Svakalega vel heppnuð afmælisveisla

Bjarni Har. Mynd: Sk.com

Á Skagafjörður.com segir að afkomendur Haraldar Júlíussonar kaupmanns á Sauðárkróki hafi á laugardag haldið upp á 90 ára verslunarafmæli Verzlunar H. Júlíussonar með Bjarna Har í broddi fylkingar. Veðrið var tóm snilld, veislugestir fjölmargir og veisluföng ekki af skornum skammti frekar en við var að búast.

 

 

 

Bæði ungir og aldnir skemmtu sér hið besta. Það var spilað á nikkur, Geirmundur og Hilmir sömdu lag tileinkað Bjarna og spilaði Geiri það við góðar undirtektir og sveiflukóngurinn klikkaði ekki frekar en fyrri daginn, fólk farið að dilla sér og syngja með í nokkrum vel völdum skagfirskum söngvum. Þá söng Ari í Holtsmúla við undirleik Rögnvaldar organista.

 

Það var boðið upp á gos og kaffi, kökur og grillaðar pylsur og í hitanum þótti ekki slæmt að geta gleypt í sig íspinna. Hægt var að skoða myndir úr sögu verslunarinnar og Króksins. Byggðasafn Skagfirðinga hafði látið útbúa póstkort og almanak með myndum frá Bjarna, blýantar höfðu verið merktir versluninni og svo mætti lengi telja.

 

Ekki þótti ferðamönnum slæmt að stoppa hjá Olís á Króknum þann daginn því í tilefni dagsins var 9 krónu afsláttur á bensíninu.

 

80 myndir frá afmælinu má finna með því að smella hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir