Stórtónleikar í Höfðaborg
Sunnudaginn 13. september kl. 16.00 verða haldnir stórtónleikar í Félagsheimilinu Höfðaborg Hofsósi. Tónleikarnir eru helgaðir minningu rithöfundarins Bill Holm en hann lést síðastliðinn vetur. Fram koma stórstjörnurnar Jónas Ingimundarson píanóleikari, Kristinn Sigmundsson bassi og Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran.
Á efnisskránni eru brot úr mörgum þekktustu óperuperlum heims eftir höfundana
Georg Gerhwin, Gustav Mahler, Johannes Brahms, Giuseppe Verdi og Vincenzo Bellini.
Ljóst er að þarna eru á ferðinni einstakir listamenn og er það mikill heiður fyrir Skagfirðinga að fá þau í heimsókn.
UM FLYTJENDUR
SIGRÚN HJÁLMTÝSDÓTTIR sótti fyrst einkatíma í Tónlistarskólanum í Reykjavík en nam síðan við Guildhall School of Music and Drama í London og lauk þaðan prófi í einsöng og kennslu. Hún fór í framhaldsnám til Ítalíu og tók þar þátt í keppnum og vann til verðlauna. Sigrún hefur haldið fjölda tónleika hér heima og erlendis og sungið með íslenskum og erlendum hljómsveitum. Hún söng í Ævintýrum Hoffmans í Þjóðleikhúsinu og hjá Íslensku óperunni hefur hún m.a. sungið Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, bæði Papagenu og Næturdrottninguna í Töfraflautunni, Luciu í Lucia di Lammermoor, Violettu í La Traviata og Adinu í Ástardrykknum. Hún söng sem gestasöngvari í Þrándheimi, hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós og í Gautaborg hlutverk Gildu í Rigoletto. Sigrún var á tímabili á starfslaunum listamanna og hélt tónleika víða um heim og heima. Sigrún hefur sungið inná ógrynni hljómplatna síðastliðin 30 ár. Á síðustu árum hefur hún hljóðritað 9 einsöngsdiska, þar af fjóra með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sigrún Hjálmtýsdóttir var sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1995.
KRISTINN SIGMUNDSSON hóf söngnám hjá Guðmundi Jónssyni við Söngskólann í Reykjavík. Síðan lærði hann hjá Helene Karusso í Vínarborg og John Bullock í Washington. Kristinn hefur svo til eingöngu sungið erlendis síðustu þrjátíu ár og hefur komið fram í flestum virtustu tónlistar- og óperuhúsum heims; Vínaróperunni, Metropolitanóperunni í New York, La Scala í Mílanó, Covent Garden í London, Óperunni í Barcelona, Berlín, París, San Francisco, Los Angeles og víðar. Hann hefur tekið þátt í nokkrum erlendum hljóðritunum á vegum Decca, Philips og Harmonia Mundi. Kristinn var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994 og útnefndur heiðurslistamaður Kópavogs árið 2005.
JÓNAS INGIMUNDARSON stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg og hefur síðan starfað sem píanóleikari, tónlistarkennari og kórstjóri. Hann hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis og leikið inn á fjölda hljóm-platna, auk þess sem hann hefur staðið fyrir öflugu tónlistarkynningar-starfi. Jónas hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994 og Dannebrog orðunni árið 1996. Árið 2008 var hann fyrstur Íslendinga valinn í hóp Steinway-listamanna. Jónas er tónlistarráðunautur Kópavogs og árið 2004 var hann valinn heiðurslistamaður bæjarins. Jónas nýtur heiðurslauna Alþingis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.