Tækjamóti björgunarsveita frestað
Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhuguðu tækjamóti björgunarsveita sem vera átti 27.mars n.k. á svæði 9 þar sem Bjsv. Húnar, Bjsv. Strönd og Bf.Blanda ráða ríkjum. Ástæðan er of góð tíð undanfarið.
Mótinu er frestað um óákveðinn tíma en undirbúningsnefndin er ákveðin í að bíða þolinmóð eftir betri aðstæðum svo hægt sé að halda gott tækjamót þar sem björgunarsveitum af öllu landinu er boðin þátttaka.
Mikið var um að vera í Húnabúð húsnæði Bjsv. Húna þriðjudaginn 9. mars en þá kom sr. Magnús með fríðan flokk úr TTT starfi kirkjunar í óvissuferð sem endaði í Húnabúð þar sem krakkarnir fengu að skoða og prófa ýmsan búnað sem sveitin hefur yfir að ráða. Hátt í þrjátíu börn voru í hópnum sem kom í heimsókn og eflaust var þarna að finna einhverja af tilvonandi björgunarmönnum framtíðarinnar. Eftir heimsóknina var krökkunum ekið á björgunarsveitarbíl til baka upp í kirkju.
Þar næst fór unglingadeildin í létta upprifjun inn við Höfða, þar sem þau æfðu m.a. sig með börur o.fl.
Um kvöldið var tekið til hendinni og m.a. haldið áfram með framkvæmdir við félagsaðstöðuna o.fl. Á sama tíma fóru tveir félagar til Siglufjarðar að skila MAN vörubíl sem félagið hefur haft um tíma og til að spara í kreppunni fluttu þeir með sér Húna 1 á pallinum norður á Siglufjörð til að hafa farartæki til að komast til baka á.
/Húnar.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.