Tap fyrir Snæfelli í Síkinu
Tindastóll sýndi Snæfellingum óþarfa gestrisni í kvöld þegar liðin áttust við í Iceland-Express deildinni. Lokatölur urðu 88-95. Það sem helst gladdi áhorfendur í Síkinu í kvöld var að Tindastóll tefldi fram al-Skagfirsku liði og eru sannarlega ár og dagur síðan það gerðist síðast.
Sigurður Þorvaldsson var Skagfirðingum erfiður í fyrri hálfleik, en hann skoraði alls 23 stig í hálfleiknum. Talsverður hæðarmunur var á liðunum og olli það heimamönnum erfiðleikum oft á tíðum.
Staðan í hálfleik var 45-51 eftir snarpan sprett heimamanna og allar forsendu fyrir spennandi síðari hálfleik. Snæfellingar sýndu þó strax í upphafi þriðja leikhluta að þeir ætluðu sér heim með sigur í farteskinu og komu öflugir til leiks. Sér í lagi Jón Ólafur Jónsson sem skoraði 7 fyrstu stig Snæfellinganna og gaf tóninn fyrir framhaldið.
Staðan þegar þriðji leikhluti hófst var 58-72 og gáfu Snæfellingar aldrei færi á sér eftir það og unnu öruggan sigur eins og áður sagði 88-95.
Helgi Rafn Viggósson skoraði 18 stig fyrir Stólana í kvöld, Ísak Einarsson gerði 17 stig, Svavar Birgisson 14, Friðrik Hreinsson 13, Axel Kárason 11, Óli Barðdal 6, Halldór Halldórsson 5, Einar Bjarni Einarsson 2 og skv tölfræðivef KKÍ var Hreinn Birgisson með 2 stig en hann sat í borgaralegum klæðum á bekknum. Eitthvað hefur tölfræðin skolast til líka þar sem aðeins 14 fráköst voru skráð á TIndastólsliðið allt í allt. Fréttaritari fullyrðir að það sé rangt.
Sigurður Þorvaldsson var stigahæstur gestanna með 29 stig, Jón Ólafur skoraði 22 og Hlynur Bæringsson gerði 14 auk þess að hirða 11 fráköst.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.