Áskorandapistill - Vilhjálmur Árnason
Ég þakka Ægi Finnssyni stórvini mínum fyrir áskorunina um pistlaskrif í þetta feikilega góða tímarit Feyki. Við félagarnir vorum duglegir að bralla ýmislegt saman á okkar yngri árum, sem hefði líklega þótt langsótt hefðum við alist upp á höfuðborgarsvæðinu. Ég er afar þakklátur fyrir að hafa alist upp í návígi við dreifbýlið, enda hefur það mótað mig og gert mig að þeim manni sem ég er í dag.
Það kennir nefnilega ýmissa grasa í litlum landbúnaðar- og sjávarútvegsplássum, eins og Skagafirði, sem er svo langt frá 101 skipulaginu. Allir þekkja alla og þess vegna fylgist fólk sjálfkrafa meira með því sem er að gerast í kringum sig. Það er eins og fólk sé á einhvern hátt meðvitaðra um samfélagið sitt sem er jafnvel eðli lítilla samfélaga úti á landi. Íbúar þessara staða er um leið meðvitaðri um styrkleika hvers og eins. Smæðin gerir það að verkum að hver og einn íbúi skiptir mun meira máli í því sem þeir taka sér fyrir hendur hverju sinni. Meðal annars í Lions klúbbnum, íþróttafélaginu, nemendafélaginu, björgunarsveitinni, stjórnmálunum, innan fyrirtækjanna og leikfélaga svo eitthvað sé nefnt.
Þegar ég bjó á Hofsósi tóku allir þátt í öllu. Þá prófaði ég að æfa allar mögulegar íþróttir sem þar voru í boði, var virkur í starfi björgunarsveitarinnar og við sem vorum í grunnskólanum vorum með atriði á öllum viðburðum sem fram fóru í Félagsheimilinu Höfðaborg. Hvort sem um var að ræða árshátíð skólans, íþróttafélagsins, eða Rakelarhátíðina. Fullorðna fólkið tók einnig þátt í öllu, en það sá t.d. sjálft um öll skemmtiatriðin á þorrablótinu. Hér á suðvesturhorninu er þetta meira og minna borið uppi af fagfólki. Ég veit ekki með ykkur, en ég efast stórlega um að hann faðir minn hefði verið kallaður til leiks hjá Leikfélagi Reykjavíkur á sínum tíma. En ég á ógleymanlegar minningar af því þegar ég fékk að fara með honum í Leikborg og Bifröst þegar hann var þátttakandi í leikfélaginu.
Á þeim tíma sem börnin í dag eru í Skólaseli eða tómstundum vorum við vinirnir á flakki á milli vinnustaða foreldra okkar að kynnast atvinnulífinu, uppi á rusla haugum að leita af efnivið í kassabíl eða kofasmíði, já eða bara heima að stofna fyrirtæki.
Það að alast upp í litlu plássi eru forréttindi en allt framangreint hefur haft mikil áhrif á þau störf sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Frá því að ég hitti Bjössa Mikk út á götu og spurði hvort hann vantaði ekki mann í lögguna og þangað til að ég nýtti mér þá félagsmálareynslu sem ég hafði öðlast í Skagafirðinum og bauð mig fram til Alþingis. Það eru nefnilega mikil tækifæri í að hafa gengið í öll störf og alast upp í litlum þorpum úti á landi. Njótum þess samfélags sem við búum í hverju sinni og nýtum þau tækifæri sem það veitir okkur.
Ég skora á Söru Björk Sigurgísladóttur að rita næsta pistil.
Birtist fyrst í 9. tbl. Feykis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.