Sungið fyrir Bólu-Hjálmar

 

Á leið sinni frá tónleikum á Akureyri og í Miðgarð um síðustu helgi gerði Karlakór Reykjavíkur stans á ferð sinni og söng við leiði Hjálmars Jónssonar, Bólu Hjálmars, sem staðsett er í kirkjugarðinum á Miklabæ.

  

-Við höfum gert þetta á ferðum okkar að stoppa við leiði látinna tónskálda og heiðrað minningu þeirra sem hafa sett mark sitt á tónlistarsöguna og tengst okkur með einhverjum hætti, segir Dagur Jónasson söngvari KR. -Eitt af þeim lögum sem við sungum á tónleikunum var við texta eftir Bólu Hjálmar „sjá nú hvað ég er beinaber“ lag Sigvalda Kaldalóns. Tónleikar Karlakórs Reykjavíkur og Heimis sem fram fóru um síðustu helgi tókust einkar vel þar sem þó fleiri hefðu mátt berja þessa mögnuðu kóra augum á seinni tónleikunum.

Einsöngvarar kóranna voru í banastuði og var þeim klappað lof í lófa en sérstaka eftirtekt og aðdáun vakti Árni Geir Sigurbjörnsson, hjá Reykjarvíkurkórnum en hann er Skagfirðingur í húð og hár, sonur Sigurbjörns Árnasonar húsvarðar í íþróttahúsinu á Króknum. Fékk hann að vonum sérstakar móttökur hjá heimamönnum fyrir fallegan einsöng í Íslandslagi Björgvins Guðmundssonar og Gríms Thomsen.

Samstarf kóranna heldur áfram því laugardaginn13. mars kl. 15:00 og kl. 17:30 verða tvennir tónleikar í Langholtskirkju í Reykjavík. Á leiðinni suður ætla Heimismenn að koma við í Borgarneskikju og halda tónleika fyrir Borgfirðinga og nærsveitamenn föstudagskvöldið 12. mars kl. 20:30. Nánar er fjallað um tónleikana í nýútkomnum Feyki.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir