Þuríður í Delhí dagar 38 -40

Þuríður bakiðÞuríður hefur nú dvalið í þrjá daga á sjúkrahúsi í Delhí þar sem hún fékk stofnfrumusprautur í bak á hverjum degi. Frásögn hennar af þessum tíma er kostuleg og inniheldur sögur af risaeðlum og brúnkuklútum.

 

Mánudagur, skrýtið að vakna með engan Árna í herberginu, við hliðina á mér á dýnu á gólfinu liggur mamma í fastasvefni. Ég veit að komin er tími á að koma mér á klósettið og í dag er prufukeyrsla á klósettsetunni sem mamma kom með frá Íslandi og Árna tókst að lokum að setja á klósettið eftir reyndar talsverða vesen. Ég sé að ekki er möguleiki að komast fram hjá mömmu nema hreinlega keyra yfir hana á stólnum þannig að ég tek það ráð að reyna að kalla hana inn í veruleikann. Eftir nokkrar tilraunir tekst það og hún sprettur á lipurlega á fætur. Ég keyri mér inn á klósett, ótrúlegur munur að geta sjálf komið mér á milli stóls og klósetts ég verð nú bara að segja það, mamma stendur yfir mér svona til vonar og vara og passar að ég lendi ekki niður á gólf í öllum bægslaganginum. Jody sem er framkvæmdastjóri hér kom í gær að skoða dýrgripinn, henni fannst setan ótrúlega mögnuð og einföld lausn, hún leit á mig og sagði svo, kannski fæst svona hér á Indlandi einhverntíman á næstu árum. Það virðist vera óhugsandi fyrir þau að flytja þetta inn heldur verði að framleiða þetta í landinu. Endurhæfing í dag fyrir hádegi og svo á ég að bruna á hitt sjúkrahúsið til fara í þriggja daga sprautuna. Gangan gekk ljómandi vel og mamma segist sjá þvílíkan mun á mér frá því áður en ég fór og þangað til núna, þetta er líklega mögnuð breyting á 38 dögum þó ég geri mér ekki grein fyrir því sjálf. Shivanni segir  að þegar ég komi úr sprautunni ætli hún að láta mig prófa göngugrindina, það verður fróðlegt að sjá hvort ég ræð við að halda jafnvægi í henni. Mér er ekkert vel við að fara á hitt sjúkrahúsið, enda búin að uppgötva að þar sem ég er á þriðju hæð hér sem er eina hæðin þar sem svona skurðstofa er, þá gæti ég alveg eins farið í þessa sprautur hér. Ég impra á þessu við Geetu en algjörlega fyrir daufum eyrum þannig að ekki er um annað að ræða en fara, mamma setti niður í tösku súpu- og núðlubirgðir ásamt kaffi og brauði, sem sagt enn ein útilegan. Á hinu sjúkrahúsinu tekur hr. David á móti okkur, nú fæ ég besta herbergið í húsinu held ég bara, hann opnar inn í talsvert rúmgott herbergi sem aðeins er málað í 4 litum, þrem gulum og hvítum og hvað haldið þið í því eru tvö rúm, ég er svo aldeilis hlessa og læt undrun mína í ljós við hr. David. Hann segir að hann hafi frétt að nú kæmi lady með mér þannig að hann taldi rétt að ladyin fengi rúm. Greinilega fannst honum engin þörf á því að Árni fengi rúm í þau skipti sem hann var búin að koma með mér. Hvað um það ég var ósköp fegin vitandi að þarna yrði ég rúmföst næstu 48 stundirnar eða svo. Þegar ég var komin upp í rúmið mættu hjúkkurnar til að setja upp æðalegg á vinstri hendina ég segi það enn og aftur þær eru ótrúlega flínkar við þetta því oft hefur þurft nokkrar tilraunir heima á Íslandi til að koma svoleiðis fyrir hjá mér og það er ekkert sérlega skemmtilegt. Þær þurfa yfirleitt bara eina tilraun hér. Við hliðina á mér er poki fullur af lyfjum og sprautum og önnur þeirra nær í lyf sem eru sýklalyf og sýnir mér að þetta sé allt með dagsetningum sem ekki renna út fyrr en eftir einhver ár. Ég fæ 3 hrossasprautur af sýklalyfjum í æðalegginn. Hálftíma seinna mæta bláklæddu mennirnir með hjólabekkinn, þeir þurfa að lyfta mér upp á hann, þeir eru fjórir einn á hverja hlið ef svo má að orði komast og til að koma mér í örugga höfn prílar einn þeirra  berfættur upp í rúmið til mín svo er mér vippað yfir. Mér er keyrt á skurðstofuna og er allt eins og áður, sama fólkið og allir hafa sína stöðu það geri ég líka því ég ligg ævinlega á hliðinni með hnén upp að höku og hökuna ofan í bringu. Dr. Assish kemur inn, hann er alltaf kátur, spyr mikið og segir mér svo með alveg kringlóttum sannfærðum augum að ég komi til með að finna mikla breytingu eftir þessar sprautur sem ég sé að fara í núna. Ég spyr hann um þessar hugmyndir Geetu og hans að selja stofnfrumudæmið til annarra landa. Hann segir að það sé markmiðið en verði ekki strax, að vísu sé eitt land, Ástralía búið að samþykkja að tveir sjúklingar sem ekki geti komið fái stofnfrumur héðan og að þær verði fluttar inn en einn stór hængur var á þessari aðgerð þar sem ekki fékkst læknir í Ástralíu til að sprauta þessu í fólkið og sagðist dr. Assish að þau hér yrðu að senda lækni með sprautunum þangað, ótrúlegt finnst mér. Dr. Assish segir að regluverkið sé svo mikið bákn, þó það eigi að sjálfsögðu rétt á sér, hann segist fyrst og fremst vera læknir og hans köllun sé að lækna með öllum tiltækum ráðum, ég er sammála honum um að sjúklingar geti ekki beðið og beðið eftir úrlausn, allavega ef hún er komin einhverstaðar í heiminum og enginn skaði hefur orðið af, eins og er að gerast hér þá einfaldlega hefur maður ekki tíma til að bíða eftir að einhverjir aðrir klári sýnar rannsóknir, alla vega mátti ég engan tíma missa, auðvitað verða læknar að vera ábyrgir en þeir þurfa líka að vera með opinn huga og svo hef ég grun um að lyfjafyrirtækjarisarnir verði ekkert glaðir með það að stofnfrumur verði aðalmeðferð við óteljandi sjúkdómum, sykursýki, parkinson, vöðvahrörnun og fleiru og fleiru. Ég fann ekki mikið fyrir sprautunni en komið var fyrir catater inn í mænugöng held ég, mér skyldist að cataderinn færi ekki inn í mænuna sjálfa núna. Ég fann fyrir þyngslum í fótunum og svo varð erfitt að anda ég gat ekki dregið andann djúpt það varð of sárt ég hafði þó alveg næga súrefnismettun þannig að allt var í lagi. Eftir þetta var ég slöpp mér fannst líkaminn vera á mörkum þess að fara í sjokk og var alveg magnþrota, ég var býsna fegin að geta bara legið fyrir með fæturnar upp og hausinn niður þar sem múrsteinum var eins og áður hlaðið undir fæturna á rúminu, ágæt og ódýr lausn þó hún sé ekki sérstaklega smart. Ég átti að liggja svona í 2 tíma og svo mátti ég setjast upp eða fara á hliðina. Sjónvarpið stytti okkur mömmu stundir og svo vorum við með bækur til að lesa. Ég las bók sem Rita sendi til mín hún heitir Borða, biðja, elska og er að mínu viti vel skrifuð og mjög áhugaverð, hún opnaði smá rifu fyrir mig til að skilja pínulítið í þessu Indlandi, hún vakti líka forvitni mína um að kynna mér þetta land kannski aðeins betur, líklega er rétt það sem sumir sjúklingar segja hér að Indland vaxi einhvernveginn á mann. Takk Rita fyrir sendinguna -hún hitti í mark. Tvisvar á dag fékk ég þrjár hrossasprautur af sýklalyfjum og tvisvar á dag fékk ég stofnfrumur í cataderinn. Ég fann ekki fyrir þessu og leið bara nokk vel. Á mánudagskvöldinu fengum við óvænta en ekki kærkomna heimsókn, ég lá með nefið upp í loft og var að spjalla við mömmu, í loftinu hékk ljós og ekki var lokað upp í dósina annarstaðar voru stórir hringir settir fyrir svona dósagöt, eitt dósagatið var þó frábrugðið þar sem stórt gat var á því og það semsagt ekki lokað. Ég var eitthvað að glápa þarna upp þegar ég sé allt í einu snögga hreyfingu í svörtu gatinu, gul lítil löpp fikrar sig út og á loftið og gulur eðluhaus gægist niður, tvö svört eðluaugu glápa á mig. Ef ég hefði getað þá hefði ég stokkið upp úr rúminu, ég gerði mömmu dauðhverft við þegar ég tók þetta rosa viðbragð og gólaði einhverja vitleysu með skelfingarsvipinn á andlitinu og starandi augun á kvikindinu. Ég fátaði aftur fyrir mig í leit að bjöllunni og stamaði út úr mér við mömma að það væri eðla á leið inn á loftið hjá okkur. Eðlan hreyfðist ekki og í dágóða stund held ég bara að við höfum starað í augu hvor annarrar. Hjúkrunarkonan kom inn til að vita hvað amaði að ég benti skjálfandi fingri á gatið og sagði DINASAUR there is a dinasaur up there. Hjúkkan leit á eðluna og skellihló, ég gerði mér grein fyrir að líklega væri þetta ekki risaeðla en ég mundi bara ekki annað enskt orð yfir eðlur þannig að þetta varð að duga. Hjúkkan kallaði í einn af skúringamönnunum sem kom inn með kústskaft og rak það upp í gatið við mamma skræktum báðar hvorugri okkar langaði til þess að eðlan dytti niður á gólfið hjá okkur, en hann var þá að reka hana burt, síðan náði hann hlægjandi í dagblað sem hann vöndlaði saman og tróð í gatið. Við vorum afskaplega þakklátar en ég var ekki sannfærð um að þetta dygði þar sem sirka 8 mm svört rönd eins og tunglrönd með fram gatinu gapti niður á mig, skildi eðlan koma aftur og reyna að troða sér þarna hugsaði ég. Ég fór að lesa en hafði auga með röndinni og viti menn allt í einu sé ég í hausinn á eðlunni, kíkjandi í gegnum rifuna á mig. Við veltum því fyrir okkur skamma stund hvort við ættum að hringja aftur á hjálp eða hvort við ættum að ákveða að eðlan kæmist ekki inn. Við hringdum á hjálp og í þetta skipti var teipað með sjúkrahúsplástri allann hringinn þannig að engin glufa var fyrir dýrið að skríða inn. Mikð var mér létt. Eftir þetta uppgötvar mamma að hún er orðin óvenju dökk á puttunum og sýnir mér brúna fingurna, ég ætlaði að vera með eitthvað grín um að svona færu reykingarnar með fólk en varð litið í lófana á mér sem voru enn brúnni og ákvað að best væri að þegja. Við veltum því fyrir okkur góða stund hvernig gæti staðið á þessu , þetta var svoldið fáránlegt fannst mér ég var akkúratt öfugt við indverjana ég var með dökkbrúna lófa og fingur en snjóhvít að öðru leiti, meðan indverjarnir voru yfirleitt ljósir og jafnvel hvítir í lófunum en dökkir að öðru leiti. Svo mundi ég að mamma hafði verið að tala um að henni finndist ég bara nokkuð brún í framan eftir að við komum þarna inn og þá rann upp fyrir mér ljós. Hún var með svoddan forláta klúta með sér til að fríska upp á sig, þvo af sér svitann í framan og svoleiðis. Ég hafði fengið hjá henni svona frískandi klúta og hún hafði lagt þetta á ennið á mér eftir að ég kom út af skurðstofunni. Ég fékk að skoða pakkann, mamma þetta eru brúnkuklútar sagði ég og sá sjálfan mig fyrir mér flekkótta í framan með dökkbrún enni, við skellihlógum eins og asnar, tveim dögum seinna er ég enn brún í lófunum.  Í dag miðvikudag fékk ég tvöfaldan skammt af stofnfrumum um ellefuleytið, ég átti að liggja á maganum í tvo tíma og ef allt væri í lagi þá máttum við fara hálftíma seinna, að sjálfsögðu var allt í lagi, enginn höfðuverkur né slappleiki, bara pínu syfjuð þar sem ég einhvernveginn hafði ekki náð að sofna fyrr en kl. var að ganga sex í morgunn, og það að ég geti ekki sofnað er mjög óvenjulegt. Mamma tekur saman matarbirgðir sem eftir eru, bækur og föt og við höldum til baka á hjúkrunarheimilið um hálftvö. Við byrjum á að þvo þvott í höndunum en síðan ruglast ég bara í rúmið og sef fram að kl. sjö um kvöldið, bara notalegt, þegar ég opna augun var mamma búin að þvo enn meira og hengja upp inn á baði, og var að vasast eitthvað í að hita vatn, þegar hún tekur eftir að ég er vöknuð spyr hún hvort ég sé ekki svöng og hvort ég vilji að hún helli upp á kaffi. Að sjálfsögðu vil ég það, ég er algjörlega fallin í kaffidrykkjuna aftur og ógeðið sem ég hafði haft er búið, enda hvað er betra en nýlagða kaffi, og ristað brauð með bláberjasultu. Á morgun fimmtudag taka við æfingar og ég bíð spennt eftir að sjá hvort eitthvað hafi bæst við hjá mér. Ég gleymi alveg að minnast á að Árna gekk vel heim, hann rataði heim og var alveg himinsæll þegar ég heyrði í honum á mánudaginn, útsofin og búin að elda eitthvað íslenskt

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir