Þátttakendur The Wild North funda á Húsavík

The Wild North verkefnið  (Hið villta norður) er alþjóðlegt samstarfsverkefni um sjálfbæra þróun náttúrulífsferðamennsku. Verkefnið varð til hjá Selasetri Íslands og fer Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir framkvæmdastjóri þess með verkefnisstjórn. Leiðandi þátttakandi er Fræðasetur Háskóla Íslands á Húsavík.

Dagana 9. og 10. desember síðast liðinn komu samstarfsaðilar verkefnisins saman á Húsavík til að ræða framkvæmd þess og fjármögnun. Markmið fundarins var að vinna í aðgerðaráætlun næstu þriggja ára og hefja vinnu að umsóknum fyrir alþjóðlega sjóði líkt og Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins og NORA (Norræna Atlantsnefndin).

 

 Wild North blandar saman rannsóknum, vöruþróun og fræðslu í því markmiði að vernda villta dýrastofna fyrir neikvæðum áhrifum aukinnar ferðamennsku. Þetta er og verður gert með því að rannsaka áhrif ferðamanna á dýr á völdum áfangastöðum og nýta niðurstöður rannsóknanna til skipulagningar aðkomu ferðamanna á viðkomandi stöðum. Einnig mun verkefnið standa fyrir námskeiðahaldi og vöruþróunarverkefnum. Ekki er vitað til þess að Wild North eigi sér fordæmi á verkefnissvæðinu.

 Wild North hlaut árið 2007 undirbúningsstyrk frá NORA (Norrænu Atlantsnefndinni) auk þess sem Grænlandssjóður og NATA (North Atlantic Tourist Association) styrktu ferðir til að leita að samstarfsaðilum í Færeyjum og á Grænlandi. Vaxtarsamningur Norðurlands vestra styrkir einnig þátttakendur á sínu samningssvæði myndarlega til þátttöku í verkefninu.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru frá Íslandi, Noregi, Grænlandi og Færeyjum. Má þar m.a. nefna Ferðamála- og viðskiparáð Grænlands (GTBC), Ferðamálaráð Færeyja (Samvit) og Norsku náttúrufræðistofnunina (NINA).

Wild North stuðlar að nýrri hugsun, þar sem samvinna og sjálfbærni eru  lykilatriði. Verkefnið skapar einnig tækifæri fyrir Íslendinga að vera leiðandi á sviði sjálfbærrar náttúrulífsferðamennsku á Norðurslóðum. Heimasíða verkefnisins er www.thewildnorth.org.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir