Þórsarar með grobbréttinn á Norðurlandi
Kvennalið Tindastóls og Þórs mættust í Síðuskóla á Akureyri í gærkvöldi í 1. deildinni í körfubolta og var leikurinn byggður upp sem baráttan um Norðurlandið. Stólastúlkur höfðu unnið báða leiki sína gegn Þórsliðinu á undirbúningstímabilinu en þær urðu að sætta sig við ósigur í gær eftir mikinn baráttuleik. Lokatölur reyndust 72-65 fyrir Þórsstúlkur og þær geta því grobbast á kostnað Stólanna fram að næsta leik í það minnsta.
Um 200 manns mættu til að hvetja liðin til dáða. Þórsstúlkur ku vera ánægðar með að vera komnar með nágranna sína úr Skagafirðinum til leiks á ný í körfunni, enda skemmtileg stemning og metingur á milli grannanna. Lið Þórs fór betur af stað í ansi kaflaskiptum leik. Þær komust í 10-0 en þá tók Arnoldas leikhlé og stillti kúrsinn hjá sínu liði og í framhaldinu náðu stelpurnar að koma sér inn í leikinn með bættum varnarleik og þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan 14-11 fyrir Þór. Ógnarfjöldi 3ja stiga skota var tekinn í leiknum og skotin fóru aðeins að detta rétta leið í öðrum leikhluta. Tess og Valdís röðuðu nú niður körfum og lið Tindastóls náði frábærum 5-22 kafla og tíu stiga forystu. Kristín Halla setti líka niður þrist og kom forskoti Tindastóls í 13 stig en staðan í hálfleik var 29-39 fyrir Tindastól.
Helgi Bragason, þjálfari Þórs, gaf sínum stúlkum gott spark í hálfleik. Þær komu tvíefldar til leiks og fóru að stíga Stólastúlkur betur út. Lið Þórs gerði fyrstu sjö stig síðari hálfleiks og leikurinn orðinn æsispennandi. Marín Lind og Tess gerðu þrjú stig hvor fyrir Tindastól og staðan 42-49 fyrir gestina þegar tvær og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta en þá hrukku Þórsarar heldur betur í gírinn og náðu 16-3 kafla fram að lokum leikhlutans. Staðan skyndilega orðin 58-52 fyrir Þór.
Akureyringar náðu tíu stiga forystu í upphafi fjórða leikhluta en tveir þristar frá Tess komu Tindastólsliðinu aftur inn í leikinn. Liðin tóku nú nokkrar skorpur en lið Þórs yfirleitt fimm til tíu stigum yfir. Þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum gerði Valdís Ósk 3ja stiga körfu, staðan 68-65, og nú var æsingurinn og baráttan í algleymingi. Stuðningsmenn Tindastóls höfðu hvatt sitt lið allan leikinn en nú ákváðu Akureyringarnir á pöllunum að rumska og styðja sitt lið. Nú var mikið um tapaða bolta og hasar en það voru Þórsstúlkur sem reyndust sterkari á taugunum og gerðu fjögur síðustu stig leiksins og fögnuðu sætum sigri.
Þegar tölfræði leiksins er skoðuð er hún ansi skrautlega. Lið Tindastóls tók fleiri 3ja stiga skot (11/46) í leiknum en skot innan 3ja stiga línunnar (10/38) og hittnin aðeins um 25%. Hittni Þórsstúlkna var á svipuðum nótum þó þær hafi ekki verið grimmar í 3ja stiga skotunum. Munurinn á liðunum liggur einna helst í mun fleiri fráköstum Þórsliðsins og þá má segja að Akureyringar hafi unnið leikinn af vítalínunni þar sem þær gerðu 26 stig gegn 12 stigum Tindastóls. Sem fyrr er það því baráttan undir körfunni sem reynist Stólastúlkunum erfið.
Tess Williams var með 27 stig í leiknum og ellefu fráköst, hún fiskaði níu villur, stal átta boltum en tapaði fimm. Rakel Rós var með tíu fráköst en henni gekk illa að koma boltanum í körfu Þórsara en það sama má segja um flesta aðra leikmenn liðsins að Tess frátalinni. Valdís Ósk var með 15 stig, Marín Lind 7 en aðrir leikmenn minna. Í fámennu liði Þórs var Sylvía Rún stigahæst með 28 stig og þar af 14 úr vítum. Fjórar Þórsstúlkur voru með tíu fráköst eða meira í leiknum. Aðeins sjö leikmenn Þórs tóku þátt í leiknum en Arnoldas gaf öllum tíu Stólastúlkum séns á að láta ljós sitt skína.
Næsti leikur Tindastóls er gegn liði Fjölnis hér heima 24. nóvember en liði Fjölnis var spáð sigri í deildinni fyrir tímabilið. Erlendur leikmaður Fjölnis hefur átt við meiðsli að stríða, sem og fleiri leikmenn liðsins, og töpuðu þær á dögunum gegn ÍR sem lið Tindastóls vann fyrr í vetur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.