Þuríður í Delhí -27. og 28. febrúar
Mánuðurinn er á enda og tvær vikur liðnar síðan við lentum hér í Delhí. Ég er búin að fara í 2 sprautur á hinn spítalann og einu sinni að fá stofnfrumukokteil í æð hér inni á herbergi. Í gærmorgun fór ég í loks í æfingar, hún var nú ekkert að ofgera mér hún Shivanni enda var ég ekkert í neinu sérstöku formi fyrir æfingar.
Svo virðist sem ný hreyfing sé að láta á sér kræla, en það er þegar ég á að draga hægri fótinn að rassinum að þá færist hann til, sá vinstri gerir það hinsvegar ekki enn. Annars fannst mér jafnvægið ekki gott og jafnvægið á boltanum var ekki mikið, helst að mér tækist að sitja en allsekki að lyfta hönd hvað þá að mér gengi nokkuð við að hreyfa mjaðmirnar í hringi. Shivanni sem alltaf er uppörvandi sagði mér að hafa ekki áhyggjur á þriðjudaginn yrði mjög trúlega komin einhver viðbót sem ég tæki eftir. Ég væri alveg til í að fá meiri styrk í mjaðmirnar, já og bakið og kviðinn og fyrst ég er byrjuð að telja, þá væri bara gott að fá styrk í allt heila klabbið ;o). Sjúkraþjálfarnir voru spennt að komast heim, því nú voru þau komin í frí þar til á þriðjudag, þau tóku forskot á sæluna þegar þau komu út um hádegið og drituðu litasprengjum á hvort annað og þá sem fyrir voru. Mamma hélt að hún væri alveg óhult þar sem hún stóð uppi í tröppum að taka myndir af sprellinu, en endaði útklínd í bleikum og appelsínugulum lit í framan sem fór henni reyndar bara vel. Eftir hádegið fórum við í garð hinna 5 skilningavita, ótrúlega magnaður garður en hér í Delhí er reyndar fjöldinn allur af fallegum almenningsgörðum sem fólk notar mjög mikið. Þessi garður var hannaður með það fyrir augum að fólk notaði skilningarvitin þ.e. snerta, heyra, bragða, lykta, og sjá. Við notuðum fjögur skilningavit, við brögðuðum ekki á neinu. Garðurinn er vel hannaður og á flestum stöðum hjólastólavænt, sumstaðar leið mér reyndar eins og ég væri föst í einskonar völundarhúsi þar sem stígurinn lá í miklum hlykkjum og hringjum umlukinn veggjum. Á leið út úr garðinum komum við svo að markaðsborðum, hlöðnum ýmsum varningi, síðasta borðið áður en við fórum út af svæðinu vakti athygli okkar en þar var kona sem las í tarotspil og ýmislegt fleira. Auðvitað lét ég reyna á hæfni hennar. Hún var reyndar ótrúlega nösk, og lýsti krökkunum mínum svo ótrúlega vel að mér stóð ekki alveg orðið á sama og sagði mér reyndar hluti um sjálfan mig sem hún gat allsekki vitað um. Um framtíð mína í hjólastól sagði hún ekki mikið en taldi að ég yrði í ca 3 ár til viðbótar að koma mér upp úr honum, annars væri þetta karma mitt að vera í stólnum og ég yrði að vinna svoldið vel í að breyta því ef ég ætlaði úr honum. Sigurbjörn spurði hana hvar hún hefði lært þessa list og svaraði hún því til að hún hefði lært hjá Gúrúnum sínum. Það er alltaf spennandi að hitta svona konur, ég tala nú ekki um þegar þær hitta á réttu hlutina. Eftir spádóminn villtumst við hálfgert inn á ítalsk-indverskan veitingastað sem var við innganginn á garðinum. Flottur veitingastaður, maturinn fínn og þjónustan frábær. Sunnudagurinn kom, mér tókst að sofa til hálftíu en vaknaði þá við skarkalann í móður minni sem var að hella á. Ég ætlaði ekki að missa af potteríinu niðri í andyri en þar átti að vera leirlistamaður að kenna okkur réttu handtökin við að leira og jeminn maðurinn var alveg ótrúlegur. Hann var sirka 2 mínútur að töfra fram ótrúlega flotta blómavasa, kúpta og hálsmjóa með línuskrauti á og allskonar dýr töfraði hann fram. Hann sagðist vera búin að vinna við þetta í 35 ár, og æfingin skapar meistarann sem er orð að sönnu. Eftir þetta fór ég út í sólina, ég hitti þrjá félaga mína frá síðustu ferð en allir komu þeir á föstudagskvöldið. Þetta voru Tim, Wayne og Jarred allir frá Ástralíu og allir með það háan skaða að hendur þeirra eru skertar. Þeir höfðu allir merkt breytingu frá síðustu ferð og einn var komin með örlitla hreyfigetu í fingur beggja handa. Ótrúlega gaman að hitta þá aftur. Eftir hádegið fórum við fíluferð að Lótushofinu, okkur hafði verið sagt að það væri lokað á mánudögum og þriðjudögum en það kom í ljós að það var lokað á sunnudögum. Við hljótum að hitta á það opið næst en það verður í þriðja sinn sem við reynum að sjá þetta fræga hof. Eftir að hafa þvælt bílstjóranum niður að India gate-inu og svo á Kahn markaðinn sem var líka lokaður í dag báðum við hann að setja okkur úr á Green Park markaðsgötunni. Þaðan fórum við í könnunarleiðangur í næstu götu og fundum þetta forláta verslunarhverfi þar sem innfæddir versla og ekkert prangerí í gangi. Við skoðuðum og ákváðum að koma þarna aftur áður en við færum heim. Á GreenPark markaðnum var allt orðið undirlagt í litadufti, vatnsblöðrum og vatnsbyssum, greinilega verður fjör hér á morgun. Ég gleymdi næstum að minnast á að móðir mín stóð í stórþvotti í morgun og svo aftur hér í kvöld, enda tími til komin, ég átti varla orðið hreinan bol að fara í lengur. ;o
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.