Svar við svari við svari við svari við ályktun

Snorri Styrkársson hefur sent Feyki.is svar við svari Gísla Árnasonar við grein Snorra sem upphaflega var svar við ályktun Gísla um samstarf Skagafjarðarhraðlestarinnar og sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Gísli Árnasyni finnst hart að ég hafi sagt að hann skilji ekki eða mistúlki eðli samstarfs sveitarfélagsins og Skagafjarðarhraðlestarinnar.  Gísli fer síðan að rökstyðja af hverju honum finnst Skagafjarðarhraðlestin hafi að nokkru leyti afskrifað sig sjálf í upphafi, m.a. með eindreginni afstöðu til að allur virkjanaréttur í skagfirskum fallvötnum skuli vera í höndum heimamanna.   Allt í lagi með það, ekki ætla ég að dæma Lestina úr leik fyrir það, ekki frekar en Gísla Árnason úr leik vegna andstöðu hans við allt sem heitir virkjanir.  Aðalmálið af minni hálfu er að undirstrika að það árar illa í íslensku samfélagi,  við verðum að standa saman og vinna saman á uppbyggilegan og jákvæðan hátt að framfaramálum.  Samstaðan og jákvæðnin er það sem gefur okkur sterka stöðu.    Samstaðan verður að vera í reynd um mál og verkefni – ekki bara til að tylla sér á orðið sjálft.  Á síðasta sveitarstjórnarfundi flutti Gísli tillögu um að rifta þessu samstarfi við Skagafjarðarhraðlestina og hafði upp sérstakan málflutning því samhliða.

Þrátt fyrir útskýringar mínar í stuttri frétt á Feyki um að sveitarfélagið sé EKKI að afhenda Skagafjarðarhraðlestinni neina fjármuni þá heldur Gísli áfram að höggva í kringum einhverja meinta fjárheimild til fullnustu samnings sem rann út um áramótin.  Í upphaflegri bókun Gísla talaði hann um Skagafjarðarhraðlestina sem lögaðila sem sveitarfélagið ætlaði að kosta atvinnuþróun fyrir.    Nauðsynlegt er enn og aftur að upplýsa Gísla og lesendur Feykis um að Sveitarfélagið er ekki að fullnusta neinn samning, er ekki að kosta atvinnuþróun FYRIR neinn og er ekki að vinna eitthvað á bakvið tjöldin.  Enn og aftur, Atvinnu- og ferðamálanefnd ákvað á fundi 1. október 2009 að ráða starfsmann til sveitarfélagsins sem ynni að framgangi atvinnuhugmynda sem sköpuðust í SAMSTARFI sveitarfélagsins og Skagafjarðarhraðlestarinnar.   Sú atvinnuþróun er að sjálfsögðu í þágu allra íbúa sveitarfélagsins.   Þetta allt var síðan staðfest með 9 samhljóða atkvæðum í sveitarstjórn 6. október 2009 þ.m.t. fulltrúa VG.   Jafnframt samþykkti nefndin og sveitarstjórn með 9 atkvæðum þ.m.t. fulltrúa VG að framlengja samstarfið við Skagafjarðarhraðlestina.  Verkefni þessi skila okkur vonandi áföngum til betra samfélags, um það er hinsvegar erfitt að segja fyrirfram einsog svo margt annað í óvissri framtíðinni.   Kostnaður vegna þessa starfsmanns rúmast innan niðurskorinnar fjárhagsáætlunar nefndarinnar – engin „ný“ útgjöld fyrir sveitarfélagið heldur einungis endurskipulagning nýtingar fjármuna til málaflokksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir