Sveitarfélagið Skagaströnd eitt af "Sveitarfélögum ársins" 2023

Ólafur Þór Ólafsson staðgengill sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagastrandar, Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógarbyggðar og Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga.
Ólafur Þór Ólafsson staðgengill sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagastrandar, Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógarbyggðar og Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga.
Nú á dögunum voru kynntar niðurstöður úr könnun sem Gallup gerði meðal félagsfólks tíu bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB. Þátttakendur voru talsvert fleiri en í fyrra og var mikill meðbyr með könnuninni í ár og nú er hægt að bera saman niðurstöður tveggja ára því þetta er í annað sinn sem þessi könnun er gerð. Sveitarfélagið Skagaströnd var eina sveitarfélagið á Norðurlandi vestra sem var gjaldgengt í þessa könnun og endaði í sjöunda sæti í fyrra en í því fjórða í ár. 
 
Samkvæmt þátttökuskilyrðum könnunarinnar þurfti svarhlutfall að vera að lágmarki 35% af útsendum spurningalistum til að sveitarfélag næði inn á lista, auk þess sem tíu svör þurftu að lágmarki að berast frá félagsfólki sem er starfandi í sveitarfélaginu. Tuttugu og eitt sveitarfélag uppfyllti þessi skilyrði, sex fleiri en í fyrra. Þau sveitarfélög sem verma fjögur efstu sætin og fá sæmdarheitið Sveitarfélag ársins 2023 eru Grímsnes- og Grafningshreppur,  sem endaði í fyrsta sæti, Bláskógabyggð, sem var í öðru sæti, Sveitarfélagið Vogar, var í því þriðja, og Sveitarfélagið Skagaströnd í því fjórða. Þess má geta að Grímsnes- og Grafningshreppur hrepptu einnig efsta sætið í fyrra. Bláskógabyggð var í því fjórða og stekkur því upp um tvö sæti í ár. Sveitarfélagið Vogar náði ekki inn á lista í fyrra og eins og áður hefur komið fram var Sveitarfélagið Skagaströnd í sjöunda sæti í fyrra og fór því upp um þrjú sæti í ár. 
 
Tilgangurinn með könnuninni er að hvetja stjórnendur sveitarfélaganna til að veita starfsumhverfinu meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Einnig er ætlunin að niðurstöðurnar skapi almenna umræðu um starfsumhverfi og stjórnun á vinnustöðum, félagsfólki stéttarfélaganna til hagsbóta. Ekki síst er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.
 

Reiknuð var heildareinkunn út frá níu þáttum sem spurt var um í könnuninni en það voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd vinnustaðar, ánægja og stolt og jafnrétti. Borið saman við niðurstöður könnunarinnar í fyrra fengu launakjörin lakari einkunn í ár en aukin ánægja var með sveigjanleika vinnu og jafnrétti. Mest er óánægja með launakjör á leikskólunum, sér í lagi hjá leikskólaliðum. Niðurstöðurnar leiða t.d. líka í ljós óánægju með hljóðvist hjá starfsfólki leikskóla og íþróttamannvirkja, matar- og kaffiaðstöðu telur starfsfólk í öryggis- og eftirlitsstofnunum ábótavant og sömuleiðis sýnir könnunin að veikleiki er í samskiptum og stjórnun í öldrunarþjónustu.

Alls uppfyllti 21 sveitarfélag skilyrði fyrir niðurstöðum til að komast á lista sveitarfélaga með heildareinkunn. Það er fjölgun um sex sveitarfélög frá fyrra ári. Líkt og í fyrra fékk Grímsnes- og Grafningshreppur flest stig í heildarniðurstöðunum, eða 4.403. Þar á eftir kom Bláskógabyggð með 4.349 stig, þá Sveitarfélagið Vogar með 4.236 stig og í fjórða sæti Sveitarfélagið Skagaströnd með 4.217 stig.  Grímsnes- og Grafningshreppur fékk hæstu einkunnir allra fyrir launakjör, vinnuskilyrði, jafnrétti og deildi efsta sætinu hvað varðar þáttinn sjálfstæði í starfi með Bláskógabyggð. Bláskógabyggð var auk þess með hæstu einkunn allra sveitarfélaganna fyrir stjórnun, starfsanda og ímynd. Sveitarfélagið Vogar fékk hæstu einkunn allra sveitarfélaganna í þáttunum sveigjanleiki vinnu og ánægja og stolt.

Sem fyrr segir stóðu tíu bæjarstarfsmannafélög að könnuninni í samstarfi við Gallup. Þau eru: Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Vestmannaeyja, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Suðurnesja, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, FOSS stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Húsavíkur og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi.

/Fréttatilkynning

 
 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir