Stólastúlkur mæta Íslandsmeisturum Vals í Mjólkurbikarnum
Dregið var í 16 liða úrslit í Mjólkurbikar kvenna í dag og þar voru Stólastúlkur í pottinum. Það er umdeilanlegt hvort drátturinn geti talist hagstæður en lið Tindastóls fékk heimaleik gegn hinu gríðarsterka liði Vals sem er ríkjandi Íslandsmeistari. Það er að sjálfsögðu heiður að mæta meisturunum en leikurinn fer fram laugardaginn 28. maí og hefst kl. 17:00.
Það er fyrrum leikmaður og þjálfari mfl. karla hjá Tindastóli sem þjálfar lið Vals, markamaskínan Pétur Pétursson. Hann þjálfaði lið Vals sömuleiðis í fyrra en þá mættust liðin tvívegis í Pepsi Max deildinni og reyndist Valur eina liðið í efstu deild sem í raun skellti Stólastúlkum all harkalega og það í báðum leikjum, enda liðið með toppleikmenn í öllum stöðum.
Feykir spurði Donna þjálfara hvort hann ætti von á erfiðum leik gegn Íslandsmeisturunum. „Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik. Við búumst auðvitað við mjög snúinni barráttu við eitt besta lið landsins en á sama tíma höfum við tröllatrú á okkur sjálfum og því sem við stöndum fyrir. Við vonum bara innilega að allir fái miða á leikinn sem vilja koma,“ segir Donni léttur. Það er næsta víst að það ætti ekki að vefjast fyrir stuðningsmönnum Vals að mæta á Krókinn – þeir eru farnir að þekkja leiðina :o)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.