„Þetta er náttúrulega hörku lið í Keflavík, ekki má gleyma því,“ segir Svavar Atli sem býst við stríðsátökum í kvöld

Það var háspenna lífshætta í Síkinu þegar Keflvíkingar sóttu Tindastólsmenn heim sl. mánudagskvöld. Stuningmenn voru vel með á nótunum og segir Svavar Atli Birgisson, einn þjálfara Stóla þá gefa aukadropa á tankinn. Mynd: Hjalti Árna.
Það var háspenna lífshætta í Síkinu þegar Keflvíkingar sóttu Tindastólsmenn heim sl. mánudagskvöld. Stuningmenn voru vel með á nótunum og segir Svavar Atli Birgisson, einn þjálfara Stóla þá gefa aukadropa á tankinn. Mynd: Hjalti Árna.

Í kvöld fer fram fjórði leikur í rimmu Tindastóls og Keflavíkur í úrslitakeppni Subway deildarinnar í körfubolta en með sigri komast Stólar áfram í undanúrslit. Fari hins vegar svo að Keflvíkingar beri sigur úr býtum ráðast úrslit, um hvort liðið fer áfram, í oddaleik á páskadag í Síkinu á Sauðárkróki.

Að sögn Svavars Atla Birgissonar, eins þjálfara Tindastóls má búast við hörkuleik og hvetur hann stuðningsmenn til að fjölmenna á leikinn sem fram fer Blue höllinni í Keflavík. Eins og allflestir vita, stóð sigur Tindastóls á Keflavík afar tæpt í síðasta leik en þá náði liðið að tryggja sér sigur þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

„Þessi leikur var nú ekki fyrir hjartveika,“ segir Svavar en skyldi hann hafa trúað því að Stólar væru að fara að sigra í leiknum. „Ég væri að ljúga að þér ef ég myndi segja það. Mér fannst leikurinn vera kominn, farinn, kominn, farinn og svo tókum við hann í lokin. Þetta var mikið fram og til baka og sem betur fer tókum við hann þegar klukkan var búin. Þetta var alveg magnað. Ég man bara ekki eftir svona leik áður, alveg stál í stál. Ég var svo peppaður í leiknum að hugsa einhverja mótleiki og rífa mannskapinn áfram en að vera áhorfandi, ég get ekki ímyndað mér hvernig fólk hafi taugar í þetta. Þetta er allt öðruvísi þegar maður er í aksjóninu. Þetta var svakalegt.“

Má búast við svipuðu í kvöld?

„Já, þetta er náttúrulega hörku lið í Keflavík, ekki má gleyma því. Þetta er það lið sem hefur verið hvað jafnbest síðustu tvö ár. Þó þeir hafi ekki unnið titilinn í fyrra, þá hafa þeir ekki tapað mörgum leikjum. Hafa verið alveg hörkugóðir. Í haust þegar Okeke var með þeim þá sá ég ekkert lið stoppa þá. Ég bara sá það ekki. Svo meiðist hann og þá breytist ballansinn í liðinu,“ segir Svavar en það var einmitt á móti Tindastól sem miðherji Keflavíkur, David Okeke, meiddist þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og þurftu sjúkraflutningamenn að bera hann af velli. Keflavík lagði þá Tindastól með 93 stigum gegn 84. Eftir leikinn komst Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 16 stig á meðan Tindastóll sat í 4. sætinu með tólf.

„Við erum að berjast við hörkulið með mikla reynslu og þetta verður bara djöfulsins stríð. Það er enginn afsláttur gefinn í þessu og dómarar eru að leyfa mikið. Ég á ekki von á öðru í Keflavík en að við verðum í alvöru fæting,“ segir Svavar vígreifur.

Hann langar til að sjá stuðningsmenn fylla stúkuna í Keflavík enda staðreynd að þeir eru sjötti maðurinn í liðinu.

„Þetta er náttúrulega svakaleg stemning. Það er langt síðan, jafnvel aldrei sem stemningin hafi verið eins og í síðasta leik. Það væri ekki verra ef stemningin yrði svona í Keflavík því þetta munar alveg gríðarlega, gefur leikmönnum aukinn kraft. Ég man eftir því þegar maður var sjálfur í þessu, dauðuppgefinn að fá bakköpp úr stúkunni, þá komu aukadropar á tankinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir