Stór sigur á Stjörnunni í Garðabænum
Eftir tvo tapleiki í byrjun móts var pínu presssa á liði Tindastóls að krækja í stig í Garðabænum í kvöld þegar Stólastúlkur sóttu lið Stjörnunnar heim. Eins og reikna mátti með sat lið Tindastóls aftarlega á vellinum en beitti snörpum skyndisóknum þegar boltinn vannst. Þrátt fyrir að heimastúlkur hafi verið talsvert meira með boltann í kvöld þá unnu gestirnir sanngjarnan sigur, gerðu eitt mark í hvorum hálfleik og hefðu hæglega getað unnið stærra. Lokatölur 0-2.
Byrjunarlið Tindastóls var skipað fyrirliðanum frá Brautarholti, tveimur Króksurum, tveimur 16 ára stúlkum frá Skagaströnd, einni úr Vatnsdalnum, einni þýskri og annarri finnskri og loks þremur bandarískum leikmönnum. Hver finnur upp svona snilldar kokteil?
Það var Jordyn Rhodes sem gerði fyrsta markið á 21. mínútu eftir laglega sendingu frá Laufeyju Hörpu frá vítateigshorninu vinstra megin. Jordyn náði ágætum skall sem fór á milli fóta Erin í marki Stjörnunnar og í markið. Heimastúlkur fengu mýgrút af hornspyrnum og innköstum en náðu ekki að skapa sér mikið, vörnin var ólseig eins og oft áður og bakvið hana var Monica algjör klettur, sterk og varði fáeinum sinnum snilldarlega.
Lið Stjörnunnar pressaði af krafti fyrstu 20 mínútur síðari hálfleiks en þegar Hugrún kom inn fyrir Löru Margréti og sóknaráhersla Stólastúlkna jókst þá sköpuðust oft aðstæður þar sem það munaði bara hársbreidd að gestirnir bættu við marki. Skyndisóknirnar voru vel útfærðar og boltinn gekk oft ansi laglega. Það var hins vegar ekki fyrr en á 92. mínútu sem Jordyn bætti við síðara marki Tindastóls, náði ágætu skoti á nærstöng eftir fínan undirbúning frá Hugrúnu. Hún bætti við þriðja markinu skömmu síðar eftir enn betri sókn en var metin rangstæð og það stóð því ekki.
Samheldinn og frábær hópur
Feykir náði í skottið á Donna þjálfara að leik loknum og spurði fyrst hvað hefði skapað sigurinn í kvöld. „Liðsheildin og baráttan skóp sigurinn i bland við bullandi gæði. Liðið hefur verið að spila vel og skapa góð færi en núna loksins small saman bæði góð vörn og sókn.“
Hverju ertu stoltastur af? „Ég er gríðarlega stoltur af leikmönnunum og hópnum. Þær eru svo samheldinn og frábær hópur og með þessu áframhaldi munu þær ná sínum markmiðum.“
Hvernig finnst þér nýir erlendir leikmenn Stólanna hafa byrjað mótið? „Nýju erlendu leikmennirnir [Jordyn, Gabbie og Annika] eru að smella vel inn í allt hjá okkur og verða ennþá betri með hverjum leiknum.“
Hversu mikilvægt var að ná í sigur á erfiðum útivelli? „Það er mjög mikilvægt að ná fyrsta sigrinum svona snemma í mótinu og stimpla sig inn. Þetta gefur okkur ennþá meiri trú á okkur ef hægt var og við munum verða enn öflugri þegar líður á mótið,“ sagði kampakátur þjálfarinn.
Lið Tindastóls því komið með þrjú stig eftir þrjá ágæta leiki. Næstkomandi fimmtudag ætti lið Fylkis að öllu jöfnu að koma í heimsókn á Krókinn en það er þó ólíklegt að völlurinn á Króknum verði metinn leikhæfur eftir tjónið sem hann varð fyrir á dögunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.