Það var lagið strákar!

Tindastóll fékk nýkrýnda bikarmeistara Snæfells í heimsókn í kvöld. Heimamenn hófu leikinn illa en kröfsuðu sig inn hann í öðrum leikhluta og síðan var allt á suðupunkti allan síðari hálfleikinn. Stólarnir reyndust hungraðri á lokamínútunum og unnu hrikalega sætan sigur, 99-91. Cedric Isom var osom - gerði 45 stig fyrir heimamenn.

Leiknum var seinkað um 15 mínútur þar sem Svavar Birgis og Axel Kára komu með kvöldflugi að sunnan og mættu loks í Síkið þegar nokkuð var liðið á annan leikhluta. Þá var skarð fyrir skildi í liði gestanna að Hlynur Bærings var fjarri góðu gamni.

Það virtist þó ekki há Snæfellingum í byrjun leiks. Þeir komust í 0-9 og virtust hreinlega gera grín að liði Tindastóls og ekki síður 3ja stiga línunni. Það var sama hver skaut, það rataði nánast allt í körfuna. Gestirnir komust í 2-14, kunnugleg tala en úr öðru sporti. Munurinn á liðunum 10-15 stig það sem eftir lifði af fjórðungnum og stemningin í lágmarki í Síkinu. Staðan að loknum fyrsta leikhluta 13-29.

Stólarnir mættu hinsvegar bandóðir í annan leikhluta og skyndilega fór sóknarleikur gestanna gjörsamlega í tóma steypu, heimamenn gerðu þeim erfitt fyrir og hvert hörmungar skotið rak annað. Hægt og sígandi nálguðust Stólarnir Snæfellinga, staðan breyttist úr 21-36 í 31-36 og þegar um ein og hálf mínúta var eftir af öðrum leikhluta voru gestirnir 6 stigum yfir, 36-42, en það voru Tindastólsmenn sem gerðu 8 síðustu stigin og leiddu í hálfleik 46-44 eftir að hafa unnið leikhlutann 33-15.

Í fyrri hálfleik voru það einkum Cedric Isom, Visockis, Frikki og Helgi Rafn sem sáu um stigaskorun en aðrir leikmenn stigu heldur betur upp í öðrum leikhluta en Sigmar og Helgi Margeirs komu inn með góða baráttu.

Síðari hálfleikur var allur hinn æsilegasti. Stólarnir komust í 50-44 en Snæfellingar voru þó ekkert á því að gefa neitt og minnkuðu muninn í 52-50. Þrír leikmanna þeirra lentu reyndar í villuvandræðum í fyrri hálfleik; þeir Jón Ólafur Jónsson, Sigurður Þorvarldsson og Sveinn Davíðsson voru allir með 3 villur. Þrátt fyrir að spila fast fengu gestirnir fáar villur í þriðja leikhluta. Heimamenn voru hinsvegar komnir með blóðbragð í munninn og voru heldur betur með baráttuna í lagi. Þegar leið á þriðja leikhluta náðu strákarnir góðum kafla og höfðu 8 stiga forskot fyrir fjórða leikhluta.

Sá leikhluti varð stigastríð milli þeirra kappa Cedric Isom og Sean Burton en hann kom alveg snarvitlaus til leiks og dritaði á körfu Stólanna af nánast hvaða færi sem var - og hitti nánast úr hverju skoti. Forysta Stólanna hvarf eins og dögg fyrir sólu en Isom var ekkert á þeim buxunum að gefa sitt eftir, hann hafði sett 15 stig í fyrri hálfleik en hann gerði tvöfalt betur í síðari hálfleik og endaði leikinn með 45 stig. Ekki var barátta Helga Rafns og Berkis síðri þó að öðrum toga væri. Báðir spiluðu af miklum krafti og beittu bolabrögðum.

Lið Snæfells virtist vera að ná undirtökunum þegar 3-4 mínútur voru eftir af leiknum en Tindastólsliðið var ólseigt í kvöld, leikmenn voru ekki með fum og fát og sóknirnar enduðu oftar en ekki með ágætu skoti. Það var allt í járnum og svo lá við að allt yrði vitlaust þegar Sean Burton kom gestunum yfir með 3ja stiga skoti en um leið rak Berkis Helga Rafn roknahögg og hefði umsvifalaust verið hent út úr húsinu ef dómararnir hefðu séð til hans. Helgi varð að vonum ekki sáttur en náði eftir nokkuð japl, jaml og fuður að ná stjórn á skapinu og var spólandi um allan völl það sem eftir lifði leiks - talsvert óárennilegur. Síðustu skot Snæfellinga fóru ekki en leikmenn Tindastóls léku við hvern sinn fingur og kláruðu leikinn með glæsibrag, 99-91.

Isom var alveg skuggalega góður í kvöld og nú risu samherjar hans upp með honum. Visockis var góður, Rikki spilaði sinn besta leik í vetur, Helgi Rafn var í vinnugallanum, Helgi Freyr spilaði vel, Axel kom sterkur inn í síðari hálfleik og þá átti Sigmar fína spretti og bar enga virðingu fyrir Snæfellingum. Níu leikmenn Stólanna komust á blað og það var gaman að sjá. Snæfellingar eru með frábært lið en leikur þeirra datt niður eftir fyrsta leikhluta, þeir rifu sig upp á lokakaflanum en sem betur fer kviknaði ekki á Burton fyrr en þá - en það dugði ekki til að þessu sinni.

Sigurinn var því sætur í Síkinu í kvöld og fögnuðu leikmenn og stuðningsmenn Tindastóls innilega í leikslok. Fjölnir og Breiðablik töpuðu leikjum sínum í kvöld og Stólarnir því komnir á fullt inn í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni. Koma svo!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir