Styrktartónleikar fyrir Alexöndru Líf
Árið 2004 greindist Alexandra Líf með hvítblæði þá 5 ára gömul. Hún hefur verið í lyfjameðferð og allskyns rannsóknum síðan. Þegar fjölskyldan var að ganga í gegnum þessa ströngu og erfiðu meðferð þá dundi yfir þau hörmulegt slys þar sem litli drengurinn þeirra þriggja ára gamall drukknaði.
Einnig áttu þau litla stelpu sem var tæplega tveggja ára þegar þetta slys gerðist. Í ágúst árið 2006 eignuðust þau svo stúlku og í október árið 2007 eignuðust þau dreng.
Nú árið 2009 eða 5 árum seinna hefur komið í ljós að Alexandra er ekki lengur með hvítblæði. Þrátt fyrir þau tíðindi að hvítblæðið væri læknað var hún áfram mjög veik og var þess vegna í stöðugum rannsóknum sem nú hafa leitt í ljós að hún er komin með krabbamein sem kallast MDS sem nær eingöngu gamalt fólk fær.
Núna í ágúst fer hún í beinmergsskipti sem er margra vikna ferli og því þurfa báðir foreldrar hennar að hætta að vinna því það þarf að vera hjá henni á spítalanum allan sólarhringinn. Systir hennar sem er 6 ára mun gefa henni merg þannig að álagið verður mikið á alla fjölskylduna.
Fjölskyldan hefur verið búsett í Danmörku þar sem foreldrarnir hafa skipst á að vera í námi og eru því ekki með mikið milli handanna. Því höfum við Ólöf Ása Þorbergsdóttir og Elva Rut Antonsdóttir ákveðið að halda tónleika til styrktar þessari fjölskyldu sem gengið hefur í gegnum meiri og erfiðari raunir en sanngjarnt er að leggja á fólk.
Haft var samband við fjölda tónlistarmanna til að leggja þessu málefni lið og gefa þeir allir vinnu sína.Við hvetjum því fólk til þess að mæta á tónleikana og njóta góðrar tónlistar frá góðu tónlistarfólki og um leið að styrkja þessa fjölskyldu.
Fram koma í engri sérstakri röð:
Ingó og veðurguðirnir, Fjallabræður, Þorbergur Skagfjörð, KK, Vítamín, Páll Óskar, Hera Björk, Hafdís Huld, Cliff Clavin, Edgar Smári og Arnar Jónsson, Zúúber Grúbban, Skítamórall, Jeff Who?, Karen Ósk Þórisdóttir og Anna Hjördís Skagfjörð, Greifarnir
Þeir sem ekki komast á tónleikana eða langar til að styrkja þetta málefni enn frekar geta lagt beint inn á bankareikninginn. Reikningsnúmer 0537 – 14 – 403800 kt. 160663-2949
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.