Strembin vika hjá Brunavörnum Skagafjarðar
Síðasta vika hefur verið ansi erilsöm hjá Brunavörnum Skagafjarðar. Fyrst var allsherjarútkall í síðustu viku þegar farþegarúta valt út í Húsaeyjarkvísl en að sögn Svavars Atla Birgissonar, slökkviliðsstjóra, fór þar betur en á horfðist. Í gær og í dag hafa síðan kviknað eldar í Skagafirði; þrennir sinueldar í gær og gróðurhús brann til kaldra kola á Hofsósi í morgun.
Í hádeginu í gær var slökkviliðið kallað út vegna sinubruna nálægt Miklahól í Viðvíkurhreppi hinum forna, við veg 767. Einstaklingur sem kom að sinubrunanum reyndi að slökkva eldinn en þegar útséð var með að hann næði því kallaði hann á aðstoð. Brunavarnir sendu tvo menn á bíl á vettvang en áður en þeir komust á leiðarenda óku þeir fram á annan sinueld við veg 76, milli Ennis og Kýrholts. Svavar Atli segir allt benda til þess að um íkveikjur hafi verið að ræða sem getur reynst mjög hættulegur leikur. Sem betur fer var vindur hagstæður þannig að fljótt náðist stjórn á aðstæðum.
Um fimmleytið sama dag var annað útkall og þá vegna sinubruna milli Tumabrekku og Brekkukots. Svavar Atli áréttar að sinubrunar eru almennt óheimilir, nema að ströngum skilyrðum uppfylltum.
Í morgun kviknaði síðan eldur í garðhúsi við Austurgötu á Hofsósi. Það brann til kaldra kola og litlu mátti muna að illa færi því rúður í nærliggjandi húsi voru farnar að skjálfa vegna hitans frá eldinum. Illa hefði getað farið ef þær hefðu gefið sig. Í því tilfelli telur Svavar að líkast til hafi verið um svokallaða sjálfsíkveikju að ræða, eldur hafi kviknað í moltu eða álíka, þar sem ekki var rafmagn í húsinu. Loftun gæti mögulega komið í veg fyrir að svona atburðir verði.
Vikan hefur því verið óvenju strembin að sögn Svavars en auk þessa hefur slökkviliðið sinnt sjúkraflutningum sem hafa verið talsverðir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.