Stólastúlkur með annan fótinn í Bestu deildinni eftir sigur í gær

Ánægðar Stólastúlkur eftir sigur í gærkvöldi. Mynd: PF.
Ánægðar Stólastúlkur eftir sigur í gærkvöldi. Mynd: PF.

Stelpurnar í Tindastól komu öðrum fætinum inn fyrir þröskuldinn í deild hinna bestu er þær sigruðu Fjölni í miklum markaleik í norðansvalanum á Króknum í gærkvöldi en tvö efstu liðin í Lengjudeildinni komast upp. Á sama tíma og Stólar fögnuðu 5-0 sigri tapaði HK dýrmætum stigum í toppbaráttunni gegn Víkingi en HK stelpur hafa háð harða baráttu við Stóla um annað sætið. FH tryggði sér sæti í Bestu deild að ári með 0-4 sigri á Grindavík og aðeins blautir draumar að Tindastóll nái efsta sætinu af þeim. En hver veit?

Heimastúlkur byrjuðu leikinn af krafti og gerðu harða hríð að marki gestanna án þess þó að ná að setja boltann inn fyrr en stutt var til hálfleiks. En eitthvað varð að láta undan sóknarþunganum og náði Murielle Tiernan að brjóta ísinn á 36. mínútu og heimastúlkur fögnuðu. Stuttu síðar skoraði María Dögg Jóhannesdóttir annað mark Stóla og þannig stóð í hálfleik.

Það var greinilegt að stelpurnar voru ekkert saddar með þessi tvö mörk og pressuðu vel og ætluðu að vinna mun stærra enda nauðsynlegt í þeirri spennandi toppbaráttu sem uppi er í deildinni. Áfram hélt baráttan og leikurinn nær eingöngu einstefna á mark gestanna sem náðu lítið að skapa sér færi í leiknum. Eftir mikið klafs í teig gestanna náði Bryndís Rut Haraldsdóttir að lauma boltanum inn fyrir marklínuna og bætti þar með þriðja markinu við eftir 20 mínútna leik í seinni hálfleik. Tæplega stundarfjórðungi síðar gerði Aldís María Jóhannsdóttir fjórða markið og Murielle kláraði svo leikinn með hörku skoti langt utan að velli á 82. mínútu.

Donni þjálfari sagðist mjög ánægður með hvernig stelpurnar nálguðust leikinn. Segir góðan varnarleik liðsins vera lykillinn að árangri enda frábært sóknarlið sem skorar oftast mörk.

„Ég var mjög ánægður með barráttuna og vinnusemina varnarlega og þennan gríðarlega vilja sem liðið sýndi í dag og í raun allt tímabilið. Frábært að halda hreinu og að fá varla færi á okkur í leiknum auk þess að stelpurnar gerðu fimm frábær mörk.“

Nú þegar aðeins tveir leikir eru eftir og staðreyndin sú að aðeins þrjú stig skilja að efstu lið Lengjudeildarinnar, FH með 40 stig og Tindastóls með 37, er erfitt að svekkja sig ekki á töpuðum stigum í sumar í einum tapleik gegn HK og fjórum jafnteflisleikjum fyrr í sumar.

Donni segist hins vegar ekki vera svekktur með neitt í sumar hingað til og það hjálpar aldrei neinum að hugsa hvað hefði getað gerst heldur einbeitir liðið sér að næsta leik og því sem það vill gera þar.“

Til þess að sigra í deildinni þarf Tindastóll að vinna sína tvo leiki en treysta á að FH misstígi sig gegn Fylki, sem situr í 6. sæti með 17 stig. Nægir Stólum að FH geri jafntefli í þeim leik en seinasti leikur Stóla er svo einmitt gegn FH þann 16. september og þann leik verða Stólar að vinna. Verði þessi lið jöfn að stigum hefur FH mikið forskot hvað markahlutfall áhrærir og enginn séns að vinna það fyrir Stóla.

„Við erum klárlega verðskuldað í nokkuð góðri stöðu en það er mjög hættulegt að fara að áætla eitthvað fyrirfram. Það er mjög mikilvægt að vera einbeitt á að klára af sér næsta leik eins vel og hægt er og svo tökum við stöðuna,“ segir Donni eftir miklar stöðupælingar spyrjanda.

Er þessi staða eitthvað sem þú lagðir upp með í upphafi tímabilsins?

„Þetta er eins og er já klárlega að spilast eftir áætlun, en aftur, það er enn mikið sem á eftir að gerast og núna er mikilvægt að gefa allt í æfingar fram að næsta leik og koma einbeittar í hann.

Næsti leikur Stóla er gegn Augnablik þann 10. september á Kópavogsvelli og eru allir hvattir til að fjölmenna og styðja stelpurnar. „Það er gríðarlega mikilvægt að stelpurnar fái eins mikinn stuðning og hægt er núna í tveim síðustu leikjunum því það er allt undir og þær eiga það svo sannarlega skilið. Gefum allt í þetta saman fyrir samfélagið okkar,“ segir Donni að lokum.

Áfram Tindastóll!

Stólar Stólar þrjú stig þrjú stig!

Posted by Páll Friðriksson on Föstudagur, 26. ágúst 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir