Þuríður í Delhí - dagur 10 og 11

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Við höldum áfram að fylgjast með ævintýrum Þuríðar Hörpu í Delhí á Indlandi. Þegar hér er komið sögu er Þuríði skellt á fæturna í spelkum og kemst hún að því sér til ánægju að hún er hávaxnari en hana minnti. Hægt er að fylgjast með ferð Þuríðar beint eða styrkja hana inni á www.oskasteinn.com

Dagur 10

Mánudagur, mæting að venju í endurhæfingu kl. 10. Endurhæfingin fór fram eins og venulega nema nú kom dr. Geeta og skoðaði mig og sagði mér að greinilega væru komnar einhverjar flikrur í mjöðmina á mér þannig að hún vildi endilega að ég prófað spelkurnar í dag eftir að við kláruðum prógrammið, ég reyndi eins og ég gat að hreyfa fætur, hreyfa tær, hreyfa hné og sparka í bolta, en fannst heldur lítið koma út úr þessu þar sem ég sá ekkert gerast.Herdís hélt höndunum á þeim vöðvum sem ég átti að reyna að hreyfa og hún sagði eins og áður að sér finndist örlítil hreyfing vera komin. Eftir jafnvægisæfingar með stóran bolta var komið að því að vippa sér á fætur. Tveir smáir en knáir indverjar mættu og rifu upp á mér mjaðmir og læri meðan einn til viðbótar skaut spelkunum undir svo voru herlegheitin reyrð á mig. Spelkurnar voru eins og annað svoldið gamaldags en gera líklega sitt gagn. Að reyringu lokinni var ég færð í stólinn  og stóðu fæturnir beint útí loft í nýju spelkunum, ég var flutt á brautina og reist upp. Dr. Geeta sýndi mér hvernig hreyfingu hún vildi að ég framkvæmdi til að hreyfa fæturna og í raun fannst mér þetta allsekki erfitt. Ég fékk reyndar smá yfirliðatilfinningu enda ekki staðið í lappirnar í langan tíma. Þar sem ég stóð þarna uppgötvaði ég hvað ég er nú hávaxin alla vega var ég töluvert hærri en doktorinn og hjúkrunarfólkið. Eftir að hafa þrammað nokkur skref var þjálfuninni lokið. Um hádegi var okkur sagt að eftir hádegi ætti ég að fara í fyrstu sprautuna sem gefin yrði í bakið. Ég var flutt á stólnum inn í forherbergi þar sem fólk skipti um skó, allir voru í bláum búningum með maska á andlitinu, ég var komin í köflóttann slopp opinn í bakið. Herbergið þar sem þetta fór fram var hvítt og glansandi, hvítar stórar glansandi flísar voru á veggjum og gólfi. Í miðju herbergi stóð bekkur sem minnti mig á tannlæknastóla frá 1960. Nokkrir bláklæddir vippuðu mér á grúfu upp á bekkinn eftir að læknirinn sem framkvæmdi stunguna var búin að kynna sig og segja mér að ef ég finndi fyrir einhverju ætti ég strax að láta vita. Svo tjökkuðu þeir bekkinn niður að framan þannig að litlu munaði að ég rynni beint á nefið niður á gólfið en einhver hélt í fæturnar á mér og afstaðan var löguð. Mér fannst ég finna fyrir einhverju sem líktist sársauka í mjóbakinu en svo hvarf sú tilfinning, læknirinn spurði mig öðru hvoru hvort ég finndi eitthvað en ég gat ekki sagt að ég finndi neitt sérstakt. Þarna var ég í um 20 mínútur, þá var mér vippað á bakið á örmjóan bekk og ég fann hvernig ég lafði allstaðar út fyrir, ekkert sérstök upplifun. Svo var mér rúllað inn í herbergi þar sem ég átti að liggja á bakinu til kl. sex, ég átti að hafa hærra undir fótunum og til þess að það gengi upp var tekin einhver stöng niður úr rúminu og hún skorðuð af með nokkrum múrsteinum sem fengnir voru að láni hjá múraragenginu í næstu byggingu. Því verki er alveg ótrúlegt að fylgjast með, eitthvað er verið að lagfæra eða byggja upp hér við hliðina á okkur og er þar að verki skólaust fólk, karlarnir bera múrsteinana og raða þeim en konur sitja á hækjum sér og handhræra steypuna í fötum við hliðina á þeim renna sér berrössuð smábörn niður malar og sementshaugana. Á kvöldin leggur fólk teppi á haugana og leggst til svefns, svoldið sérstakt, en þetta venst þannig að smá saman hættir maður að sjá þetta (líklega af því mann langar allsekki til að sjá þetta) . Árni og Herdís ákváðu að leigja sér svona TÚKTÚK bíl og fara á rúntinn í honum í bæinn, en þetta er pínu apparat á 3 hjólum með einum afarflínkum bílstjóra í. Á meðan steinsofnaði ég og svaf nærri því þar til þau komu aftur, ég fann ekkert fyrir höfuðverki en hafði þó nokkurn spasma í fótum sem hjúkrunar liðið telur góðs vita. Eftir kvöldmat ákváðum við að viðra mig aðeins og fórm á Green Park götuna hér við hliðina svona til að prófa hitt kaffihúsið þar. Við fórum í bókakaffi, hitt kaffihúsið hafði vinninginn þannig að ekki þarf að prófa þetta kaffihús aftur. Eftir smá spjall á skypinu við ættingjana var deginum lokið, á morgun höfum við látið plana fyrir okkur ferð til að skoða einhvern stað sem okkur var sagt að slægji Taj Mahal út, það var reyndar ameríkani sem hélt ekki vatni yfir þessum stað þannig að ég veit ekki hvort okkar upplifun verður sú sama.

 

Dagur 11

Haldiði að það sé ekki bara rigning hér í dag, ég varð eiginlega smá spæld þar sem við ætluðum að heimsækja Akshardham seinnipartinn. Við spurðum Jody hvort hún héldi að hægt væri að fara í þessa ferð, sem hún játti brosandi og sagði að örugglega yrði hætt að rigna um kl. sjö í kvöld. Endurhæfingin var á sínum stað eins og venulega en eitthvað er verið að bæta á mig æfingum, sjálfri finnst mér ég vera farin að finna meira fyrir sjálfri mér heldur en ég hef gert í rúmlega tvö og hálft ár og set jafnvægið er greinilega að batna. Læknarnir yfirheyrðu mig um hvort ég finndi örugglega ekki eitthvað og ég er svona farin að segja þeim að ég haldi að skynið sé kannski eitthvað að aukast. Þori ekki enn að halda að  eitthvað sé virkilega að að gerast, finnst ég verða að fá betri staðfestingu fyrir sjálfa mig á því og svo er náttúrlega bara rétt rúm vika síðan ég byrjaði í meðferðinni sjálfri. Endurhæfingarýmið er þétt skipað, alla vega svo þétt að Herdísi finnst salurinn hennar á Grensás ansi rúmgóður miða við þetta og er hann þó of lítill. Hér ægir okkur öllum saman, lömuðu fólki af völdum slysa, fólki með vöðvarýrnun og fólki sem er með svokallaðan Lyme disease, sem orsakast af biti dýra eða skordýra skilst mér, og leggst á taugavefi fólks og getur endað með að fólk lendi í hjólastól. Þessi sjúkdómur virðist ólæknandi þegar hann hefur grasserað lengi. Svo er hér fólk sem hefur fengið heilablóðfall og börn sem eru vangefin og líkamlega fötluð, einnig eru hér mongólítar ein agnarsmá algjört krútt stelpa og strákur sem er líklega í kringum 18 ára aldurinn. Öll erum við hér í þeim tilgangi að bæta ástand okkar. Í endurhæfingasalnum eru aðeins fjórir bekkir (þessir háu með þykku dýnunum) svo eru tvær göngubrautir, eitt hlaupabretti, eitt hjól, handlóð og svona stigi sem bæði er farið upp í og niður af. Til hliðar er herbergi með öðrum sex bekkjum sem ætlað er meira fyrir endurhæfingu á börnum held ég og er svo notað sem sprautuherbergi líka, eftir að við erum búin í endurhæfingu, til hliðar við það er pínulítið herbergi og smá biðstofa þar fyrir framan, en þar inni er verið að þjálfa börnin og unglingana sem ekki eru alveg andlega heil. Í biðsalnum sitja iðulega nokkrar indverskar mæður í mjög fallega litum og mynstruðum fötum, með litlu óþekktarormana sem eru nú ekki alltaf til í að sitja prúð með þeim bíða oft eiginmennirnir eða ömmur þannig að þetta er býsna skrautlegt þarna niðri. Eftir hádegismatinn er aftur endurhæfing og enn er ég færð í spelkurnar og flutt á göngubrautina. Ég rembist við að færa fæturna hvorn fram fyrir annan og þegar á enda er komið að þá ganga aftur á bak. Ég tek alveg út fyrir að horfa á ósköpin í speglinum, held bara að hjólastóllinn fari mér betur en þetta outfit, ég er semsagt reyrð með reglulegu millibili frá kálfum og upp í mitti og millibilið þar sem rassinn hefst og þar sem mittið tekur við er mér algjör kvöl að horfa á, held að það væri ekki vitlaust að vera með fitusog hér á þessum stað, það væri allavega hægt að dæla vel af rassinum á mér. Eftir að hafa hökt fram og til baka á göngubrautinni er æfingu dagsins í dag lokið. Nú er að tékka á veðrinu og ferðbúast, enn hellirignir, ég fer í opna peysu og vef um mig sjali, okkur er sagt að ekki megi fara með síma né myndavélar inn á þennan stað, og fáum með okkur bréf sem við eigum að afhenda öryggisverði þegar við komum. Bílstjórinn okkar næstu 8 tímana er mættur á réttum tíma kl. þrjú. En Jody ráðlagði okkur að leigja hann bara í 8 tíma og sleppa þá við að þurfa kannski að bíða í óratíma eftir bíl. Leigubíll í 8 tíma með bílastæðakostnaði kostar 2700 krónur, sem þættu líklega heldur léleg dagvinnulaun heima. Við brunum á áður óþekktar slóðir í þessari milljónaborg og með okkur er eldhress blökkukona frá LA sem er nýkomin með systur sína á hjúkrunarheimilið og fékk að slást í för með okkur. Eftir nokkra stund erum við komin í óhrjálegan borgarhluta, þar sem ömurlega útlítandi blokkarbyggingar standa í þéttum röðum og fólk situr með litlu börnin sín nærri á götunni í einhverju aðgerðarleysi. Mitt í þessum borgarhluta rís svo stærðarinnar virki sem sagt Akshardham, sem ég veit svo lítið um. Við förum inn um öryggishlið á leið okkar inn í bílastæðið, allir eru reknir út nema ég og verðir leita í bílnum, hinir fara í gegnum hlið þar sem öryggisverðir skanna þau og þukla. Bílstjórinn kemur aftur og við keyrum í gegn, við tekur víðáttustórt bílastæði þannig að ekki var nú vandinn að leggja. Eftir að vera komin út úr bílnum förum við að hliði átta og ætlum að afhenda bréfið þar, okkur er þá sagt að engar handtöskur né pokar, símar eða myndavélar séu leifðar þannig að farið var með svoleiðis hluti á sérstakt geymslusvæði, svo fórum við í gegn, til að koma að enn einni öryggisvörslunni, manni fannst nú orðið nóg um, mér var hjólað bak við tjald til hliðar þar sem indversk kona skipaði mér að standa upp úr stólnum í 1 mínútu, ég gat gert henni skiljanlegt að það gæti ég ekki. Hún lét sér þá nægja að þreifa vel, síðan benti hún á sjalið mitt og svo á Herdísi sem var í pilsi sem kipptist ofurlítið upp fyrir hnéin að framan og skipaði henni að vefja sjalinu um sig til að fela hnéin, þegar Herdísi tókst þetta ekki nógu vel vafði kerla hana á indverskan máta og hleypti enni í gegn en ameríska vinkona okkar hafði eitthvað misskilið þetta með símann og var uppvís af að hafa svoleiðis grip í fórum sínum, strunsað var með hana til baka þar sem hún var látin geyma símann og svo loks komumst við inn í dýrðina, við höfðum reyndar séð ferðamann sem hafði verið í stuttbuxum og höfðu verðirnir sveipað hann í dúk sem náði niður á ökkla, okkur fannst verst að Árni skildi ekki hafa álpast í stuttbuxum þennan dag við hefðum þá geta skemmt okkur yfir að sjá hann í síðu pilsi ;o). Þegar inn fyrir kom blöstu við okkur miklar og útflúraðar byggingar, vörðurinn sem tók við okkur fór með okkur á skrifstofuna þar sem við áttum að fá sérstakan leiðsögumann um svæðið, ung stúlka heilsaði okkur og leiðsagði okkur um staðinn. Þessi heljar bygging sem öll var hin skrautlegasta hafði verið byggð á 5 árum af 7000 verkamönnum og listamönnum. Hún sagði alla bygginguna vera handgerða þannig að allt skrautið og flúrið hafi verið meitlað í bleikan sandstein sem sérstaklega var fluttur á staðinn, en byggingin er öll úr bleikum og gulum sandsteini. Við vorum alveg gapandi yfir þessu, svo vildi stúlkan endilega að við færum inn í bygginguna og sæjum einhverja sögusýningu um staðinn, við vorum ekki alveg á því að eyða löngum tíma í horfa á kvikmynd en létum til leiðast. Eftir að hafa setið smá stund og hlustað á enskan þul tala um staðinn sem heilagan  og samspil andans og friðar og jóga og svoleiðis var okkur skipað í næsta herbergi, það herbergi var fullt af leikbrúðum sem sögðu sögu af ungum dreng sem varð mikill gúrú og í höfuðuð á honum var þessi hindutrú Akshardham, svona leið tíminn við vorum stutt í hverju herbergi fyrir sig sem voru stærðar salir með mikilli leikmynd og mörgum fígúrurm, að lokum komum við í heljarstórann kvikmyndasal með stærsta tjaldi sem ég hef nokkurntíman séð þar horfðum við á kvikmynd um þennan gúrú, og endaði myndin á að segja frá gúrúnum í dag sem er sá fimmti í röðinni, en hann afrekaði að láta byggja þennan stað sem eftir á að hyggja kom okkur fyrir sjónir sem einskonar disneyland þar sem allt er byggt á kynningu á trúarbragði. Okkur leið eins og við hefðum lent í heilaþvotti, og Árni stundi þunglega yfir þessu öllu saman, þetta var honum ekki að skapi. Loks vorum við sett í bát sem sigldi eftir ákveðinni leið og sagði sögu Indlands, auðvitað var þetta rosalega flott en akkúratt þessi hluti hefði kannski betur hentað börnum heldur en fullorðnum. Svo loksins kom að því að fá að fara aðeins um svæðið. Það var reyndar mjög gaman að fara um þessa ótrúlega fallegu garða og skoða svo listaverkin sem allstaðar blöstu við en allt var meitlað út úr sandsteini. Síðan var komið að rúsínunni í pylsuendanum en það var mikil gosbrunnasýning sem er haldin þegar verulega er farið að skyggja. Og mikil ósköp þetta var samspil tónlistar, litadýrðar og vatns sem dansaði þarna fyrir framan okkur í rökkrinu. Sýningin tók 15 mínútur og síðan var þessu lokið. Svona eftir á að hyggja þá velti maður því fyrir sér hvort þessum trúarleiðtoga sem lætur sér svo annt um frið í heiminum og að fólk sé gott hvert við annað, hvort honum hefði ekki verið nær að reisa byggingar fyrir kofafólkið og kannski veita því mat og börnunum menntun. Mér fannst þetta óttalegt skrum og varð satt að segja fyrir vonbrigðum allavega hefði ég aldrei farið inn í húsið ef ég hefði vitað hvað var þar heldur hefði ég viljað eyða tímanum úti og skoða garðana, byggingarnar og þessar handgerðu risastyttur. Við ákváðum að kíkja á matsölustað sem Jody hafði mælt með, því að ekki verður því neitað að spítalamaturinn verður ansi leiðigjarn til lengdar, alla vega held ég að Árni hafi ekki getað hugsað sér að borða núðlur eða pakkasúpu eina ferðina enn. Bílstjórinn fór með okkur að óhrjálegri byggingu, þarna var veitingastaðurinn, utan á húsinu hékk aragrúi af hinum ýmsu auglýsingaskiltum og inn á milli var skilti staðarins. Við ákváðum að láta slag standa og fórum inn, þar var dyravörður í búningi sem opnaði fyrir okkur og þegar inn var komið tók þessi flotti staður við. Mjög skuggsýnt var inni, aðeins rauðar ljósaperur, og kertaljós um allt. Litirnir voru svartur og rauður og svo speglar og silfur, Robin sem var með okkur varð að orði hvort þetta væri ekki svoldið rússneskt, það var mikill íburður og sérstakt yfirbragð. Þjónar vísuðu okkur til sætis og við fengum vínseðil, hægt var að velja um 3 rauðvínstegundir og litlu fleiri hvítvínstegundir, svo var hægt að fá eina tegund af bjór. Glasið af léttvíni kostaði 450 rúbíur eða sirka 1215 íslenskar krónur. Okkur fannst það nú svoldið dýrt og koníak var 100 rúbíum ódýrara, undarlegast fannst okkur að maturinn kostaði það sama og vínglasið. Maturinn var mjög góður og borðaði ég skammlaust yfir mig og prísaði mig sæla að vera borin út í bíl.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir