Þuríður í Delhí - Aftur á leið í stóra sprautu

Hrikalega sem það ætlar að reynast mér erfitt að leiðrétta gönguna mína. Ég streða og streða við að reyna að gera þetta rétt, færa þyngdina yfir á annan fótinn, sem gengur vel, en svo á ég að lyfta upp mjöðminni án þess að snúa efri partinum nokkuð og það gengur ekki vel.

 Einhvernveginn gengur mér þetta með vinstri fótinnm, næ að lyfta mjöðminni þar án þess að vinda upp á mig en hægri fóturinn bifast ekki  fyrr en ég er búin að vinda verulega upp á mig. Shivanni er ekki ánægð og sagði mér að í næstu skipti myndum við æfa mjaðmalyftur á göngubrautinni, sem sagt eitt skref aftur á bak hjá mér núna. Mér gekk hinsvegar vel á jafnvægisboltanum, þannig lagað, mér tekst að sitja í langan tíma og leiðrétta mig ef ég fer eitthvað að velta, að lyfta höndunum til skiptis er langt í land að takist vel og sömu sögu er að segja þegar ég er á fjórum fótum og lyfti höndunum til skiptis mig vantar meiri styrki í mjaðmirnar og fæturna. Góður Guð værir þú til í að kippa þessu í lag? Helst strax í dag!

Eftir æfingarnar var ég beðin ásamt öðrum sjúklingi hér að hitta foreldri sem var að leita að lækningu fyrir dóttur sína sem hafði lent í bílslysi fyrir mánuði síðan og lamast frá hálsi. Foreldrið vildi heyra frá okkur hvernig hefði gengið. Ég kom upp og hitti manninn sem gat allt eins verið indverji. Hann heilsaði mér og spurði hvaðan ég væri og þegar ég sagði Iceland, hváði hann og sagði Ísland, ertu frá Reykjavík, þetta sagði hann eins og ekkert væri á íslensku. Rosa varð ég hissa, maðurinn sagðist oft koma til Íslands í viðskiptaerindum, og hann talaði bara nokkuð góða íslensku. Skemmtilega óvænt þó tilefnið væri ömurlegt.

Ég fékk stofnfrumudripp í æð í dag, á morgun fer ég á hinn spítalann og er þá að fara í svokallaða lombar sprautu, veit ekki hvernig þetta er skrifað, en þá er sprautað inn í mænu, ég kem aftur til baka 24 tímum síðar ef allt gengur vel eða á föstudaginn. Þetta er sú sprauta sem er fyrirkvíðanlegust því fólk getur orðið ansi mikið veikt af henni. Ég vona bara að ég sleppi jafnvel og hingað til.

Af  miss Mollý er það að frétta að hún er alsæl eftir að hafa orðið sér út um bæði sólarvörn og vax og meira að segja augnabrúnapensil. Nýtt  moll var tekið með trompi í dag, verð að segja að miss Mollý fannst skrýtið að vera nær ein á ferð í þessu stóra molli, svo skrýtið að hún fór yfir í gamla mollið til að tékka á hvort enginn væri þar á ferli heldur. Þar var allt fullt af fólki og miss Mollý gíraðist öll upp henni fannst miklu skemmtilegra að skoða þar sem fullt er af fólkið það æsti einhvernveginn upp í henni kauplöngunina, þið vitið að hálfhlaupa búð úr búð með kaupaugun á stilkum til að missa nú ekki af neinu sem eftirsóknarvert væri að eiga. Miss Mollý er alsæl núna búin að vaxskella sig og búin að máta nýju flíkurnar og komast að að hún passar í allar nema eina sem er allt í lagi hún mun nefnilega passa í hana bráðum, hún er sko í megrun. Nú má morgundagurinn koma.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir