Tekið til kostanna framundan

Stórsýningin Tekið til kostanna verður haldin í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki 24. apríl í upphafi Sæluviku. Engar áhyggjur af hrossakvefi segir hallarstjórinn.

Alþjóðlegir hestadagar verða haldnir föstudaginn 23. og laugardaginn 24. apríl og mikið um að vera. Dagskrá hefst kl. 10 á föstudagsmorgun með kynbótadómum en um kvöldið verður generalprufa fyrir Tekið til kostanna sem haldin verður á laugardagskvöldinu. Þar er um að ræða lokaæfingu sem kemst næst því að vera eins og alvöru sýning. Ákveðið var að gefa fólki kost á að sjá þá sýningu fyrir aðeins kr. 500. Búast má við spennandi atriðum og endurkomu gamalla höfðingja í toppformi. Á laugardeginum verður kennslusýning reiðkennarabrautar Hólaskóla í reiðhöllinni og verður margt fróðlegt í boði þar.

Athygli vakti að Hrossaræktarsamtök Suðurlands frestuðu ræktunarsýningu sinni um viku vegna smitandi hósta í hrossum og verður hún þá haldin á sama tíma og Tekið til kostanna. Eyþór Jónasson reiðhallarstjóri er mjög ósáttur við kollega sína sunnanlands.

 –Mér finnst mjög einkennilegt að þeir skuli fresta sýningu sinni um viku, og þar með setja hana ofan í okkar sýningu, því pestin gengur ekki yfir á einni viku. Það eina sem gerist er að þeir fá meiri afföll á sýninguna, segir Eyþór og hefur ekki áhyggjur af því að pestin hafi áhrif á Tekið til kostanna. –Þessi veiki virðist ekki leggjast þungt á hrossin, fá ekki hita og éta eðlilega.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir