Þuríður í Delhí dagar 44 - 45
Þuríður heldur áfram að blogga um dvöl sína á Indlandi sem er nú farin að styttast mikið í annan endann. Sem fyrr lendir hún í hinum ýmsu ævintýrum og eru pistlar hennar lifandi og skemmtilegir aflestrar. Feykir.is minnir góðfúslega á að nú stendur yfir söfnun fyrir næstu ferð Þuríðar Hörpu.
Dagur 44
Sunnudagur, alltaf gott þegar þeir detta uppá, fór sko ekki á fætur fyrr en um hádegi. Ákváðum að kíkja á Dilli Hat markaðinn hér og pantaður var bíll því sumir voru alveg til í rólegri akstur, við fengum ofurvarlegan bílstjóra, sem flautaði næstum ekkert og var ekkert að sikksakka yfir heilu línuna eða reyna að troða sér. Þessi bílstjóri fór hinsvegar með okkur á nýja Dillí Hat, markað sem ríkisstjórnin hafði komið á. Við keyrðum götur sem við höfðum ekki séð áður og jú, það eru til bara ágætis stræti hér í Delhí. Loks komum við á markaðinn, hann er algjörlega innan dyra, við vorum leidd inn og byrjuðum á rúmteppa og púða deildinni, þar var maður sem sýndi okkur hvert rúmteppið á fætur öðru, kraup fyrir framan okkur og breiddi úr silkiteppunum um leið og hann sagði okkur hvernig þetta væri unnið og hér þýddi ekkert að prútta, hér er aðeins uppsett verð. Mamma og Sigurbjörn sáu rúmteppið sem þeim akkúratt langaði í og var þeim selt það í hvelli. Meðan þau fóru og skoðuðu gardínuefni sem hægt var að fá saumað fyrir stofugluggana á 7 tímum lenti ég óvart inn í kasmírteppaherbergið og þar inni var mjög ákveðinn sölumaður, hann sýndi mér ótrúlega flókin mynstur og svo hvernig teppin væru hnýtt. Ég vogaði mér að spyrja hvað minnsta mottan kostaði en hún var litlu stærri en dyramotta, jú 5000 rúbíur kostaði hún. Ég varð að beita neitunarvaldinu til að komast út úr herberginu, það var sama þótt ég segðist ekki vera með neina peninga, hann gat bara sent þetta heim til Íslands og ég svo leyst mottuna út þar. Hmmm glætan. Eftir þennan markað fengum við bílstjórann til að aka okkur á gamla markaðinn, þar sem við gátum stoppað í einn og hálfan tíma, mikið skemmtilegra að flækjast þar um og sumir sölumennirnir þekkja mig orðið og spyrja mig hvort ég sé ekki að læknast af lömuninni, sumir láta mig hafa nafnið á miklum galdralæknum og aðrir biðja fyrir mér. Allt hlýtur þetta að skila árangri að lokum. Um kvöldið áttum við pantað borð á Lýbönsku veitingahúsi sem er staðsett við hliðina á risa, risa hóteli. Í myrkrinu voru menn enn að störfum, en verið er að endurnýja nokkrar hæðir hótelsins alveg fyrir ólympíuleikana sem verða hér á næsta ári held ég. Veitingastaðurinn var fínn og notalegur maturinn bara ágætur allavega borðaði ég hér lamb í fyrsta skipti síðan ég kom hingað. Eftir matinn mætti magadansmær og dillaði sér af miklum þokka fyrir gesti staðarins. Hún var alveg ótrúlega flínk og ekki laust við að maður öfundaði hana af því að geta borið sig svona svífandi, dillandi um gólfið. Við komumst heim um hálftólf, ótrúlega gott að leggjast útaf eftir þennan dag.
Ég sver það dagur 45 er upprunninn, bara 16 dagar þar til eyjan mín bláa, ferska og kalda verður undir hjólum mínum. Veit að ég á sjálfsagt eftir að sakna hitans hér þegar norðanrokið ræðst á mig og rigningin skellur á mér frá hlið, en samt held ég að mér muni bara finnast það gott. Eitthvað er farið að draga af ungu konunni sem deilir herbergi með mér, hún var allavega ekki jafn morgunhress í morgun og hina dagana, fór á fætur nöldrandi yfir að hafa ekki getað sofið út í gær því þá hefði hún ekki verið svona syfjuð núna. Við mæðgur mættum í æfingarnar og ég held bara að mér gangi betur dag frá degi. Mér tókst að halda stöðu á hnjánum lengur en áður og svo fer alveg að koma að því að ég geti híft þau alveg upp þegar ég ligg með hnéin út á hlið og á svo að reyna að koma þeim eins hátt og ég get, báðum í einu.
Veit ekki hvort þetta er skiljanlegt hjá mér. Síðan tók við gönguæfing á grind og í þetta sinn fékk ég breiðari grind, þau eru loks búin að sjá að ég er sirka tvöföld á breidd miða við indverskar konur og þessi göngugrind sem ég byrjaði með rúmaði aðeins annað lærið í einu. Grindin var ekkert sérstaklega traustvekjandi þar sem einn tappann vantaði undir einn fótinn og engin hjól voru á framfótunum til að auðvelda mér að færa hana en ég rúmaðist í henni innan rammans og það var nóg. Mér gekk líka bara ágætlega að þramma í henni, hægt en örugglega tókst mér að koma öðrum fætinum fram fyrir hinn, Shivanni færði svo grindina sem ég ríghélt mér í. Grindin var aðeins of há þannig að mig var farið að verkja í upphandleggina og axlirnar þegar ég fékk að setjast. Shivanni ætlar að láta útbúa grind sem hentar mér betur og er með hjólum á framfótum. Gangan á brautinni gekk vel, ég er nærri farin að hlaupa hana segir Shivanni, það voru þá hlaup hugsaði ég þar sem ég dró lappirnar áfram til skiptis. Eftir æfinguna fór ég í sprautu inn á skurðstofunni á 3. hæðinni sem er mín hæð. Nú var bara sprautað í vöðvana í kringum skaðann, þar sem ég lá í hnipri á bekknum, umvafin brúnum handleggjum þakkaði ég fyrir að finna ekki fyrir þessu. Ég er viss um að þetta hefur verið vont því magavöðvarnir herptust saman í krampa svo ég náði varla andanum og allt í einu fannst mér ég finna smá sársaukaseyðing. Líklega hefur dr. Assish sprautað svoldið nálægt svæðinu þar sem ég hef tilfinningu. Þegar hann var búin sagði hann að nú myndu bakvöðvar fara að kveikja betur á sér, ég myndi finna það fljótlega og kannski bara strax á morgun. Hann er alveg frábær, það er nefnilega svoldið gott að heyra hann svona ákveðinn í að þetta virki nánast strax, maður fyllist einskonar eldmóð og sér sjálfan sig leggjast útaf með alla bak- og magavöðva spennta þannig að í stað þess að detta aftur fyrir mig í rúmið þá bara sígi ég svona hægt og dömulega niður. Hann leggur reyndar líka mikla áherslu á að ég hugsi vel til stofnfrumanna og sjái sjálfan mig albata, því það sé bara ég sem ráði útkomunni. Semsagt eina ferðina enn er ég sett í þá stöðu að ráða mínum örlögum, veit ekki alveg hvort ég er að fíla þann part af prógramminu, af því ég er held ég of mikil efasemdarmanneskja. Veit heldur ekki alveg hvort ég myndi ráða við það ef batinn verður ekki eins og ég vonast eftir, að hafa það þá á samviskunni að hafa ekki hugsað nógu vel til stofnfrumanna minna. En eitt er víst að þegar ég sé Kristnu, indversku konuna, labba hér inn með göngugrindina á undan sér, þá er ég alveg viss um að ég á góða von um bata, mér finnst hún nefnilega gangandi kraftaverk
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.