Þistilfjarðarbirnan fjögurra ára

Þistilfjarðarbirnan sem skotin var þann 27. janúar 2010 var flegin þann 28. janúar síðastliðin og kom starfsfólk Náttúrustofu Norðurlands vestra að því verki ásamt Haraldi Ólafssyni og Sigurði Guðmundssyni hamskerum og Karli Bjarnasyni sútara. Sama kvöld var skrokkur birnunar fluttur suður til krufningar.

 Fyrstu niðurstöður krufningarinnar liggja nú fyrir og hefur Karl Skírnisson dýrafræðingur á Tilraunastöðinni á Keldum sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu
Fréttatilkynning frá Karli Skírnissyni
Hvítabjörn var felldur skammt frá Óslandi í Þistilfirði 27. janúar 2010. Eftir að hafa tekið feldinn af dýrinu á Sauðárkróki var björninn fluttur til Reykjavíkur. Samkvæmt beiðni frá Náttúrufræðistofnun Íslands krufði Karl Skírnisson dýrafræðingur á Tilraunastöðinni á Keldum björninn ásamt þeim Ólöfu Guðrúnu Sigurðardóttur, meinafræðingi á Keldum og Þorvaldi Björnssyni, hamskera á Náttúrufræðistofnun.

Rannsóknir á dýrinu eru gerðar að hluta til í samvinnu við Dani sem unnið hafa um árabil að athugunum á hvítabjörnum á Grænlandi. Hauskúpa dýrsins og bein verða hreinsuð og varðveitt á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hér var á ferðinni ung birna, 173 cm löng. Hún var vigtuð nyrðra áður en feldurinn var tekinn og reyndist þá vera 138 kíló. Fyrirhugað er að ákvarða aldur dýrsins út frá fjölda árhringja í tannrótum en sé stærðin borin saman við mælingar á dýrum úr Austur-Grænlandsstofni hvítabjarna er ljóst að birnan sem hér um ræðir var þegar orðin sjálfstæð. Húnar lúta ekki forsjár móður nema um fyrstu 27 mánuði ævinnar. Þeir fæðast í híði að vetrarlagi, oftast í desember eða janúar. Líklegast er að Þistilfjarðarbirnan sé ríflega fjögurra ára (49 mánaða) en upplýsingar um raunverulegan aldur verða kynntar þegar búið er að telja árhringi í tannrótum dýrsins.

Nokkur fita var undir húðinni, einkum á lend, kviði og innanverðum lærum en nær engin fita var í kviðarholi. Krufning leiddi ekkert óeðlilegt í ljós og benti til að birnan hafi verið heilbrigð þegar hún var felld.

Dýrið hafði ekki étið daginn áður en það var fellt því engar fæðuleifar voru til staðar í meltingarvegi. Birnan hafði þó slökkt þorstan því litlir krabbar sem lifa í ferskvatni fundust í iðrum ásamt nokkrum sinustráum og nokkrum blöðum af krækilyngi.

Fyrstu niðurstöður benda til þess að birnan hafi ekki verið smituð af tríkínum en fyrirhugað er að rannsaka það nánar á Tilraunastöðinni á Keldum auk þess sem leitað verður að öðrum sníkjudýrum.

Tilraunastöðinni á Keldum 01. febrúar 2010

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir