Svartá ruddi sig seint í gærkvöldi

Meðfylgjandi mynd birti Húni.is og sýnir stíflu við brúna yfir í Barkarstaði. Mynd: Jakob Sigurjónsson
Meðfylgjandi mynd birti Húni.is og sýnir stíflu við brúna yfir í Barkarstaði. Mynd: Jakob Sigurjónsson

Svartá í Svartárdal ruddi sig seint í gærkvöldi með miklum látum og víða fór áin upp á veg með ruðning, segir í frétt á Húnahorninu en stór stífla hefur myndast við brúna yfir í Barkarstaði.

„Brúin er stórskemmd eða jafnvel ónýt, að sögn Jakobs Sigurjónssonar, bónda á Hóli. Hann segir að sambandslaust sé við ljósleiðarastreng framan Barkarstaða en strengurinn liggur yfir Svartá á brúnni, fyrir alla bæi framar í dalnum. Ljóst sé að mikið tjón er á túnum og girðingum í dalnum. En þetta skýrist nánar í birtingu,“ er haft eftir Jakobi á Húni.is í morgun.

Meðfylgjandi myndir tók Höskuldur Birkir Erlingsson, lögreglumaður, fyrr í dag. Hann segir um gríðarlegt jakahlaup að ræða og eyðilegginguna mikla. Vegurinn heim að Barkarstöðum er í sundur og brúin stórskemmd. Þar með er sjö manna fjölskylda nú einangruð en um brúna er eina leiðin yfir Svartá heim að bænum. Einnig hafa girðingar lent undir farginu víða í dalnum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir