Þátttakendur óskast í kvennafjölmenningarverkefni í Húnaþingi vestra
„Ert þú kona búsett í Húnaþingi vestra en fædd og uppalin erlendis? Ef svarið er já þá viljum við endilega fá þig með í ljósmyndaverkefni sem verður svo að stórkostlegri ljósmyndasýningu sem opnar á Unglist – Eldi í Húnaþingi sumarið 2023,“ segir í tilkynningu Gretu Clough sem stendur verkefninu ásamt Juanjo Ivaldi Zaldívar og Húnathingi vestra.
Í tilkynningunni segir að með samstarfi þessara þriggja aðila sé ætlunin að gera ljósmyndasýningu og vonandi bók um konur af erlendum uppruna sem búsettar eru í Húnaþingi vestra.
„Myndirnar munu sýna á heiðarlegan og fallegan hátt uppruna og venjur kvennanna og fagna framlagi þeirra til fjölmenningar hér í Húnaþingi vestra. Einnig vonumst við til að sýningin og bókin muni opna á umræðuna um stöðu erlendra kvenna á svæðinu og upplifun þeirra á íslensku samfélagi. Markmið okkar er að hitta og ljósmynda allar konur af erlendum uppruna sem búa á svæðinu.
Við viljum sýna þátttakendur á sínum uppáhalds stað. Þar sem hver mynd mun segja einstaklingssögu sem aðeins ljósmyndir geta kallað fram. Þegar allt er svo sett saman í eina heild með sýningu er ætlunin sú að skýr mynd sé gefin af fjölmenningunni og öllum þeim mannauði sem býr í Húnaþingi vestra og er saman komin alls staðar að úr heiminum,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur jafnframt fram að áður en ljósmyndunin hefst verði spjallað lítillega við þátttakendur um upplifun þeirra á því að lifa, búa og starfa í Húnaþingi vestra og um líf þeirra áður en þær fluttu hingað og ástæður þess að sú ákvörðun var tekin að flytjast á milli landa.
„Okkar stærsta ósk er sú að verkefnið geti svo haldið áfram þar sem næsta sýning mun taka fyrir erlenda karlmenn á svæðinu og að lokum börnin sem ýmist flytjast á svæðið eða eru fyrsta kynslóð erlendra íbúa sem fæðast á svæðinu. Draumurinn: 3 sýningar, 3 bækur sem allar stefna að sama markmiði. Fagna fjölmenningunni, lyfta upp svæðinu okkar og vekja samtal um að það geta allir búið allsstaðar.“
Ætlunin er að ljósmyndasýningin verði partur af Eldur í Húnaþingi í ár og er stefnt á að hefja ljósmyndun og viðtöl í apríl.
„Endilega tilkynnið þátttöku eða óskið eftir frekari upplýsingum hjá Gretu Clough á netfanginu handbendi@gmail.com eða hjá Þórunni Ýr Elíasdóttur tengilið Húnaþings vestra á netfangið thorunn.yr@hunathing.is. Hlökkum til að heyra í sem allra flestum, þetta verður FRÁBÆRT!“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.