Tap fyrir Gróttu í fyrsta leik

Konni skoraði fyrra mark Stólanna í gær og fékk raunar líka að líta gula spjaldið líkt og í þessum leik gegn Völsungum í fyrra. MYND: ÓAB
Konni skoraði fyrra mark Stólanna í gær og fékk raunar líka að líta gula spjaldið líkt og í þessum leik gegn Völsungum í fyrra. MYND: ÓAB

Nú eru fótboltamenn og -konur farin að eltast við boltann um víðan völl. Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli lék sinn fyrsta leik í 2. deildinni þetta sumarið í gær og var leikið við lið Gróttu á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi fyrir framan 80 áhorfendur. Ekki fóru strákarnir neina frægðarför suður að þessu sinni og máttu sætta sig við 5-2 tap en það var þó ekki fyrr en á lokametrunum sem Gróttumenn tryggðu sigurinn.

Arnar Helgason kom Gróttu yfir á 17. mínútu og Axel Harðarson bætti öðru marki við fjórum mínútum síðar. Konni Sigga Donna, fyrirliði Tindastóls, minnkaði muninn í 2-1 í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Sölvi Björnsson bætti við marki fyrir Gróttu á 60. mínútu. Benjamín Gunnlaugarson minnkaði muninn í 3-2 á 79. mínútu en Júlí Karlsson bætti við fjórða marki Gróttu á 83. mínútu og Jóhannes Hilmarsson innsiglaði sigur Seltyrninga í uppbótartíma.

Lið Tindastóls er nú að mestu skipað heimamönnum og eftir því sem Feykir kemst næst eru engar stórbreytingar framundan þó eitthvað eigi eftir að bætast í hópinn. Það eru Bjarki Már Árnason og Guðjón Örn Jóhannesson sem þjálfa liðið en strákunum er ekki spáð góðu gengi í sumar. Vonandi blása þeir á allar spekingaspár líkt og í fyrrasumar.

Þá fór það alveg framhjá Feyki í öllum hasarnum í kringum körfuboltann að Tindastólsmenn féllu úr leik í Mjólkurbikarnum nú seinni partinn í apríl og var það kannski ágætt því Stólarnir töpuðu 7-1 á Húsavík fyrir sprækum Völsungum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir