Stóra keðjusögin felldi tréð

Mynd: Húnavallaskóli

Á vef Húnavallaskóla er að finna frásögn af því þegar krakkar fóru að Hofi í Vatnsdal fyrir helgi og völdu sér jólatré . Það eru umsjónakennararnir Þórunn og Kristín Jóna sem skráðu ferðasöguna niður.

Miðvikudaginn 3. desember, hélt allur hópurinn á Lambastöðum í jólatrésleiðangur ásamt kennurum sínum. Gústi ók okkur sem leið lá að Hofi í Vatnsdal á stórri rútu. Grímur fylgdi á eftir á stóra jeppanum sínum með kerru undir tréð. 
Í skógarreitnum á Hofi tóku hjónin Jón og Eline á móti okkur. Hópurinn dreifði sér um skóginn í smá stund í leit að álitlegu tré.

Færið var þungt en þrátt fyrir það fundum við fullkomið jólatré. Jón bóndi kom með stóru keðjusögina og felldi tréð. Allir hjálpuðust að við að koma því niður á veg og upp í kerruna. Eftir leiki og skoðunarferðir um reitinn, þar sem drengirnir töldu sig hafa fundið tófugreni og minkaholu, var haldið heim. Það voru rjóð og ánægð börn sem hjálpuðust að við að velta trénu úr kerrunni þegar heim kom. Síðan drifu þau sig heim hvert með sínum skólabíl.
Nú bíðum við spennt eftir að sjá tréð í lóðréttri stöðu, prýtt mislitum jólaljósum, en það verk mun Grímur sjá um.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir