Tæplega sólarhrings steyputörn lokið á nýju brúnni yfir Laxá í Refasveit
Lokið var við að steypa dekkið á nýrri brú yfir Laxá í Refasveit klukkan fimm í morgun eftir nær sólarhrings törn. Að sögn Aðalgeirs Arnars Halldórssonar, verkstjóra hjá Steypustöð Skagafjarðar, gekk verkið greiðlega og allir ánægðir með vel heppnaða vinnutörn.
„Það gekk svona glimrandi vel. Við byrjuðum klukkan sex í gærmorgun en fyrsta steypa fór niður um átta leytið, vorum um 22 tíma að þessu,“ sagði Arnar ánægður með árangurinn er Feykir hafði samband við hann í morgun. Sagði hann að átta manns hefði að jafnaði verið að leggja niður steypuna, taka á móti og víbra og tólf múrarar. Ellefu bílar óku sleitulaust með steypu frá Sauðárkróki og tveir dælubílar sáu um að koma steypunni á sinn stað. Sagði Aðalgeir veðrið hafa verði afar hagstætt og ekkert komið upp á til að tefja verkið.
„Við erum ekki með endanlegar tölur,“ sagði Helga Dóra Lúðvíksdóttir, skrifstjóri á Steypustöðinni, er Feykir leitaði eftir hve mikil steypa hefði verið flutt yfir Þverárfjallsveginn þennan sólarhring. Sagði hún þær upplýsingar liggja fyrir þegar fólk væri búið að hvíla sig eftir langan en ánægjulegan vinnudag.
„Það má ætla að eitthvað yfir 800 rúmmetrar hafi farið í þetta. Þetta gekk mjög vel og nýja stöðin sannaði gildi sitt en þær voru báða í gangi,“ segir hún en ný blöndunarstöð hefur verið tekin í notkun hjá fyrirtækinu og veitti ekki af að keyra þær báðar við þetta mikla verk. Segir hún að sú nýja sé tvöfalt afkastameiri en sú gamla, nær að blanda í tvo bíla meðan sú gamla afgreiðir einn. Helga Dóra telur líklegt að þeir ellefu steypubílar, sem notaðir voru í þessu verki, hafi farið um 110 ferðir alls. Auk bíla Steypustöðvarinnar voru fengnir tveir steypubílar frá Dalvík og þrír frá Akureyri auk dælubíls.
Fyrirfram var reiknað með að verkið tæki um 30 klukkustundir og segir Helga Dóra þetta stærsta steypuverk sem fyrirtækið hafi unnið í einni lotu og hafi verið vel skipulagt. Ekki hafi þurft að virkja neinar auka aðgerðaráætlanir og allir heilir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.