Þessir gömlu góðu gengu í endurnýjun lífdaga í Bifröst

Það voru þakklátir og sælir Skagfirðingar sem stigu nýungir - og kannski varanlega síungir - útí skagfirskt vorkvöld í gær eftir að hafa upplifað ferðalag 50 ár aftur í tímann í félagi við hljómsveit Félags harmonikkuunnenda í Skagafirði, söngvarana Dagbjörtu og Stefán Jökul, að ógleymdum sögumanni, Birni Björnssyni.

Um var að ræða skemmtun í tali og tónum, Manstu gamla daga, þar sem sögusviðið var Skagafjörður í kringum 1960 og sá Björn Björnsson um að skutla sýningargestum lipurlega undir Nafir þess tíma með upprifjunum úr dagblöðum og sögum af glönnum, glæpum og skotheldum Skagfirðingum. Síðan skiptust Björn og tónlistarfólkið á við flutninginn.

Dagbjört Jóhannesdóttir (Hanna Jobba) og Stefán Jökull Jónssonar í Miðhúsum sáu um sönginn og stóðu sig með miklum sóma. Gummi Ragnars sá um að plokka bassann og útsendari Gracelands, Kristján Þór Hansen, penslaði trommurnar. Organistinn Röggi Valbergs fitlaði við gítarstrengina og Alli Ísfjörð stóð vaktina við hljómborðið auk þess sem hann greip í saxófón og nikkuna líkt og Jón Gíslason í Miðhúsum sem nikkaði reyndar út í eitt allt kvöldið.

Meðal laga sem hljómuðu í gærkvöldi voru; Vertu ekki að horfa, Magga, Dream a Little Dream, Simbi sjómaður og Hvítir mávar, en hápunkturinn var flutningurinn á Vegir liggja til allra átta. Í blálokin fengu Alli og Jón að láta hendur standa fram úr ermum svo um munaði. Varð fjörið í Bifröst slíkt að Jón nánast hringsnérist um sviðið og Björn varð að benda Alla á að það mótaði fyrir brosi á vörum nikkaranna, en oft er talað um að harmonikkuleikarar séu ekki mikið fyrir að brosa - nema þá kannski með fingrunum.

Áheyrendur voru hinir hæstánægðustu og klöppuðu listamennina upp og var talið í finnskt nikkulag og meira fjör. Og svo var svifið í sæluvímu.

Áætlaðar eru tvær sýningar á Manstu gamla daga. Sú fyrri var í gærkvöldi en hin seinni er að kvöldi uppstigningardans og hefst kl. 20:30. Nú er bara að vona að Skagfirðingar láti þetta tímaflakk ekki fram hjá sér fara og sjái til þess að það verði að fjölga áætlunarferðum úr Bifröst og aftur í tímann!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir