Styttist í fyrsta leik í 2.deildinni

Nú eru aðeins nokkrir dagar þar til flautað verður til leiks í 2.deildinni í knattspyrnu. Pepsi deildin og sú 1. hófst um liðna helgi en innan seilingar er 2.deildin. Laugardaginn 16. maí kl.14:00 leikur Tindastóll gegn Gróttu á Gróttuvelli og hvetjum við sunnlenska Skagfirðinga að mæta og hvetja liðið til dáða.

 

Undirbúningur Tindastólsliðsins hófst ekki að neinu marki fyrr en eftir áramót en fram að þeim tíma voru leikmenn í rólega gírnum en spíttu svo í lófana á nýju ári.  Róbert Haraldsson hætti með liðið í haust, nokkuð óvænt og alveg að hans ósk og frumkvæði.  Þetta setti stjórn og leikmenn í nokkur vandræði en það má segja að með hverju áfalli koma nýjir möguleikar.

 

Myndað var þjálfarateymi þriggja manna sem saman munu stýra m.fl. sem og 2.fl. félagsins í sumar.  Þetta eru þeir félagar Bjarki Már Árnason, Sævar Pétursson og Guðjón Örn Jóhannsson.  Allt miklir reynsluboltar sem munu hafa verkaskiptingu sín á milli og mun Guðjón sjá um 2.flokkinn sem er okkur afskaplega mikilvægur.

 

Leikmannahópurinn er ekki mikið breyttur frá fyrra ári en þó hafa nokkrir horfið á braut og má þar nefna Donna sem skipti yfir í ÍA, einnig hurfu á braut þeir Kristófer og Kristján Páll. Svo má ekki gleyma þeim fóstbræðrum Róbert Haralds og Saso sem fóru til síns heima, annar á Siglufjörð en hinn til Serbíu.

 

Tindastólsliðið hefur fengið liðstyrk, þá Sævar Pétursson, Guðmund Vilbergsson, Stefán Vagn Stefánsson og Kristmar Geir Björnsson. 

 

 

Heimild: Tindastóll.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir