Stólastúlkur lögðu lið Völsungs

Næstsíðasti leikurinn í Kjarnafæðismótinu, sem hófst í desember, var leikinn í gær en þá mættust lið Tindastóls og Völsungs í Boganum. Mótið átti að klárast í byrjun febrúar en veður og Covid settu strik í reikninginn og síðan tók Lengjubikarinn yfir hjá liðunum. Stólastúlkur spiluðu sinn síðasta leik á mótinu í gær og báru sigurorð af liði Húsvíkinga en lokatölur voru 3-1.

Una Móeiður Hlynsdóttir kom liði Völsungs yfir á 9. mínútu en Anna Margrét Hörpudóttir jafnaði metin á 16. mínútu með þrumuskoti af löngu færi en þetta var víst ekki fyrsta mark Önnu fyrir meistaraflokk Tindastóls. Hugrún Palla og Guðnýjar kom Stólastúlkum síðan yfir á 41. mínútu eftir frábæra sókn. Hugrún átti síðan stóran hlut í þriðja markinu sem kom eftir hornspyrnu á 64. mínútu en markið var skráð á Ísabellu Júlíu Óskarsdóttur, markvörð Völsungs.

Í lið Tindastóls vantaði varnarjaxlana Kristrúnu Maríu og Sólveigu Birtu en Arna Kristinsdóttir, sem spilaði í Pepsi Max með Þór/KA sl. sumar klæddist Tindastóls-búningnum í leiknum í gær en leikmenn þurfa ekki að vera skráðir í félagið sem þeir spila með í Kjarnafæðismótinu. Ekki er enn ljóst hver niðurstaðan er í mótinu því einn leikur er eftir en þar mætast sameinuð Austfjarðaliðin og Völsungur.

Hrafnhildur og Krista semja

Á vef Tindastóls í gær var sagt frá því að Hrafnildur Björnsdóttir og Krista Sól Nielsen hefðu skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Tindastóls.

Hrafnhildur er árgangur 1997 og á að baki 122 leiki fyrir Tindastól en í þeim hefur hún skorað 16 mörk. Hrafnhildur hefur fína tækni og gott auga fyrir spili og skilar alla jafna sínu hlutverki djúp á miðjunni. Hún sleit krossband síðsumars 2020 og er rétt komin út á völlinn að nýju en hún missti algörlega af Pepsi Max sumrinu með liði Tindastóls.

Krista Sól er árgangur 2002 en hefur spilað 41 leik með liði Tindastóls og skorað í þeim sjö mörk. Þrátt fyrir þetta þá hefur Krista verið óheppin með meiðsli, sleit krossbönd sumarið 2019 en náði sex leikjum það sumar og komst loks aftur á ferðina haustið 2020. Krista er grjóthörð og afar efnileg, kraftmikil, sókndjörf og áræðin. Hún hefur átt í meiðslum nú á undirbúningstímabilinu, ristarbrotnaði og þurfti í aðgerð en verður vonandi klár í slaginn í byrjun maí samkvæmt heimildum Feykis.

Fótbolti á sunnudaginn

Lið Kormáks/Hvatar annars vegar og Tindastóls hins vegar eiga leiki í Lengjubikarnum á morgun, sunnudaginn 27. mars. Húnvetningar mæti lið KFG í Samsung-höllinni í Garðabænum kl. 14 en lið Tindastóls fær Berserki/Mídas í heimsókn á Sauðárkróksvöll kl. 16:00. Veðurstofan gerir ráð fyrir hita um frostmark og norðan 5 m/sek og því kannski rétt að áhorfendur klæði sig vel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir