleiri fóru að skjóta blöðrunum inn í Túk Túk bílana og í andlitið á mótorhjólagaurunum sem geystust hjá fór leikurinn að harðna. Umsvifalaust snéru þeir við komu að hópnum og hreinlega ötuðu menn lit, hópurinn var fljótlega orðinn hinn skrautlegasti á að líta. Við Lúkas sluppum að mestu leyfðum þeim þó að setja litaklessu á hendurnar á okkur, pjattið að drepa okkur. Það voru sem sagt engar skrúðgöngur farnar um götuna hjá okkur og líklega er ekkert svoieiðis, fólk hinsvegar safnast saman á torgum og markaðsgötum þar sem það reyndi að koma lit og vatni og stundum lituðu vatni á alla sem fyrir urðu. Þeir sem hættu sér út á Green Park markaðinn komu skrautlegir til baka, þar var sko fjörið og fjöldinn. Ég sem sagt sat ekki upp á svölum heldur sat ég mestan tíman fyrir utan Nu Tech, þetta var skemmtilegt og hápunkturinn þegar apatemjarinn kom við hjá okkur með 2 apa í bandi sem hann lét leika ótrúlegustu kúnstir. Þetta er orðið gott af fríi, mér finnst ég vera búin að gera ekkert í alltof marga daga þannig að það verður ótrúlega gott að vakna í fyrramálið til að fara í æfingar. Ég er líka svoldið spennt að sjá hvort eitthvað hafi breyst. Ég hef reyndar sterkari spasma í neðri partinum núna sem stundum svipta mig jafnvæginu ef ég er eitthvað að brasa þannig að ég verð að reikna þá með í dæmið svo ekki fari illa þegar ég er t.d. að færa mig úr stólnum yfir á klósett eða í rúm.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.