Þuríður í Delhí - Búin í skoðun

Fékk skoðun í morgun, ekki amalegt það. Annars ætlaði ég alls ekki að komast framúr í morgun, veit alveg hvaðan unglingarnir mínir hafa þennan ósið að eiga bágt með að vakna. Það var ekki fyrr en móðir mín var búin að tvístíga hér nokkur spor, hella upp á og að lokum ræskja sig með háu jæja að ég drattaðist framúr. Kaffibolli og kremkexkaka frá Frón nægði mér alveg, síðan var haldið af stað niður í endurhæfingu.

Smá spenningur gerði vart við sig, skyldi eitthvað hafa breyst frá því á föstudagsmorgun, einhver breyting hafa orðið eftir sprautuna. Ég gat í raun ekki merkt neitt sérstakt nema ef vera skyldi, einhvernvegin meira af djúpri vöðvatilfinningu, og svona náladofa í mjöðmum, lærum, kálfum og tám. Ekki samt þennan venjulega náladofa heldur eitthvað í líkingu við hann. Shivanni beyglaði á mér tærnar og skipaði mér að hreyfa, ég remdist eins og ég lifandi gat, afmynduð í framan af áreynslu. Mamma stóð tilbúin með myndavélina ef undrið skyldi nú gerast, en ekkert gerðist. Eftir nokkrar æfingar var komið að hliðaræfingum en þá er fría löppin beygð aftur og síðan á ég að rétta úr henni og draga hana að rassi til skiptis. Eitthvað virtist þessi æfing koma betur út og sagði Shivanni að mér hefði greinilega tekist að hreyfa fótinn til, mamma staðfesti það. Að lokum fékk æfingaboltinn að kenna á mér, mér finnst rosalega gaman að standa upp af stólnum til að setjast á boltann, ég er náttúrlega staðsett í göngubraut þannig að ég get auðveldlega híft mig upp úr stólnum haldandi í handriðið sitt hvoru megin. Að sitja á boltanum er aftur á móti annað mál og erfiðara, mér gengur þó betur að halda jafnvægi núna en fyrir helgi, að vísu er langt í land með að ég nái almennilegu valdi yfir að lyfta höndunum án þess að hreyfa boltann, já og auðvitað á ég langt í land með að ná valdi yfir boltanum yfirleitt. Eftir æfinguna drifum við okkur út í sólskinið, á leið þangað stoppaði dr. Geeta okkur og sagði mér að þegar ég kæmi inn aftur vildi hún að ég kæmi aftur niður í sal, hún ætti eftir að skoða mig. Ég kastaði mæðinni úti dágóða stund og fór svo aftur niður á eftir dr. Geetu. Hún skoðaði mig, lét mig hreyfa hnén og skipaði mér að hreyfa tærnar, já já hugsaði ég, og remdist svo eins og ég gat með öllum virkum vöðvum í efri parti við að reyna að hreyfa amk. eina tá fyrir dr. Geetu. Hún leit á mig og sagði mér svo að hætta að rembast þetta, ég ætti aðeins að senda skilaboðin niður í tærnar en ekki að rembast með öllum efripartinum. Ég snarhætti rembinginum og reyndi að nota heilann. Hún kallaði upp að greinilega væru flikrur í tánum og á hinum fætinum var greinileg hreyfing, það staðfesti mamma. Mér þótti verst að verða ekki vitni að þessu sjálf og hef í dag verið að prófa þetta öðru hvoru, hef þó ekki haft erindi sem erfiði. Bæði dr. Geeta og dr. Shudeem sögðu að þau gætu séð vöðva í lærunum hreyfast. Síðan prófaði dr. Geeta hvort ég finndi snertingu, fyrst strauk hún laust yfir kviðinn á mér og lærin og ég átti að láta vita ef ég finndi eitthvað. Eitthvað fann ég, síðan prófaði hún að þrýsta fast, fyrst færði hún sig niður kviðinn og ég gat alltaf fundið þrýstinginn og sagt henni hvar hún væri, svo færði hún sig niður lærin og ég gat staðsett hana niður undir hné. Hún var afar ánægð með þetta. Það er svoldið gaman að heyra hvað þau eru ánægð og láta mig vita hvað þeim finnist miklar framfarir, einhvernveginn finnst mér þá að ég hafi áorkað svo óskaplega miklu og verð enn bjartsýnni. Það er hinsvegar ekki vafi í mínum huga þegar ég lít til baka að stór breyting hefur orðið á mér, ég finn nú að ég er tengd við neðripartinn, hann er ekki lengur dauður partur af mér. Ég finn líka þá breytingu að ég er farin að ætlast til að hné og fótur hreyfist til, áður gerði ég það ekki, vegna þess að ég fann enga tengingu niður en nú finn ég eitthvað óútskýranlegt í t.d. lærum ef ég sendi boð um að spenna þau. Líkamsvitundin hefur breyst og lífsgæði mín orðin mikið betri en fyrir nokkrum mánuðum síðan. Stundum velti ég því fyrir mér hvort þetta sé nokkuð hugarspuni hjá mér, ég þarf að vera raunsæ og meta ástandið eins og það er, bæði fyrir sjálfan mig og þá sem eru að fylgjast með mér, ég get ekki leyft mér finnast eitthvað sem er ekki. Ég kemst æfinlega að þeirri niðurstöðu að ekki sé um hugarspuna að ræða. Dr. Geeta kvaddi mig og ég gat farið að hvíla mig eftir strembin morgun. Kl. tvö var gönguæfing, ég er pískuð áfram af Shivanni, hún er strax búin að sjá að ég hafi nýtt mér of mikið að geta stutt göngugrindinni við mjöðmina á mér þegar ég færi annan fótinn fram, það er bannað. Ég á að ganga án þess að halla mér til hliðanna, shift the weight properly, segir hún sem sagt á að færa þungann almennilega yfir á annan fótinn og færa svo þann lausa fram, án þess að halla mér til hliðar. Dísus hún ætti bara að prófa þetta sjálf. Ég á að taka lítil skref og ekki að vera svona gleiðfætt, mætti halda að ég væri í tískubransanum. En hún hefur hárrétt fyrir sér og mér er betra að fara að fyrirmælum, þá gengur þetta að lokum betur. Síðasta atriðið í dag var glíman við dýnuna, mér var komið niður á gólf og þar fór ég á fjórar fætur. Mamma tók að sér að standa ofan á endanum á dýnunni þannig að hún skriði nú ekki öll til undir mér. Á fjórum fótum þarf ég að hreyfa mjaðmir og rass í hringi fyrst tíu sinnum til hægri og svo eins til vinstri, þetta tekur ótrúlega á en mér fannst þetta ganga betur en síðast. Síðan þarf ég að standa á fjórum og lyfta svo upp höndunum til skiptis og það er æfing sem ég ræð illa við enn sem komið er. Að lokum er ég látin skriða á fjórum fram og til baka, nokkrum sinnum. Þau hreyfa fótinn til þegar ég er búin að lyfta upp hnénu, þ.e. þegar mér tekst ekki sjálfri að draga hann áfram eða spyrna honum aftur á bak. Þessar æfingar eru ótrúlega erfiðar og reyna mikið á bak, axlir og hendur en mér þykir þetta ótrúlega gaman og veit að þetta á bara eftir að verða skemmtilegra. Ég öfundaðist nefnilega heilmikið út í strákana sem voru hér í síðustu ferð og fengu að gera þetta, nú fæ ég að gera þetta, þeir ættu bara að sjá ;o). Æfingin var búin og eftir stutta viðdvöl úti við þar sem ég reyni allt hvað ég get að fá brúna slikju á skjannahvíta leggina, ákváðum við föruneyti mitt að kíkja á Green Park markaðsgötuna í leit að brauði. Kaffihúsið Costa var heimsótt og komu heyrnalausu þjónarnir stökkvandi niður tröppurnar til að hjálpa Sigurbirni að bera mig upp. Ég held að hvergi hafi ég fengið betri þjónustu en á þessu kaffihúsi, þjónarnir eru held ég allir heyrnalausir en hafa vakandi auga með öllu og ekkert virðist fara fram hjá þeim, þeir eru líka eitthvað svo notalegir. Í leiðinni til baka fékk verslunargleði móður minnar smá útrás og ferð eftir einu brauði varð að konu klyfjaðri pokum fullum af varningi, enda má finna þarna ýmislegt ef vel er að gáð, það þarf sko engar mollferðir til að geta verslað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir