Þuríður í Delhí dagar 25 - 27

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Við höldum áfram að fylgjast með ferðalagi Þuríðar og Árna til Delhi en það sem ber hæst nú er að Þuríður er farin að finna nýja tilfinningu í fæturna sem hún hefur ekki fengið áður auk þess sem Árni fer í stórskemmtilega klippingu. Feykir.is óskar þeim hjónum góðrar helgar

Dagur 25

Hver dagur er öðrum líkur, það er auðvelt að láta sér leiðast hér en líka auðvelt að gera eitthvað sér til tilbreytingar. Við ætlum að freista þess að finna KFC stað í dag, Árni er orðin svo sultarlegur og varð eiginlega enn sultarlegri þegar hann fór á vigtina niðri og uppgötvaði að mörg kíló voru horfin, ekki það að við máttum svo sannarlega bæði við því að tapa kílóum. Einn læknirinn benti okkur á stað þar sem nóg pláss væri fyrir okkur og þangað keyrði bílstjórinn okkur. Þetta var risastórt moll sem heitir Big Bazar, við fórum inn í bílakjallara sem var tómur, við grínuðumst með að líklega yrðum við bara ein í mollinu. Á neðstu hæðinni var KFC staðurinn sem við ætluðum í. Þegar við komum út úr lyftunni blasti við okkur galtómt mollið við vorum virkilega næstum þau einu sem voru á ferli þarna. Þrjár búðir voru opnar og svo KFC, skýringin var að mollið var enn í byggingu. Á leiðinni heim lentum við í smá æfintýri, svona eins og maður getur lent í hér í umferðinni. Á miðjum veginum var kyrrstæður olíutrukkbíll, umferðin sem kom á móti gat smeygt sér fram hjá honum, nokkrir minni bílar og mótorhjól voru á undan okkur og ætluðu að freista þess að komast fram hjá, okkur leist ekkert á þetta og skildum bara ekki hvernig bílstjórinn okkar ætlaði að fara að því að koma bílnum þarna í gegn. Við hliðina á okkur var skiltaveggur með fram löngum parti af götunni en hinumegin við vegginn er verið að leggja nýjan veg. Við sáum hvar mennirnir af mótorhjólunum lögðust á vegginn til að sveigja hann aðeins til þannig að bíllinn fyrir framan okkur kæmist í gegn. Síðan var komið að okkur, bílstjórinn setti speglana upp að bílnum og mjakaði sér af stað. Trukkurinn var aðeins skáaður á veginum þannig að leiðin fram hjá honum þrengdist við endann. Við sátum hálfstjörf og skildum bara ekki hvað maðurinn var að hugsa, við vissum að ef hann færi þarna í gegn myndu báðar hliðar á bílnum verða illilega beyglaðar, en þannig eru flestir bílar hér. Við keyrðum eiginlega inn undir trukkinn síðan var ljóst að bíllinn færi ekki lengra nema að rispa hann og beygla. Bílstjórinn tók ákvörðun um að snúa við, okkur létti stórum. Að snúa við var hið versta mál og tók heillangan tíma að mjaka bílnum aftur á bak og áfram, nudda aðeins utan í trukkinn og svo aðeins utan í skiltavegginn. Þeir eru alveg ótrúlega lunknir í að troða sér þar sem manni finnst ekkert pláss vera, að lokum hafðist þetta og við vorum laus úr prísundinni. Eitt gerðist á meðan á bílferðinni stóð, ég fékk alltí einu mikla þyngdartilfinningu í fæturna, það var eins og ég hefði verið steypt niður í bílsætið, ég svo sem vissi að ég gæti ekki hreyft fæturna en tilfinningin var óþægileg hún vakti hjá mér innilokunartilfinningu. Þessi tilfinning er svo búin að vera viðloðandi núna í þrjá daga. Læknarnir segja þetta góðs vita, sérstaklega segja þeir gott að ég skuli hafa bæði taugabruna en það er svona sviða- og brunatilfinning sem ég er alltaf með, og þessa þyngdartilfinningu. Einn útskýrði þetta þannig að líklega væru taugaræturnar eitthvað að taka við sér.

Þannig að þetta er allavega nýtt fyrir mér.

Dagur 26

Í dag var ég tekin í gegn í gönguæfingunum, yfirsjúkraþjálfinn pískaði mig áfram. Hún var reyndar ánægð með hliðarsporin hjá mér, en ég virtist ekki vera að gera gönguæfinguna alveg rétt. Ég má ekki halla mér áfram þegar ég reyni að lyfta fótunum heldur á ég að reyna að nota mjöðmina til að lyfta fótunum, sem væri svosem allt í lagi ef mjaðmirnar á mér virkuðu eitthvað af viti. Ég allavega strögglaði við þetta og held að mér hafi tekist að taka nokkur skref með réttu móti. Eftir hádegi var ég látin æfa mig í að skríða á fjórum fótum, aðallega er ég að æfa jafnvægið þ.e. að standa á fjórum fótum án þess að velta út á hlið, afturparturinn er jú svoldið þungur.

Síðan færi ég aðra hendina fram og set þungann á þá hlið og þjálfinn færir fótinn fram svona fer ég skref fyrir skref, þetta er í sjálfu sér ekkert svo voðalega erfitt, nema þetta reynir óþyrmilega á úlnliðina þar sem dýnan er svo mjúk eru hendurnar í sveigjustöðu upp á við og það veldur sársauka í úlnliðunum. Ég spurði sjúkraþjálfann hvort ekki væri betra að ég gerði þetta á harðri dýnu, hún brosti og sagði að það væri allavega miklu auðveldara og auðveldara að halda jafnvægi, en ég yrði áfram á mjúku dýnunni. Hm þar hafði ég það.

Um kvöldið ákváðum við að gera tilraun með að panta pizzu frá öðrum stað en Pizza Hut. Auglýsingasnepill frá pizzastað hafði fylgt Deli Times um morguninn og þar voru allskonar pizzur með beikoni, skinku og pepperoni. Við pöntuðum pizzu með pepperoni. Hún kom eftir 40 mínútur, það er skemmst frá að segja að við gátum ekki borðað hana. Pepperóníið var eins og niðurskorin pylsa og ekkert sérstaklega braðgott, brauðið var mjög þurrt og osturinn ekki almennilega bráðinn, svo var eitthvað aukabragð sem fór verulega í okkur. Við hentum pizzunni og pöntuðum frá Pizza Hut. Ótrúlegur munur, ég er samt hrædd um að við verðum komin með ógeð á pizzum og kjúklingi þegar við komum heim.Við ákváðum að gera ekki fleiri svona tilraunir. Halda okkur bara við það sem við þekkjum. Læknarnir spyrja daglega hvort ég verði vör við breytingar, ég held að þetta gerist svo hægt að maður nærri því veit ekki af því. Ég veit samt að ég er að verða sterkari í sumum æfingunum, einhver hreyfigeta hefur kviknað í læra og mjaðmavöðvum en, hún er samt svo lítil að hún varla mælist. Ég sé samt mun.

Dagur 27

Vandaði mig ógurlega við að ganga á spelkunum í dag, tók hænuskref og stundum bara engin skref, aðalmálið var að beygja sig ekki fram um leið og ég reyndi að lyfta mjöðminni. Ótrúlega erfitt, ég kvartaði og sagði þetta ekki hægt, minn ágæti sjúkraþjálfi hún Shivanni brosti bara sínu skærasta og sagði; þetta kemur að lokum, þú kemst upp á lagið með þetta og svo munu vöðvarnir taka við sér smá saman og þá verður þetta allt auðveldara. Jáhá hugsaði ég bara, ég veit sko alveg að þegar ég verð farin að ganga eins og til er ætlast í göngubrautinni verð ég sett á göngugrind og það er sko ekkert auðvelt og eins gott að velta ekki mikið til hliðanna þá. Eftir hádegið var svo efri parturinn tekinn í gegn, mér gekk betur að ná jafnvæginu á fjórum fótum og tekst að skjóta upp kryppu svona stundum hjálparlaust. Shivanni var ánægð með boltaæfinguna sem felst í því að hún grýtir í mig risastórum bolta og ég grýti honum til baka, ég hélt jafnvægi, alveg sama frá hvaða hlið hún kastaði boltanum, þyngdartilfinningin í fótunum er ennþá, mér til leiðinda en vonandi til bóta. Eftir æfinguna fórum við Árni á Green Park strætið, hann var orðinn leiður á lubbanum og alveg ákveðinn í að láta klippa sig í dag, hann er búin að guggna amk tvisvar á klippingunni. Ég reyndi fá hann til að láta götuklipparann klippa, en það var hann alveg ófáanlegur til. Við vorum fyrir utan Sakir salon og horfðum inn svona vorum að meta stöðuna, ég sagði Árna ef klippingin yrði ómöguleg þá yrði hárið á honum yrði örugglega vaxið aftur þegar hann kæmi heim, í því kom klippimeistarinn sjálfur út og spurði hvort okkur vantaði klippingu, Árni sagði það vera, ekkert mál komdu inn, sagði klipparinn. Við ákváðum að koma mér fyrst á Costa kaffihúsið þar sem ég myndi bíða á meðan hann væri klipptur. Kaffihúsið er notalegt og auðvelt að gleyma sér þar við að lesa blöðin en ég hafði keypt mér tvö ný tímarit, annað um Indland og hitt er Livingetc hvort tímarit um sig kostaði 100 rúbíur eða 270 íslenskar krónur. Living held ég að sé á amk. 800 kr. heima. Allavega ég sat og kíkti í blöðin þar til Árni kom, hann var eitt sólskinsbros og greinilega ánægður með klippinguna sem var bara ágæt. Hann sagði þetta hafa verið einstaka upplifun, hann fékk þetta fína höfuðnudd, var rakaður í kringum eyrun og klipparinn viðhafði allskonar kúnstir við að klippa s.s. að klappa saman höndunum fyrir ofan hausinn á honum, nudda með miklum tilþrifum, og klippa svo örsnöggt þegar hann skellti skærunum lóðrétt niður þannig að hárflixurnar gengu í allar áttir, Árni var hálfhræddur um að hann myndi klippa í höfuðleðrið en það slapp algjörlega. Eftir klippinguna makaði klipparinn hvítu kremi í andlitið á honum og nuddaði af mikilli list, Árni hélt fyrst að hann ætlaði að raka hann, en svo var þetta bara þetta fína andlitsnudd. Eftir nuddið var hann þveginn eftir kúnstarinnar reglum og vel þurrkað út úr eyrunum á honum. Klipparanum hefur örugglega þótt Árni undarlegur því hann sagðist hafa skellihlegið þegar kallinn fór að klappa saman höndunum yfir hausnum á honum. Fyrir fíneríið borgðai hann heilar 150 rúbíur eða 405 krónur. Ekki hátt tímakaup það. Hér á hjúkrunarheimilinu er þónokkuð af fólki sem á hesta eða hefur verið í hestamennsku, okkur þykir ekkert leiðinlegt að sýna þeim myndir af hrossunum okkar því ekkert af þessu fólki hefur séð íslenska hestinn áður. Við erum með nokkur vídeóklipps af hestunum okkar sem fólkinu hér finnst gaman að sjá. Held bara að íslenski hesturinn slái arabíska hestinum alveg við ) Við enduðum daginn á stórþvotti, við erum fljótari að þvo og þurrka heldur en þvottafólkið þannig að nú gerum við þetta bara sjálf. Ein hjúkkan kom með þau skilaboð til mín áðan að á morgun færi ég í mænusprautu á hinn spítalann og að ég yrði í 24 tíma. Jamm það kom að því, ég verð allavega betur undir það búin en síðast þar sem ég veit nú hvernig þetta gengur fyrir sig. Ég er spennt að vita hverju þessi sprauta skilar mér, vona bara að það verði ekki bara höfðuðverkur og svoleiðis leiðindi.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir