„Það er hljómurinn innra með okkur sem skiptir mestu máli“
Elinborg Sigurgeirsdóttir hefur stýrt Tónlistarskóla Húnaþings vestra samfleytt frá árinu 1989. Hún er fædd 10. júlí 1951 og er uppalin á Bjargi í Miðfirði. Eiginmaður Elinborgar var Egill Gunnlaugsson, héraðsdýralæknir í Húnaþingi vestra en hann lést 2008. Elinborg er komin af tónlistarfólki í báðar ættir og því ekki að undra að tónlistin yrði hennar ævistarf.
Auk þessa sinnir hún starfi organista í þremur sóknum, hefur leikið undir hjá fjölmörgum kórum og spilað í hljómsveitum, svo fátt eitt sé nefnt. Þrátt fyrir miklar annir á aðventunni gaf Elinborg sér tíma til að hitta blaðamann og deila með Feyki lífshlaupi sínu í gleði og sorgum.
Ég er fædd á sjúkrahúsinu á Hvammstanga en uppalin á Bjargi í Miðfirði. Ég grét mjög mikið þegar ég fæddist, Brynjólfur Dagsson þáverandi læknir, sagði við mömmu: „Þetta er allt í lagi, hún verður bara söngkona. Þau orð rættust, á þann hátt að leið mín lá í tónlist, þó ég yrði ekki söngkona.
„Ég átti góða foreldra. Þau studdu mig og vildu að ég lærði tónlist. Þó ég hafi misst föður minn alltof snemma finnst mér skipta svo miklu máli hvað hann vildi mér vel varðandi allt lífið. Tónlist var í hávegum höfð á heimilinu. Ég byrjaði að reyna að spila eftir eyranu mjög ung og mamma, Anna Axelsdóttir, sagði mér líka til. Pabbi minn, Sigurgeir Karlsson, söng mikið,“ rifjar Elinborg upp, í opnuviðtali Feykis 48. tölublaðs Feykis, sem út kom í gær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.