Þorrablót þvers og kruss
Það verður vart þverfótað fyrir hrútspungum og sviðasultu í Skagafirði. Þorrablót um fjörðinn þveran og endilangan og örugglega hægt að fullyrða, án þess að þurfa ýkja nokkuð, að vel á annað þúsund manns blóti þorra í Skagafirði þessa helgina.
Í gærkvöldi var sameiginlegt þorrablót Akra-, Lýtingsstaða- og Staðarhrepps haldið í Miðgarði og ekki annað að sjá á Fasbókinni en það hafi heppnast samkvæmt væntingum og jafnvel eitthvað umfram. Geirmundur spilaði þar fyrir dansi og hann heldur áfram í íþróttahúsinu á Króknum í kvöld þegar 57 árgangur Króksara stendur að Króksblóti en fréttir herma að þangað stefni vel á sjötta hundrað manns.
Eldri borgarar blóta sömuleiðis þorra í Ljósheimum í kvöld og ef blaðamanni skjátlast ekki verða á sama tíma þorrablót á Skaganum og á Hólum í Hjaltadal.
Það virðist því ekki kreppa verulega að á þorra þetta árið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.