Sturlungaslóð með glæsilega heimasíðu
Félagið á Sturlungaslóð hefur opnað glæsilega heimasíðu þar sem starfsemi, ferðir og fleira tengt félaginu er kynnt. Næsta ferð á vegum félagsins verður farin á laugardag þegar rölt verður um Reynistað.
Á 13. öld börðust nokkrar valdaættir um yfirráðin á Íslandi. Þessi öld hefur stundum verið kölluð Sturlungaöld eftir einni þessara ætta. Í Skagafirði voru það Ásbirningar sem fóru með völdin. Sturlungaættin náði völdum á Vesturlandi og austanverðu Norðurlandi og þar með lentu Ásbirningar mitt á milli áhrifasvæða þeirra. Haukdælir sem ríktu á Suðurlandi, ásamt Oddaverjum, voru bandamenn Ásbirninga. Nokkur mestu átök þessarar aldar áttu sér stað í Skagafirði. Víðinesbardagi í Hjaltadal var 1208, Örlygsstaðabardagi 1238, haldið til Flóabardaga 1244, Haugsnesbardagi var 1246 og Flugumýrarbrenna 1253.
Félagið Á Sturlungaslóð í Skagafirði stendur fyrir því verkefni að merkja og gera þessa sögustaði aðgengilega. Á stöðunum eru upplýsingaskilti sem greina frá atburðum og sum staðar er aðstaða til að setjast niður, borða nestið sitt og njóta náttúrunnar. Í boði eru göngu- og rútuferðir á sögustaðina, með leiðsögn, og fleiri staði sem tengjast þessu tímabili. Hópar geta einnig pantað leiðsögn.
Heimasíðuna má finna hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.