Það er upplifun að sækja messu í Ábæjarkirkju

Frá Ábæjarmessu 4. ágúst 2013: MYND AF VEF KIRKJUNNAR / VK
Frá Ábæjarmessu 4. ágúst 2013: MYND AF VEF KIRKJUNNAR / VK

Hin árlega Ábæjarmessa verður á Ábæ í Austurdal í Skagafirði sunnudaginn 4. ágúst kl. 14:00. Löngum hefur þessi messa verið afar vel sótt og ekki hafa allir gestir komist inn í kirkjuna og því hefur fólk gjarnan setið í kirkjugarðinum og hlýtt þar á messuna. Veðurspáin gerir ráð fyrir sumarblíðu á sunnudaginn; hátt í 20 stiga hita og léttskýjuðu og því allt útlir fyrir dýrðlegan drottins dag.

Í tilkynningu á vef Kirkjunnar segir að fólk sé hvatt til að taka með sér nesti og eiga góða stund saman eftir messu í einstöku umhverfi. „Oft koma yfir 100 manns í messuna og lengi vel var messukaffi veitt að Merkigili, sem fór í eyði árið 1997 er Helgi Jónsson hrapaði til bana í gilinu, en hann hafði þá verið eina sóknarbarn Ábæjarsóknar í allmörg ár,“ segir á vef Kirkjunnar.

Sr. Sigríður Gunnarsdóttir sóknarprestur í Skagafjarðarprestakalli og prófastur í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi prédikar og þjónar fyrir altari. Sönghópurinn Vorvindar leiðir söng við undirleik Friðriks Þórs Jónssonar.

Ábæjarkirkja er ekki í alfaraleið en þangað liggur vegslóði sem er fær jeppum og vel útbúnum bílum. Eflaust eru einhverjir sem kjósa að fara fórgangandi, hjólandi eða á hestbaki til og frá messu og þá er bara að passa sig á að hafa tímann fyrir sér.

Nánar má lesa um messuna í Ábæjarkirkju hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir