Það er ekkert alltaf gaman á Akureyri

Ein tveggja ára gömul æfingamynd af Króknum. MYND: ÓAB
Ein tveggja ára gömul æfingamynd af Króknum. MYND: ÓAB

Það er alltaf sama vesenið með þessa Akureyringa. Ekki nóg með að þeir séu farnir að rukka fólk fyrir að leggja í bílastæði við verslanir í bænum heldur fóru þeir hálf illa með knattspyrnuiðkendur af Króknum um helgina – sem er svo sem kannski ekkert nýtt reyndar. Stólastúlkur lutu í gras á föstudaginn gegn Þór/KA í Kjarnafæðimótinu, 5-0, og í gær fengu strákarnir jafnvell verri útreið gegn KA, 8-0, í sama móti.

Á meðan lið Tindastóls spilar í 4. deild er KA auðvitað eitt albesta lið landsins, endaði í öðru sæti Bestu deildarinnar í sumar, og keyrði stærstan hluta leiksins á mjög sterku liði, að sögn Donna, þjálfara Tindastóls. KA-menn komust fljótt í 3-0 og leiddu 4-0 í leikhléi. Á leikskýrslu má sjá að lið Tindastóls tefldi fram þremur markvörðum í leiknum, en það kom að litlu gagni enda ekki í markinu á sama tíma. „Við vorum með mjög laskað lið og þar á meðal þrjá lánsleikmenn sem að auki eru allir hættir í fótbolta. Það voru ansi margir sem voru fjarverandi frá því sem var á síðasta tímabili, af alls konar ástæðum. Margir ungir leikmenn fengu að spila gegn þessu sterka liði og það var gaman að sjá.“

Það voru dapurleg tíðindi að önnur hnéskelin hjá Konna, fyrirliða Stólanna og máttarstólpa liðsins, fór úr lið. „Það er mikill skellur fyrir hann og liðið. Hann verður eitthvað frá vegna þessa en hversu lengi er óvíst,“ sagði Donni.

Kvennaliðið mætti einnig mjög sterku liði Þór/KA þar sem Sandra Maria Jessen gerði tvo fyrstu mörkin. Staðan var 3-0 í hálfleik en lokatölur sem fyrr segir 5-0. „Þær stjórnuðu leiknum frá A-Ö þó að mörkin hafi nokkur verið ansi ódýr. Okkur gekk mjög illa að halda i boltann og byggja upp sókn. En það er það sama eins og hjá kk liðinu, það vantar ansi marga leikmenn frá síðasta tímabili. En aftur mjög gaman að sjá unga leikmenn máta sig gegn mjög sterku liði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir