Svíinn Pat Ryan tekur við kvennaliði Tindastóls í körfunni

Pat Ryan. MYND AF FB
Pat Ryan. MYND AF FB

Sagt er frá því á FB-síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls að samið hefur verið við sænska þjálfarann Patrick Ryan um að taka við þjálfun meistaraflokks kvenna. Patrick er reynslumikill þjálfari, en hann hefur þjálfað frá 1991, m.a. bæði karla- og kvennalið í efstu deildum Svíþjóðar auk þess að hafa þjálfað mörg yngri landslið Svíþjóðar.

Í fréttinni segir að Kkd. Tindastóls bjóði Pat hjartanlega velkominn á Krókinn og hlakki til að fylgjast með ungu og efnilegu liði Tindastóls næsta vetur undir hans stjórn.

Pat tekur við af Jan Bezica sem þjálfaði kvennaliðið í fyrra með ágætum árangri en hann ákvað í vor að snúa heim til Slóveníu eftir þrjú ár á Króknum. Undir hans stjórn endaði liðið í áttunda sæti 1. deildar, vann átta leiki en tapaði tólf en stelpurnar náðu að leggja alla andstæðinga sína að velli einu sinni – nema topplið ÍR og Ármanns.

Ljóst er að leita þarf að nýjum erlendum leikmönnum eða leikmanni þar sem Maddie Sutton, sem fór mikinn með liði Tindastóls á síðasta tímabili, hefur skrifað undir samning við vini okkar í Þór Akureyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir