Stórt feitt nei í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna Icesave
Ekki voru Íslendingar á þeim buxunum að samþykkja lög ríkisstjórnarinnar frá því í árslok 2009 um Icesave-samning í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í gær. Í Norðvesturkjördæmi greiddu 13.561 atkvæði sem er 63,6% kjörsókn. Já sögðu 295 eða 2,18%, nei sögðu 12.573 eða 92,71%.
Auðir atkvæðaseðlar í kjördæminu voru 660 eða 4,87% og ógildir 33 eða 0,24%.
Heildarkjörsókn á landinu var í kringum 62% en samkvæmt nýjustu tölum sögðu 93,2% nei við lögunum en 1,8% já. Þátttaka í kosningunum hlýtur að teljast vel viðunandi.
Athyglisvert er að gerð hefur verið skoðanakönnun þar sem MMR kannaði afstöðu fólks til þess hvort það vildi að ákvarðanataka vegna nýrra Icesave samninga yrði eingöngu í höndum Alþingis eða hvort það vildi að slíkir samningar væru bornir aftur undir þjóðaratkvæði.
Af þeim sem tóku afstöðu voru í heild 49,5% sem sögðu að nýr Icesave samningur yrði líka sendur í þjóðaratkvæði en 50,5% sögðust vilja að nýr samningur yrði eingöngu afgreiddur af Alþingi.
Það má síðan brosa út í annað þegar fréttavefirnir sem segja frá þessari niðurstöðu eru skoðaðir; Rúv.is segir að helmingur þjóðarinnar vilji ekki kjósa um ný lög en Mbl.is segir að helmingur vilji kjósa.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.