Textílseturs Íslands með sumarnámskeið

Starfsemi er að hefjast að nýju í Kvennaskólanum á Blönduósi sem er nær 100 ára. Kvennaskólinn er eitt helsta kennileiti Blönduóss og hefur húsið merka sögu sem kvenna- og húsmæðraskóli þar sem nær 3000 stúlkur stunduðu nám á arum áður.

 

Sumarnámskeið í Kvennaskólanum á Blönuduósi standa yfir á næstu dögum. Þar munu koma saman um 40 konur við þjóðlegt handverk og hannyrðir undir leiðsögn sérmenntaðra kennara. Kennd verða námskeið í knipli og baldýringu í samstarfi við Heimilisiðnaðarskólann, tálgun í ferskan við í samstarfi við Skógrækt ríkisins og prjónahönnun í samstarfi við Ístex.

 

Námskeiðalotur verða í boði nokkrum sinnum á ári í Kvennaskólanum á Blönduósi þar sem í áratugi fór fram kennsla í ýmsum kvenlegum listum og ber byggingin með sér andblæ liðinna tíma. Textílsetur Íslands hefur aðsetur í Kvennaskólanum og hefur það að markmiði að endurvekja og efla textílfræðslu og textíllistir, með rannsóknum, kennslu og fræðslu. Markmiðið er að bjóða aðstöðu og umhverfi þar sem áhugasamir geta komið saman í 3-5 daga við handíðir og handverk án amsturs hversdagsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir