Þuríður í Delhí - Búin að prófa boltann

Einhvern veginn tókst mér að sofa yfir mig í morgun, vekjarinn hringdi kl. átta, ég fálmaði í hann og slökkti og ætlaði aðeins að loka augunum lengur, ég vaknaði korter í níu.

Mamma sem var veik í gær og lá fyrir í mestallan gærdag stökk á fætur nær stálslegin eftir nær 16 tíma svefn til að hella upp á kaffi, við vorum mættar 5 mín. yfir 9 niðri í endurhæfingu og ég búin að koma mér í föt, fara á klósett (sem er nú þó nokkuð tímafrekt), drekka kaffi og meira að segja fá stofnfrumusprautuna, allt á 20 mín. ótrúlega góður tími – spurning að stilla klukkuna bara á hálfníu hér eftir.

Shivanni tók á móti okkur niðri með bros á vör eins og venjulega, við fórum í gegnum æfingarnar og sumt fannst henni gott annað talaði hún ekki um. Hún skipaði mér að færa til fæturnar á dýnunni, halda fæti ofan á jafnvægisbolta, lyfta þeim upp og ýta þeim niður, beygja og rétta. Og ég gerði þetta allt saman …amk. í huganum, hún sá til þess að hreyfingin gengi eftir. Svo var mér jaskað út í armbeygjum sem eru nú reyndar alltaf að verða auðveldari og auðveldari. Eftir hádegið átti ég svo að mæta kl. 2.

Við mamma kíktum aðeins út, klukkan var tíu og það var skítkalt á indverskan mælikvarða, enda sólin ekki komin upp, hitamælirinn inni sem á að sýna hitann úti stóð í 21°C ég er nú nokk viss um að hann var vitlaus. Í hádeginu elduðum við núðlur, ég hef reyndar ekki borðað þær síðan ég var hér síðast. Ég mætti í æfingar kl. 2, og byrjaði á gönguspelkunum, ég hafði ekki tekið mörg skref þegar allt í einu boppaði skrúfa einhverstaðar úr spelkunum. Shivanni stoppaði mig af strax og ég var tekin úr spelkunum, ekki meiri ganga þar til á morgun sagði hún, spelkusmiðurinn skyldi yfirfara spelkurnar og laga það sem að væri. Hvað á ég þá að gera spurði ég sársvekkt yfir að fá ekki göngutúrinn, þú ferð á jafnvægisboltann, sagði hún. Hah þar kom að því, ég hafði einmitt verið að velta því fyrir mér daginn áður hvenær ég yrði sett á hann og ég hafði spurt Rusty hvenær hann hafði farið á boltann, hann sagðist hafa æft hann í ferð nr. 3 en hann minnti að hann hefði verið látið prófa hann síðustu tvo dagana í ferð nr. 2.

Ég tryllaði upp í teppalögðu göngubrautina sem er með handrið báðu megin, Shivanni útskýrði fyrir mér að ég ætti að standa upp úr stólnum, stóllinn yrði tekin og boltanum komið fyrir í staðinn, svo ætti ég að setjast á boltann. Ég kveið svoldið fyrir að hafa mig ein upp úr stólnum, var ekki viss um að handleggirnir myndu standast álagið, en ég prófaði og allt í einu stóð ég þarna án spelka, eins og ég hefði aldrei gert annað. Ég virti sjálfan mig fyrir mér í speglinum, jebb ég hafði lagt af, greinilega, og þegar ég stóð þarna langaði mig bara til að labba af stað án þess að hafa nokkuð drasl áhangandi á mér. Shivanni truflaði þessa draumóra mína með að skipa mér að setjast á boltann. Ég dúaði mér á gráa boltanum og hélt mér fast í handriðið, Shivanni sagði mér að finna jafnvægispunktinn og sleppa svo handriðinu, það gekk alveg upp, að vísu hélt hún við boltann að framan svo hann færi ekkert og einhver annar hélt við að aftan. Eftir smá stund sagði hún mér að lyfta höndunum til skiptis, þá vandaðist málið. Mér tókst að lyfta þeim en ég fann að jafnvægið hvarf um leið. Hún prófaði að sleppa boltanum og hann rann af stað áfram. Ég sá að þetta yrði erfiður hjallur að komast yfir og spurði hana hvort hún héldi virkilega að ég hefði næga vöðvahreyfingu í mjöðmum, maga og baki til að ég myndi geta þetta. Hún sagði að allir ættu erfitt með þetta fyrst og þetta myndi koma hjá mér eins og öðrum. Ég verð bara að trúa því, svo var komið að því að standa upp aftur og það gekk eins og í sögu, aftur langaði mig bara til að standa þarna og standa en það var ekki í boði og mér skipað að setjast í stólinn, fleiri þurftu að komast að. Það verður fróðlegt að sjá eftir mánuð hvort jafnvægið verður orðið eitthvert á þessum bolta og ef það verður þá verð ég að bæta því við æfingarnar þegar heim kemur.

Eftir æfinguna ákváðum við að kíkja á Green Park og sjá hvort götumyndin hefði nokkuð breyst. Einhvernveginn fannst mér miklu styttra þangað núna heldur en síðast þegar ég var hérna, það hlýtur að vera hitinn sem veldur því. Hvað haldið þið, búið er að laga heilmikið til fyrir framan helminginn af verslunargötunni og búið að setja fínar hellur og klæða vegginn sem skilur plássið frá götunni með þessum fínu marmaraflísum, þetta fer allt batnandi og þvílíkur munur að keyra stólinn þarna núna. Costa kaffi er á sínum stað og enn margar tröppur upp sem þjónarnir þar þurfa að bera mig upp ef ég ætla til þeirra. MacDonalds sjoppan var horfin og er ég viss um að margir sakna hennar þrátt fyrir að eingöngu væri hægt að fá hamborgara úr kjúklingi. Á neðri hæðinni á Pizza Hut hafði Nokia komið sér fyrir og ég sem hélt að þeir ætluðu sjálfir að vera á neðri hæðinni og var búin að gera mér vonir um að komast kannski bara inn á staðinn, það verður ekki um sinn. Annað var ósköp svipað, við versluðum okkur gróft hafrabrauð, vatns-hitakönnu og sjampó. Í lítilli blómabúð hinu megin við götuna keypti Sigurbjörn handa okkur mömmu rósavönd með 14 stórum rósum á kr. 480 íslenskar. Við þrumuðum heim, skelltum rósunum í þennan fína vasa sem við fengum lánaðan, helltum upp á kaffi og smurðum okkur brauð með sardínum, laxapaté, osti og rabbabarasultu, hrikalega gott, hvergi betra en í svona útilegu ;o).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir