Þuríður í Delhí Dagur 12

 

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Áfram höldum við að fylgjast með Þuríði og ferð hennar til Delhí þar sem hún gengst undir stofnfrumumeðferð. Hægt er að fylgjast með henni beint inni á www.oskasteinn.com

 

Umferðarniðurinn af götunni fyrir utan vekur mig, stanslaust flautið hefst svona upp úr kl. hálfátta, Delhí er greinilega að vakna til lífsins. Meðfram grænum þykkum felligardínunum brýst inn sterk dagsbirtan og nokkrir sólargeislar ná að skína framan í mig, hér birtir upp úr kl. fimm, í dag er ekki rigning og þetta monsúntímabil sem bráðum á enda, alveg handónýtt vegna rigningarleysis.Ég ligg áfram staðráðin í að fara ekki fram úr fyrr en ég algjörlega neyðist til enda er ég handviss um að ég þjáist af mikilli þreytu vegna erilsams dags í gær. Niðri á gólfi hrýtur bóndinn langdregnum hrotum, ég bíð eftir að hjúkkurnar banki sem þær gera iðulega um korter í níu. Þegar ég er rétt að festa svefn aftur er bankað, Árni hrekkur upp úr hrotueinleiknum og kemur sér í fötin. Hjúkkan stormar inn með tæki og tól til að mæla hita og blóðþrýsting á meðan hellir Árni á könnuna. Eftir að mælingum er lokið kíkir læknir inn fyrir og segist renna á kaffiilminn, það leyni sér ekki hvar íslendingarnir séu í herbergi, þar sé alltaf kaffilykt. Endurhæfing kl. 10, nú eru allir bekkir fullir í endurhæfingasalnum og mér vísað inn í sprautuherbergið á innsta bekkinn. Þessi bekkur er mun skárri að því leiti að dýnan er hörð og maður á því aðeins auðveldara með að halda jafnvægi á honum. Ég er komin með nýjan sjúkraþjálfa, einhvernveginn kann ég betur við hana, hún er svona meira í vinnunni, hefur engar áhyggjur af símanum sínum og er ekki stöðugt að tékka á hvort einhver sé að horfa á hana eða hvað hinir eru að gera. Hún fer líka aðeins rólegar í æfingarnar þar sem ég á að reyna að hugsa hreyfinguna semsagt að t.d. draga hnéð að kviði og hugsa þá hreyfingu og svo að rétta úr fætinum og ýta hælnum á undan og hugsa þá hreyfingu líka. Það sem er verst er að ég uppgötvaði að ég er farin að gleyma tilfinningunni í hreyfingunni, gleyma hvernig það var að draga hnéð að maganum, ég man samt enn tilfinninguna við að kreppa tær og rétta úr þeim, sem betur fer. Það er erfiðara að reyna að framkvæma hreyfingu þegar maður man ekki hvernig tilfinningin var með henni hvaða vöðvar drógust saman o.s.frv. Sjúkraþjálfinn staðsetti hnéð á mér þannig að ég átti að halda því án þess að það ylti til hliðanna. Svo sagði hún mér að láta hnéð velta út til hliðar, svo átti ég að koma því aftur upp. Það ótrúlega skeði að einhvernveginn tókst þetta, og einhver vöðvasamdráttur varð til þess að ég gat komið því aftur áleiðis upp, þetta lét hún mig endurtaka nokkrum sinnum á báðum fótum. Ég er viss um að ég nota efri partinn þónokkuð til að reyna að hreyfa til fæturna en Herdís og Árni voru þess fullviss að þau hefðu fundið og jafnvel séð hreyfingu. Ég náttúrlega rembist eins og ég mögulega get við að hreyfa eitthvað, en það er býsna erfitt, þetta er eins og að vera gjörsamlega fastur undir kletti og reyna eins og maður lifandi getur að bifa klettinum en ekkert gerist. Mér finnst ég vera að hreyfa mig en get ekki séð hreyfingu. Þegar kemur að því að ég sé hreyfingu þ.e. tær hreyfast eða vöðva í lærunum hreyfast þá verður ástæða til að skreppa í kaffihúsið og fá súkkulaðitertu.  Sjúkraþjáfinn er mjög ánægð hún segist finna greinilega hreyfingu hingað og þangað, ég vil samt vara ykkur við, hreyfingin er agnarsmá enn sem komið er. Mér er sagt að nú fái ég stofnfrumur í æð í stað vöðva og er sett upp drippflaska við rúmið mitt. Þetta tekur um 20 mínútur og er gott að liggja bara útaf og hvílast, ég er eitthvað drusluleg í dag. Eftir hádegið eru það spelkurnar, nú er betri göngubrautin upptekin þannig að ég fer á braut sem er með teppi á, hún er þrengri og eiginlega fullþröng fyrir mig. Það er töluvert meira puð að reyna að ganga á teppalagðri braut og óboy ekki er göngulagið fallegt, en einhvernveginn tekst mér að dragast þarna áfram og aftur á bak, Herdís minn ísl. sjúkraþjálfi segir þetta ganga bara þrumuvel hjá mér. Eftir göngubröltið ákveð ég að hvíla mig, annar fóturinn var svoldið ásiginn eða bólginn og þegar við fórum að skoða hann betur þá hafði myndast svoldið djúpt mar við ökklann og undir honum  var greinilegt mar og bólga. Þetta var örugglega eftir spelkurnar, við ákváðum að láta læknirinn skoða þetta svo hægt væri að laga spelkurnar. Herdís og Árni fóru í könnunarleiðangur, og ég svaf, ótrúlega gott að sofa svona um hábjartan daginn. Ekkert gerði ég meira þennan dag, kláraði bókina sem ég var með og svaf. Um fimmleytið kom Árni inn og spurði hvort ég hefði ekki ætlað í jóga, við fórum niður og komum okkur fyrir að vísu sat ég í stólnum meðan aðrir sátu á dýnum á gólfinu. Jógað var byggt upp á miklum öndunaræfingum með öndunarhljóðum. Við urðum öll að anda af mikilli innlifun, svo mikilli að við hljóðuðum í hvert sinn er við önduðum frá okkur. Ég átti pínu bágt með mig að fara ekki að hlæja, vissi að ef ég leyfði mér að hlæja fengi ég óstövandi hláturskast, ekki viðeigandi. Ég komst yfir þetta eftir smá stund. Þau sem fær voru um að hreyfa sig voru látin gera ýmsar æfingar og svo liggja útaf og slaka á. Allt í einu sé ég hvar jógameistarinn tekur strauið út í hornið til okkar Árna og Herdísar en þau lágu sitthvoru megin við mig, mér varð litið á Árna sem var auðvitað steinsofnaður og hafði ekki hreyft sig eins og jógameistarinn hafði tilskipað, veit ekki hvað þetta er með manninn en svona öndunaræfingar virðast bara svæfa hann algjörlega, þetta skeði líka þegar hann fór með mér í mæðraleikfimi hér forðum daga, eini maðurinn sem slakaði svo vel á eftir öndunaræfingarnar að hann steinsvaf.  Við erum búin að fá smá lagfæringar á baðherberginu okkar, búið er að setja upp eina vegghöldu við klósettið og búið er að brjóta í burtu tréramma sem var í kringum sturtuna á morgun á að setja höldu upp í sturtunni, þetta kemur allt. Ég verð samt að vera í þessum sturtustól sem ég sjálf get ekkert fært til heldur þarf Árni að draga mig á honum, hann þarf að koma mér í hann og draga mig inní sturtuna og koma mér þar fyrir, þannig að enn er ég ósjálfbjarga með mín mál eins skemmtilegt og það nú er. Á morgun ætlum við að heimsækja Lodi garðinn en það er frægur garður hér í Delhí sem örugglega verður gaman að skoða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir