Systraslagur í söngvakeppni
Á söngskemmtuninni Söngvasæla sem haldin verður í Miðgarði á föstudagskvöld verður í fyrsta sinn keppt um titilinn Söngvasælumeistarinn. 7 keppendur frá fimm fyrirtækjum og stofnunum munu stíga á stokk og berjast um titilinn. Systurnar Þórunn Sveinsdóttir og Rakel Rögnvaldsdóttir munu keppa fyrir hönd sinna vinnustaða og ljóst að þarna verður á ferðinni sannkallaður systraslagur með jákvæðum formerkjum þó.
-Ég var reyndar beðin að taka þátt og samþykkti það sjálf en Þórunn systir var ekki eins heppin, útskýrir Rakel þegar blaðamaður spyr hana út í keppnina. –Þórunn brá sér á salernið í vinnunni sem voru greinilega mistök því þegar hún kom til baka var búið að ákveða að hún tæki þátt, bætir Rakel við og hlær. Systurnar hafa báðar tónlistina í blóðinu en auk þeirra munu stíga á stokk. Ágúst Andresson, Kjötafurðastöð KS, Íris Baldvins og Sigríður Ingimars frá Árskóla og Kristján Bjarni Halldórsson og Guðbjörg Bjarnadóttir frá Árskóla.
Auk Söngkeppninnar verður boðið upp á brot úr sýningunni Multi Musica auk þess sem stórsöngvararnir Kristján Gíslason, Matti Papi, Sigga Beinteins, Sólveig Fjólmunds og Ásdís Guðmundsdóttir munu syngja fjölbreytt lög frá 7. 8. og 9. áratugnum. Eftir skemmtunina verður síðan slegið upp dansleik með hljómsveitinni Von en söngvarar næturinnar verða Sigga Beinteins, Stebbi Hilmars og Kristján Gíslason.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.